Þungir þankar: Við og hin

sigurjon bjarnason teikningVið lesum oft um ágreining og sundrungu. Börnin okkar lenda í útistöðum strax í barnaskóla. Eldri velja þau sér félaga og fullorðin eru þau orðin hluti af flokkum, hópum sem eiga eitthvað sameiginlegt. Stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, hagsmuni, uppruna, þjóðerni, tónlistarstefnur. Bara nefnið þið það.

Fjölmiðlaúrvalið er mikið og hver hópur fær eitthvað við sitt hæfi. Þar er fluttur sá sannleikur sem okkur finnst þægilegastur. Ef við heyrum eitthvað sem okkur fellur ekki í geð, flettum við strax yfir á okkar rás. Við erum ekki tilbúin að spá eða spekúlera í öðru en okkar áhugamáli.

Svo koma árekstrarnir. Eitthvað er sagt miður fallegt um skoðanir hinna, lítið gert úr þeim, þeim hallmælt. Andsvör birtast, heitingar eru hafðar í frammi. Versta útgáfan af þessu öllu er einelti. Einhver hefur villst inn í rangan hóp og er í urð hrakinn, svo að aldrei grær um heilt.

Er þetta ólæknandi sjúkdómur, eilífðarvandamál eða eru möguleikar á að lifa ögn friðsamara lífi, bera meiri virðingu fyrir „andstæðingunum"? Er jafnvel hægt að kynna sér sjónarmið þeirra ögn nánar, skoða rökin að baki þeim?

Ég er hiklaust á þeirri skoðun, þó að ég viti að meinsemdinni verður aldrei útrýmt.

En hvar byrjar vandinn?

Ég hef skelfilegar grunsemdir um að hann byrji heima hjá okkur. Við eldhúsborðið þar sem foreldrar segja sögur af fólki. Börnin hlusta og eru auðvitað sammála. Hafa ekki forsendur til annars. Sem betur fer þroskast margur frá upprunanum, gagnrýnir þessa eldhúsborðsumræðu, kynnist vel menntuðu og víðlesnu fólki og fer að skoða eldhúsumræðuna í nýju ljósi. Foreldrarnir verða þá að góðum verndurum í minningunni, en ekki að guðum sem aldrei sögðu ósatt orð eða höfðu hina einu réttu trú eða skoðun.

Okkur er algjör nauðsyn að temja okkur víðsýni, gagnrýna hugsun um leið og við höfum framtak í okkur til að vinna áhugamálum okkar brautargengi. Þarna getur verið vont að finna meðalveg, en með jákvæðu hugarfari munum við nýta krafta okkar miklu betur en með þrjósku og neikvæðni í farteskinu.

Og ágætu foreldrar!

Munið að börnin ykkar eru að verða sjálfstæðar vitsmunaverur. Haldið að þeim hinu jákvæða í lífinu og hlífið þeim við illdeilum eða ósanngirni í garð nágranna eða samfélags. Þá munu þau verða nýtir þjóðfélagsþegnar og bera uppeldinu fagurt vitni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.