Orkumálinn 2024

Mannúðarstarf og umhverfisvernd í fyrirrúmi: Fatasöfnun Rauða krossins á Íslandi

Raudikrossinn hringmerkiFatasöfnun Rauða krossins á Íslandi hefur vaxið hratt síðustu ár. Í fyrstu létu verslanir Rauða krossins ekki mikið yfir sér og enn síður grenndargámarnir, þangað sem fólk um allt land getur skilað notuðum fötum og vefnaðarvörum. Í dag er fatasöfnunin einn helsti tekjuliður í starfi Rauða krossins og nam hagnaður af söfnun, sölu, endurvinnslu og dreifingu af fatasöfnun rúmlega 100 milljónum króna árið 2014. Það árið söfnuðust 2000 tonn af fatnaði um allt land sem var skilað í 150 grenndargáma sem er að finna í öllum þéttbýliskjörnum. Til samanburðar söfnuðust 1700 tonn árið 2013 og 1400 tonn árið 2012.

Fjáröflun og umhverfisvernd

Fatasöfnunarverkefnið er ekki aðeins jákvætt að því leyti að unnt er að selja fatnað áfram til nýrra notenda. Innanlands fara um 50 tonn á ári í endursölu, 10 tonn fara til hjálparstarfs. Til útlanda eru um 40 tonn send til hjálparstarfs en afgangurinn er seldur áfram til miðlunarfyrirtækja eða endurvinnslufyrirtækja, eða um 1900 tonn. Væri það ekki mögulegt án aðkomu Eimskipa sem hefur reynst Rauða krossinum ómetanlegur bakhjarl í fatasöfnunarverkefninu.

Því er mikilvægt að muna að tekið er við öllum flíkum. Jafnvel nærfatnaði, eins furðulega og það kann að hljóma. Alla vefnaðarvöru er hægt að endurnýta. Þar með er ekki aðeins verið að styrkja öflugt mannúðarstarf Rauða krossins, bæði innanlands og utan, heldur er einnig hlúð að umhverfinu og sjálfbærri nýtingu vefnaðarvöru.

Öflug fatadreifing í Hvíta-Rússlandi

Um 40 tonn af fatnaði fara árlega til Hvíta-Rússlands. Rauði krossinn á Íslandi hefur átt gott og gjöfult samstarf við hvítrússneska Rauða krossinn um árabil. Á vegum Rauða krossins á Íslandi er þar rekið athvarf fyrir fólk með geðraskanir, unnið gegn mansali og fatnaði er dreift til berskjaldaðra fjölskyldna. Upphafið af þessu samstarfi má rekja til ársins 2012 þegar einstaklega kaldur vetur herjaði á Hvítrússa. Fjöldi fólks varð úti í miklu kuldaskeiði en einkum í strjálbýli eru hús í Hvíta-Rússlandi ekki vel kynt. Fatnaðurinn frá Íslandi hefur reynst efnaminna fólki í Hvíta-Rússlandi ómetanleg aðstoð. Ekki síst meðal nýjustu íbúa landsins, sem eru meðal annars um 100 þúsund flóttamenn frá austurhluta Úkraínu.

Tekið tillit til aðstæðna

Rauði krossinn á Íslandi gerir sér fyllilega grein fyrir því að fatadreifing til landa sem býr við takmarkaða iðnaðarstarfsemi kann að vera tvíeggja sverð. Í slíkum löndum er ekki óalgengt að sú litla iðnaðarstarfsemi sem er þó fyrir hendi, sé í vefnaði og á saumastofum. Mannúðarsamtök verða að taka tillit til slíkra aðstæðna svo ekki sé troðið á atvinnustarfsemi í berskjölduðum samfélögum. Komi fram beiðni um fataaðstoð er hún ekki veitt nema að sérstaklega ígrunduðu máli. Ein slík beiðni var þó uppfyllt árið 2014 en hún kom frá Síerra Leóne, þar sem geisað hefur ebólufaraldur. Það þýddi að brenna þurfti mikið magn af klæðnaði og vegna faraldursins reyndist ekki unnt að útvega nýjan nema með aðstoð Rauða krossins.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.