Framtíðin étur börnin sín

gunnarg april1306Tæpur helmingur þeirra fyrirtækja sem tekinn er til gjaldþrotaskipta er yngri en sex ára gamall. Sambönd fólks, hópa og annarra ganga í gegnum mismunandi þroskaskeið. Mesta fjörið er fyrst þegar sköpunin ræður ríkjum og spennan er allsráðandi, menn eru að kynnast og ganga saman í átt til framtíðar. Sköpunin fer að bera árangur og svo kemur stöðugleikinn. Hann er erfiðastur því menn festast í örygginu, sköpunin dvínar og árangurinn sömuleiðis. Í kjölfarið fylgir annað hvort gjaldþrot eða menn finna sköpunargleðina aftur og bjarga sér.

Þessi lífkúrfa á við um stjórnmálaflokka rétt eins og önnur félög eins og flokksmenn í Bjartri framtíð fá nú að kynnast.

Segja má að Björt framtíð sé runnin úr tveimur áttum. Besti flokkurinn kom fram á sjónarsviðið í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna vorið 2010 í sérstöku umhverfi og varð að afli sem enginn réði við.

Tæp fjögur ár eru síðan Guðmundur Steingrímsson gekk úr Framsóknarflokknum ásamt nokkrum öðrum og lýsti yfir stofnun frjálslynds miðjuflokksins. Í aðdraganda þingkosninganna vorið 2013 runnu þessar tvær blokkir saman og mynduðu þingframboð. Samruninn var staðfestur enn frekar með framboði Bjartrar framtíðar á sveitarstjórnarstiginu í fyrravor.

En eftir því sem tíminn líður fellur flokkurinn meira og meira í mót hefðbundinna stjórnmála, hvort sem það er með því að bera ábyrgð á verkum í meirihluta eða vinna innan þess ramma sem settur er á Alþingi. Næstu þingkosningar ber upp á sex ára afmælisár flokksins og eins og staðan er í dag er rétt að spyrja hvort upp á það verði haldið.

Meira vesen, minni sátt

Í áhersluatriðum flokksins er talað um „minna vesen" og „meiri sátt" með undirlínunni að á Íslandi sé „hver sáttahöndin upp á móti annarri." Á kosningafundi á Egilsstöðum vorið 2013 ítrekaði Brynhildur Pétursdóttir, sem nú er þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, þessa stefnu. „Það á ekki að þurfa þessi leiðindi og skítkast í stjórnmálunum. Við boðum almennt minna vesen og það skiptir miklu máli."

En það er gjarnan þannig að þegar á bjátar sést úr hverju menn eru gerðir. Og það er nú fyrst að gerast hjá Bjartri framtíð.

Vart er hægt að finna opinberara dæmi um rýtingsstungur, þótt horft væri á allar seríurnar þrjár af House of Cards, en þá sem Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi stjórnarformaður flokksins sem kemur úr Besta flokknum, rak í bak formannsins, Guðmundar Steingrímssonar, í síðustu viku. Fyrst með því að segjast ekki taka sæti á þingi með hann sem formann, síðan með því að segjast geta hugsað sér að taka við sem formaður.

Þau ummæli passa vart við hugsunina um „minna vesen og meiri sátt" en „leiðindi og skítkast" eru mögulega of væg til að lýsa þeim.

Og ljóst er að hver sáttahöndin er upp á móti annarri í flokknum. Þingmenn flokksins hafa grafið enn frekar undan formanninum með því að styðja hann ekki afdráttarlaust opinberlega heldur svara með þögninni, utan Róberts Marshalls sem sagði árásir Heiðu ekki í anda flokksins. Oddviti framboðsins í borginni, annar lykilmaður frá tíma Besta flokksins, tók jafnvel undir með varaformanninum.

Þegar svoleiðis gerist hljóta áhorfendur að sjá að eitthvað mikið vesen er í gangi.

Og hvað er í gangi?

Síðan hefur ekkert til hans spurst

Í fyrsta lagi það að lítið hefur til þingflokksins spurst almennt. Ríkisstjórnin er ein hin óvinsælasta í sögunni – hið minnsta síðan á síðasta kjörtímabili – en ekkert af því fylgi fer til flokksins þrátt fyrir að hann sé í stjórnarandstöðu. Þvert á móti hrynur það af honum hlutfallslega jafn hratt og ríkisstjórnarflokkunum.

Flokkurinn hefði getað tekið nokkur lykilmálefni fyrir, komið með lausnir á þeim og hamrað á þeim með ákveðnu orðalagi. Í staðinn er lykilmálefnið frumvarp um breytingu klukkunnar sem stærstur hluti þjóðarinnar nennir vart að hugsa um.

Í öðru lagi hefur flokkurinn komist til valda í nokkrum stórum sveitarfélögum en síst sýnt af sér betri hegðun en aðrir. Grófustu dæmin eru úr Hafnarfirði þar sem símtalaskrár bæjarstarfsmanna voru grandskoðaðar, bæjarstjórnarfundur boðaður með engum fyrirvara örstuttu eftir að sumarleyfi var hafið og snúið frá fyrri umsögn um þingfrumvarp eftir hringingu frá þingmanni.

Í þriðja lagi hvort upp séu að koma tveir armar, Besti flokkurinn á móti frjálslyndum miðjumönnum, í þessu sinni Björn Blöndal og Heiða Kristín gegn Guðmundi Steingrímssyni og Róberti Marshall.

Þegar hitna tekur undir fólki leitar það að ástæðum, eða sökudólgum. Að þessu sinni beinast spjótin að formanninum. Fögur fyrirheit um nýja póltík með blóm í haga fara út um gluggann og við tekur gamaldags skrifstofupólitík og barátta fyrir eigin framtíð og orðspori.

Nú reynir á hvernig flokksmenn ná í praxís að framfylgja eigin orðum.

Virka gömlu brögðin best?

Sagt er að vinnusemin yfirvinni alltaf snilldina og sú tilfinning situr eftir að loknum þingkosningum og borgarstjórnarkosningum að flokksmenn hafi ekki verið tilbúnir í þá erfiðisvinnu sem þarf til að vinna kosningar.

Frambjóðendur voru misvel inni í málum og reyndu að snúa sig út úr stefnumarkandi spurningum með því að tala um samtal, samráð eða leita á náðir fagmanna. Það verður hins vegar stundum þannig að ef tveir vinir þínir deila og þú tekur ekki afstöðu að þeir verða báðir brjálaðir út í þig eftirá.

Í öðru lagi er það sagan af sjálfboðaliðanum sem bauðst til að hjálpa Bjartri framtíð í borginni en var sagt að ekki væri þörf á sjálfboðaliðum. Mun þetta vera eina stjórnmálaaflið í heimssögunni sem afþakkað hefur slíka hjálp frá sæmilega óbrjálaðri manneskju. Eftir þægilegan sigur 2010 virðast menn hafa trúað eigin söng um „við erum best" og haldið að atkvæðin kæmu af sjálfu sér.

Þau héldu hins vegar upp í sumarbústað án þess að vera búin að kjósa og skiluðu sér aldrei í kjörkassana.

Það getur verið erfitt að viðhalda spennunni og finna sífellt upp á einhverju nýju. Þingmenn Bjartrar framtíðar virðast hafa verið komnir með leið á ríkjandi ástandi og vonast eftir upplyftingu með innkomu Heiðu Kristínar í haust.

Nú þurfa þeir að taka afstöðu með framtíð sína og flokksins í huga. Til þess gætu þeir þurft að beita gamalkunnum leiðindum og veseni og virðast þegar byrjaðir á því.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.