Ert þú talíbani?

siddi ragnarsÞað þarf ekki nána skoðun til að sjá hve mörgum mannslífum, tjóni og hörmungum bókstafstrúarmenn hinna ýmsu trúarbragða hafa valdið í heiminum. Í þeirra huga er trúin og sú virðing og samkennd sem hún kann að boða löngu hætt að skipta máli, en bókstafurinn er túlkaður samkvæmt þeirra eigin kreddum og þröngsýni. Ég vil ganga lengra og segja að því miður leynist bókstafstrúarmaðurinn víða meðal okkar þó hann valdi allajafna ekki manntjóni. Ofsatrúarmenn eru stundum kallaðir talíanar með tilvísan í öfgahóp íslamista í Afganistan, en bókstafstrú er því miður ekki einskorðuð við þá.

Lög eru hugsuð til að búa til góðar samskiptavenjur manna á milli til að allir þegnar geti búið við öryggi til eignaréttar, tjáningar, skoðana, trúar eða hvers annars sem menn telja til hagsbóta í mannlegu samfélagi. Lög eru sett af fólki fyrir fólk, EKKI gegn fólki. Lög eru sett á lýðræðislegan hátt á Alþingi að framangengnum umræðum sem endurspegla tilgang og markmið laganna. Síðan eru settar reglugerðir við lögin til að hnykkja á einstökum þáttum þeirra til að þau geti orðið grundvöllur sakfellingar þeirra sem brjóta, gott og vel.

En nú ber svo við að skyndilega er reglugerðin orðin aðalatriði, tilgangur laga og markmið skipta engu máli, bókstafstrúin er allsráðandi. Dæmt skal eftir orðanna hljóðan hvernig sem málsatvik eru og oft með mjög afbökuðum hætti. Þarna skríða talíbanarnir fram og veifa þeim bókstaf sem hentar þeim og svo apa embættismenn hinna ýmsu stofnana ríkisins eftir og hrifsa smásaman til sín völdin á grundvelli reglugerðar og/eða starfsreglna sem þeir setja sjálfir með vísan í lögin, þó tilgangur og hugsun þeirra laga hafi verið allt önnur í upphafi. Þetta er auðvitað full dökk mynd sem ég dreg hér upp og sem betur fer fara reglugerðir og stjórnvaldsákvarðinir oftast í takt við tilgang laga, en alltaf leynast talíbanar innanum og valda skaða.

En það er ekki bara í lagaumhverfinu eða stjórnkerfinu sem bókstafstrúin blossar upp. Bókstafstrúarmaðurinn gengur um meðal samborgara sinna sæll og glaður í sinni bókstafstrú og í heilagri vandlætingu á skoðunum annarra. Þá gildir einu hvort sannfæringin snýr að stjórnmálaskoðunum, barnaskemmtunum, stóriðju, náttúruvernd, kattahaldi, svo fátt eitt sé nefnt. Þar eiga skoðanir annarra engan rétt á sér og sjálfssagt að ata þær auri og svívirðingum enda sannleikurinn og rétttrúnaðurinn hans eigin. Það umburðarlyndi og virðing sem mamma hans kenndi honum í æsku er að mestu gleymd.

Talíbaninn er svo sjálfhverfur og rétthár að honum finnst sífellt á sér brotið, tré nágrannans er of hátt, sjónvarpsdagskráin léleg, öskukarlinn í alltof góðu skapi, fatlaðir fá bestu stæðin, skattarnir of háir bara hjá honum, og svo illu heilli er Sigmundur Davíð enn á þingi (Um þessa hörmung virðast margir talíbanar sammála). Því miður virðist orðræða íslenskra talíbana eiga greiðastan aðgang í fjölmiðla að ég tali nú ekki um netmiðlana. Það virðist talið vænlegast til árangurs að slengja fram sleggjudómum, útúrsnúningum og hálfsannleik og sá sem mestum árangri nær í slíkri list fær mesta „lækið".

Auðvitað er þetta ekki svona svart og ég hef reyndar mun meiri trú á mannkyninu en ætla mætti af þessarri grein og held að heimurinn fari stöðugt batnandi. Ég heyrði Vigdísi Finnbogadóttir lýsa því í viðtali að helsti galli íslendinga væri að þá skorti rökræðu og þar er ég henni innilega sammála. Mikið skelfing væri nú gaman að fólk fari að tala saman af smá skynsemi og ræða málin frá öllum hliðum, velta upp sjónarmiðum og sameiginlegum lausnum og hætti að láta talibanann byrgja sér sýn.

En til þess þarf hver og einn að líta í eigin barm og reyna að sjá málin frá fleiri hliðum og umfram allt að bera virðingu fyrir sjálfum sér og náunga sínum, ná valdi á talíbananum í sjálfum sér. Ég hef oft staðið sjálfan mig að því að vera talíbani, en er að vinna í því. ERT ÞÚ TALÍBANI?

Með virðingu,
Sigurður Ragnarsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.