Í kjölfar kynningarfunda um matjurtarækt á Austurlandi

matjurtafundur 2Eins og fram hefur komið í blaðagreinum, útvarpsviðtali og auglýsingum, voru haldnir tveir fundir til kynningar á verkefninu ,,Matjurtarækt á Austurlandi - undirbúningsverkefni" hér eystra.

Fyrri fundurinn var boðaður á Reyðarfirði, en hinn á Egilsstöðum. Fundurinn á Reyðarfirði féll niður, þar sem enginn mætti nema forsvarsmenn og annar fyrirlesarinn, Guðríður Helgadóttir (Gurrý) frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Heimamaðurinn, sem er úr matsölugeiranum í Neskaupsstað, fór dagavillt, sem kom þó ekki að sök af fyrrgreindum ástæðum.

Aðra sögu er að segja af mætingunni í Valaskjálf á Egilsstöðum, þar sem hartnær 30 manns komu til að hlýða á erindi Gurrýjar og er óhætt að segja að hún hafi kveikt heldur betur í mannskapnum, enda ríkti þar mikill áhugi á málefninu.

Í inngangsorðum sínum lýsti verkefnisstjóri m.a. stuttlega aðdraganda verkefnisins og hvernig unnið hefur verið að framkvæmd þess hingað til. Lét hins vegar í ljós vonbrigði með að enginn úr hópi veitingamanna á Austurlandi kom á fundinn, né fulltrúi frá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML) eða frá Sölufélagi garðyrkjumanna (Sfg), þrátt fyrir beiðni og eftirgangssemi þar að lútandi, utan þess að Gurrý hljóp undir bagga varðandi Sfg í sínu erindi.

Þessi mætingarmunur á fundina í efra og neðra segir kannski ekki allt um áhugastig fyrir málefninu. Þar getur t.d. tímasetning fundanna skipt einhverju, auk þess sem Fjarðabúar eru þekktir fyrir margt betur en fundasókn yfirleitt (Reyðfirðingar ekki síst).

Hitt er satt, eins og kom fram á fundinum í Valaskjálf, að með kannski örfáum undantekningum er lítil sem engin hefð fyrir matjurtarækt á Austurlandi og því tími til að skapa hana með því að byrja sem fyrst.

Í þessu sambandi er í ráði að bjóða áhugasömum upp á námskeið í matjurtarækt síðar í haust ef næg þáttaka fæst.

Í lok erindis síns taldi Gurrý ráð að styrkja efnilegt ungt fólk til að nema garðyrkjufræði gegn því að vinna við fagið tiltekinn tíma, þar sem hér austanlands er umtalsverður markaður fyrir hendi, og auk þess greið leið til útflutnings með Norrönu. - Margt fleira athyglisvert kom fram í erindi hennar, sem of langt mál væri að tíunda frekar hér.

Umræður voru miklar og áhugaverðar. Kom þar fram sú athyglisverða tillaga að þeir sem áhuga hefðu mynduðu hóp áhugafólks um málefnið. Er skemmst frá því að segja að að 19 fundargestir skráðu sig í hópinn á staðnum.

Viljum að lokum minna áhugasama á að fylgjast með námskeiðahaldi því, sem nefnt var og verður stofnað til af verkefnisstjórninni og LBHÍ. Sömuleiðis verður vafalaust tekið við fleiri félögum í áhugamannahópinn (skráning hjá Margréti Árnadóttur í netfangi mma(hjá)simnet.is)

Verkefnisstjórnin
Sími 897 2358
Netfang: toti1940(hjá)gmail.com

Mynd 1: Guðríður Helgadóttir flytur erindi sitt.
Mynd 2: Fundarmenn í Valaskjálf.

matjurtafundur 1

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.