Hvert ertu að fara?

lilja gudridur karlsdottirHvert ferðu í vinnu í dag? Finnst þér gaman að keyra langt í vinnuna, eða viltu helst hjóla eða kannski bara hafa vinnuna í næsta húsi?

Allt þetta eru spurningar sem ég hef verið að reyna að fá ykkur Austfirðinga, til að svara síðustu vikur. Mörg ykkar hafa fengið tölvupóst með stuttum spurningalista og hafa nú þegar um 500 manns svarað sem fer nærri því að vera 10% af öllu fólki á vinnualdri (20-67 ára). Það er ansi gott hlutfall og er ég ykkur ákaflega þakklát fyrir samvinnuna. Ég er hins vegar keppnismanneskja í mér og langar því mikið að reyna að kreista svör út úr fleirum ykkar.

Verkefnið snýst í stuttu máli um að kanna hvar fólk á Austurlandi býr miðað við vinnustað og munu niðurstöðurnar vera notaðar í vinnu við samgönguáætlun. Smella má hér til að komast á spurningalistann.

Kíkið endilega á þetta og athugið hvort þetta séu nú ekki bara nokkuð skemmtilegar spurningar að svara. Það er ekki hægt að svara listanum nema einu sinni frá hverri tölvu, þannig að ef þú hefur nú þegar svarað listanum færðu skilaboð um það þegar þú ýtir á hlekkinn.

Spurningalistinn er nafnlaus og stuttur, það tekur ekki nema um 5 mínútur að svara honum. Það er ekki tilgangur rannsóknarinnar að rekja svör niður á einstaka aðila og þess vegna biðjum við bara um götuheiti og/eða póstnúmer á vinnustað og heimili. Þú þarft sem sagt ekki að skrifa húsnúmer og ef þú býrð eða vinnur við rosalega litla götu og finnst eitthvað óþægilegt að svara nákvæmlega, er þér velkomið að slá eingöngu póstnúmer inn. Niðurstöðurnar verða ekki kynntar niður á hverja götu heldur niður á nokkur undirsvæði fyrir hvert póstnúmer.

Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að vita meira um verkefnið getið þið lesið nánar hér fyrir neðan. Þið hin getið hins vegar bara stoppað og farið að gera eitthvað annað, um leið og þið hafið svarað spurningalistanum!

Verkefnið er fjármagnað af Vegagerðinni og er unnið í samvinnu við Innanríkisráðuneytið, Byggðastofnun og Skipulagsstofnun og snýst um greiningu á svokölluðum vinnusóknarmynstrum á Mið-Austurlandi. Vinnsóknarmynstur er það sem á ensku er kallað „commuting patterns" og gefur upplýsingar um hvernig fólk ferðast á milli staða til vinnu. Vinnusóknarmynstur geta þannig veitt upplýsingar um hlutfall fólks sem starfar innan síns sveitarfélags og sömuleiðis hlutfall þeirra sem starfa utan. Ef við gefum okkur skáldað dæmi að þá gæti það verið á þá leið að 80% af vinnandi fólki á Egilsstöðum vinni í raun á Egilsstöðum, á meðan 20% vinna á Reyðarfirði.

Vinnusóknarmynstrin segja manni þannig til um þær raunvegalengdir sem fólk ferðast til vinnu. Erlendis er hægt að nálgast þessar upplýsingar hjá hagstofum viðkomandi landa fyrir alla landsmenn sem skila inn skattskýrslum. Við hérna á litla Íslandinu búum hins vegar ekki svo vel að hafa þessar upplýsingar tiltækar og þess vegna erum við í þessarri upplýsingaöflun núna. Það gefur því augaleið að því fleiri sem svara að því nákvæmari verða niðurstöðurnar.

Út frá þessum vinnusóknarmynstrum er einnig hægt að skilgreina svokölluð vinnusóknarsvæði, þ.e. stærð svæðis þar sem er talið raunhæft að fólk sé tilbúið að ferðast til vinnu daglega. Er t.d. allt Austurland eitt vinnusóknarsvæði? Eða skiptist það niður í nokkur vinnusóknarsvæði? Þið sem búið á svæðinu hafið öll tilfinningu fyrir þessum svæðum, en það vantar hins vegar gögnin til að bakka þessar tilfinningar upp. Það getur nefnilega verið ansi erfitt að ná fram betrumbótum í samgöngum og byggðaþróun sem byggist eingöngu á tilfinningum.

Hvað er svo hægt að nota þessa vitneskju um vinnusóknarmynstur og vinnusóknarsvæði í? Jú þá er hægt að fara að velta fyrir sér afhverju það eru fáir sem ferðast á milli sumra svæða og margir á milli annarra svæða? Er það út af lélegum vegum, löngum vegalengdum eða kannski bara lítilli þjónustu, fáum störfum o.s.frv. Slíkar upplýsingar eru ennfremur notaðar erlendis til að veita fólki skattaafslætti, ef það þarf að keyra langt til vinnu (algengt á Norðurlöndum).

Það skal einnig tekið fram að verið er að vinna í að ná fram breytingum hérlendis á skattskýrslum til að Hagstofan geti í framtíðinni haldið utan um upplýsingarnar en sú vinna getur hins vegar tekið langan tíma. Ráðist var í svipaðar breytingar á skattaskýrslum í Danmörku í kringum 1980 og það tók nærri tvo áratugi áður en hægt var að nýta gögnin. Tölvutækninni hefur sem betur fer fleygt hratt fram þannig að við erum bjartsýn á að þetta muni ekki taka alveg svona langan tíma hérlendis. En þangað til hvet ég ykkur öll til að svara spurningalistanum!

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar er ykkur velkomið að vera í sambandi.

Lilja Guðríður Karlsdóttir
Samgönguverkfræðingur M.Sc.
lilja(hjá)viaplan.is
https://www.surveymonkey.com/s/Busetukonnun_Austurland
 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.