Orkumálinn 2024

Þegar við hlökkum ekki til

thorgeir arason webHann nálgast okkur óðfluga, þessi desembermánuður, með öllu sem honum fylgir. Verslanirnar eru þegar farnar að fyllast af alls konar jóladóti, seríuglöðustu nágrannarnir eru búnir að stinga í samband og bráðum verður varla hægt að kveikja á útvarpi öðruvísi en að heyra Sniglabandið syngja um jólahjól.

Og áður en við er litið gengur hátíðin í garð. Mörg gleðjumst við og fögnum yfir fæðingu frelsarans, Jesú Krists. Hjá flestum vekja aðventan og jólin upp jákvæðar tilfinningar af einhverju tagi. Kannski kvikna hjá okkur ljúfar bernskuminningar eða tilhlökkun gagnvart góðum mat, samveru með fjölskyldunni, þess að njóta jólasálmanna og annarrar jólatónlistar, og kannski ekki síst tilhlökkun gagnvart því að taka þátt í jólagleði barnanna í kringum okkur.

En það er ekkert víst að við hlökkum öll til aðventunnar og jólanna. Fyrir því geta vitaskuld verið ýmsar ástæður. Ein þeirra kann að vera ástvinamissir. Fyrir þau sem misst hafa ástvini sína - maka, börn, foreldra, systkini eða nána vini - getur þessi tími oft reynst sár og erfiður. Þrátt fyrir að öll vitum við, að það að missa og sakna sé hluti af því að elska og vera manneskja, er öruggt að sorgin er hvergi aufúsugestur.

Aðventan og hátíðirnar eru tími hefðanna og fjölskyldustundanna og þá er svo ótal margt sem minnir á hana eða hann sem ekki er lengur með í hópnum. Jólagleðin allt í kring getur líka gert sorgina sem inni fyrir býr ennþá áþreifanlegri. Kannski myndu sumir helst vilja bara sleppa fyrstu jólunum eftir missi. Menn finna sér þó ýmsar og ólíkar leiðir til að komast í gegnum þau.

Þjóðkirkjusöfnuðir hér á svæðinu hafa gjarnan í nánd hátíðarinnar boðið til opinnar samveru, sem tileinkuð er jólahaldi í skugga missis og sorgar. Að þessu sinni verður slík samvera haldin rétt áður en aðventan hefst, eða fimmtudaginn 26. nóvember nk. kl. 20:00 í Kirkjuselinu í Fellabæ (sama bygging og íþróttahúsið, aðkoma norðan við húsið).

Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur á Fáskrúðsfirði, mun tala til okkar um efnið „Sorgin og jólin" og er boðið upp á umræður um efnið í framhaldinu. Drífa Sigurðardóttir og félagar úr Kór Ássóknar flytja tónlistaratriði, boðið verður upp á kaffi og dagskránni lýkur með stuttri bænastund þar sem hægt verður að tendra ljós í minningu ástvina.

Allir eru að sjálfsögðu velkomnir í Kirkjuselið og í lokin er rétt að minna á að þessi samvera er alls ekki bara ætluð þeim sem hafa misst ástvin á þessu ári. Þó að fyrstu jólin eftir missinn séu gjarnan þau erfiðustu, er vert að hafa í huga að sorgin er langtímaverkefni. Okkur hættir oft til að hugsa sem svo, að eftir vissan tíma „eigi" fólk að vera búið að syrgja. En tilfinningaleg úrvinnsla eftir missi er flókið, krefjandi og umfram allt tímafrekt verkefni; kannski nokkuð sem fylgir okkur ævina á enda þó að við finnum smám saman aftur von og gleði og tilhlökkun í lífi okkar.

Guð gefi þér og þínum innihaldsríka aðventu og gleðilega jólahátíð.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.