Sumarið er tíminn: Af flúormælingum í Reyðarfirði

dagmar yr juli15Er það ekki loksins að koma? Þetta blessaða sumar sem við Austfirðingar höfum verið að bíða eftir. Við virðumst hafa misst af vorinu en það hlýtur að koma að því að hið austfirska sumar hefji innreið sína með endalausum sólardögum og hitamóki. Rekstur álvers í austfirsku sumri getur verið krefjandi, það hefur ekki farið fram hjá þeim sem starfa yfir sumartímann hjá Alcoa Fjarðaáli. Hærri hiti á sumrin skapar aukið álag en við kappkostum þó að hafa jafnvægi í starfseminni allt árið um kring. Ef það er stöðugleiki í rekstinum hjá okkur þá gengur okkur betur að hafa stjórn á öllu sem snertir framleiðsluna, þar á meðal útblæstri. Það er gaman að segja frá því að reksturinn síðasta ár hefur gengið vel hvað þetta varðar og við höfum séð framfarir á mörgum sviðum hjá okkur. Til dæmis státar Fjarðaál af því að vera lægst innan Alcoa fjölskyldunnar þegar horft er til losunar flúors á hvert framleitt tonn af áli og er einnig meðal þeirra álvera sem standa sig best á heimsvísu.

Flúor í gróðri er í brennidepli hjá okkur, ekki síst á sumrin, og er það mikilvægt vegna velferðar grasbíta í firðinum. Allt árið um kring er starfræktur hjá okkur stýrihópur sem hefur það markmið eitt að lækka flúorútblástur frá verksmiðjunni. Og þrátt fyrir að árangurinn sé afar góður, það er ekki sjálfgefið að vera meðal þeirra bestu í heimi, þá höldum við áfram að leita leiða til að bæta okkur. Þannig vinnum við ávallt hjá Fjarðaáli, við höfum stöðugar umbætur að leiðarljósi í allri okkar vinnu, hvort sem það snýst um að lækka útblástur, þróa nýjar leiðir til að ræsa ker með minni umhverfisáhrifum eða til að bæta framleiðsluferli fyrirtækisins almennt.

Þá er einnig mikilvægt að við einbeitum okkur að því sem við getum stjórnað. Á vaxtartíma getur gróður tekið upp flúor og inn í það ferli spilar fleira en bara losun frá álverinu. Það hefur sýnt sig á síðustu árum að veðurfar og lega lands hefur einnig mikið að segja. Til að fylgjast með áhrifum flúors á gróður í Reyðarfirði hefur verið útbúin víðtæk vöktunaráætlun í samstarfi við Umhverfisstofnun og Náttúrustofu Austurlands en sú stofnun sér um eftirfylgni hennar. Starfsfólk Náttúrustofu tekur sýni sex sinnum yfir sumarið á 34 stöðum í firðinum. Sýnin eru ávallt tekin á sama stað og með sömu aðferð svo þau séu samanburðarhæf. Þar sem magn flúors í gróðri getur breyst mjög mikið á skömmum tíma þarf að taka mörg sýni og meta svo út frá meðaltali þeirra hver styrkurinn hefur verið í gróðri yfir sumarið. Niðurstöður einnar sýnatöku og einstakir sýnatökustaðir segja okkur því afar takmarkaða sögu um hve hár eða lágur styrkurinn er. Vísindamenn, eins og dr. Alan Davison prófessor, sem hafa rannsakað áhrif flúors á gras leggja áherslu á að tekin séu mörg sýni og áætlað út frá meðaltali þeirra en ekki einblínt á niðurstöður einstakra sýna. Gott dæmi um þetta var í fyrra þegar fyrstu sýnatökur sumarsins sýndu hærri niðurstöður en við var búist en svo sýndu sýnatökur síðar um sumarið mun lægri gildi. Heildarniðurstaða sumarsins var sú að meðaltal fyrir flúor í gróðri var vel undir viðmiðunarmörkum vöktunaráætlunar.

En hvers vegna er verið að fylgjast svona vel með gróðrinum? Það gleymist stundum að velta því upp. Það er ekki vegna þess að fólki á svæðinu stafi hætta af útblæstri flúors frá álverinu miðað við núverandi ástand enda er hann með því lægsta sem þekkist. Ástæðan fyrir eftirlitinu er að við viljum fylgjast með og meta umhverfisáhrif af starfsemi álversins í firðinum. Einn þáttur í þessari vöktun er að fylgjast með hvort flúor í gróðri hafi áhrif á grasbíta. Hann hefur ekki áhrif á grasbíta nema þeir nærist í langan tíma á grasi og heyi sem er yfir viðmiðunarmörkum en þau mörk miða við ársneyslu. Þess vegna fylgjumst við með innihaldi flúors í grasi og heyi. Heilsársfóður hefur aldrei farið yfir þessi mörk þó svo að eitt sumar, 2012, hafi flúor í gróðri farið yfir viðmiðunarmörk vöktunaráætlunar yfir sumartímann. Vetrarheyið var ekki yfir þessum mörkum svo ljóst er að dýrin neyttu ekki flúors yfir viðmiðunarmörkum allt það ár.

Að fylgjast vel með magni flúors í gróðri gefur okkur vísbendingu um hvort við þurfum að auka eftirlit með grasbítum í firðinum eða hvort við getum haldið okkur við það eftirlit sem nú þegar er til staðar. Hluti af vöktunaráætluninni, og einn sá mikilvægasti, eru skoðanir dýralækna á bæði sauðfé og hrossum í Reyðarfirði. Reyndur dýralæknir á þessu sviði, dr. Barry Johnson, kom frá Bretlandi síðasta sumar til að fræða dýralækna hér hvernig best er að meta hvort flúor sé að hafa áhrif á dýr. Í öllum skoðunum sem hafa farið fram á dýrum í firðinum hafa aldrei sést merki um áhrif flúors. Við eigum enn fremur í góðu sambandi við bændur á svæðinu og það eru í raun þeir sem eru best til þess fallnir að fylgjast með og meta hvort dýrin sýni merki um áhrif eða ekki.

Fyrstu sýni sumarsins hafa þegar verið tekin og niðurstöður þeirra lofa góðu enda eru þær lægri en við höfum séð í nokkur ár. Það er vissulega gleðiefni en engu síður þá segir það okkur lítið enn sem komið er. Til að geta metið stöðuna og sagt til um magn flúors í gróðri þarf að bíða þar til allar sex sýnatökur sumarsins hafa skilað sér í hús í haust. Við hjá Fjarðaáli áttum okkur á því að starfsemi fyrirtækisins fylgja umhverfisáhrif en á móti kemur að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að lágmarka þessi áhrif og munum halda því góða starfi áfram.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.