Vegurinn til glötunar

skolavegur66 webMikið væri það nú ljúft ef gerðar væru þær kröfur á stjórnmálamenn, hvort heldur þeir sinna lands- eða sveitarstjórnarmálum, að þeir stæðu við loforð sín og segðu satt svona yfirleitt, að viðlögðum brottrekstri frá stjórnmálavafstrinu.

En það er að líkindum ekki hægt að ætlast til þess þar sem heiðarleiki er hugtak sem hentar ekki ef menn hugsa fyrst og fremst um eigin hag.

Ég hef það á tilfinningunni að það sé leitun að slíkri persónu í stjórnmálum í dag, alla vega er sú ekki mjög áberandi. Kannski hefur það alltaf verið svona, að minnsta kosti hefur ekkert verið gert í að lagfæra þennan litla vegstubb sem undirritaður hefur arkað um og ekið síðastliðin 27 ár.

Hugsið ykkur bara að í tuttugu og sjö ár hefur ekkert verið að marka þá sem komið hafa að þessum málum hérna á Fáskrúðsfirð, einu logið í dag og öðru á morgun.

Það er reyndar orðið mun lengra síðan húsið við enda þessa vegstubba var byggt og þá var litlu timburhúsi sem stóð á Sólhól, (en svo heitir hóllinn og húsið sem á honum stendur) rutt með öllu sem í því var í þennan farveg, sem var eitt sinn lækjarfarvegur.
Undirstaðan í veginum er því gamli Sólhóll sem reynt hefur að forðast þau örlög sín að vera grafinn um aldur og ævi og skotið upp kryppu af og til öll þessi ár.

Undirritaður fór þess á leit einhverju sinni að settur yrði ofaníburður í brattann og hann lagfærður lítilsháttar en fékk þau svör að það ætti að fara að taka brattann í gegn og því ekki ástæða til að splæsa ofaníburði í hann að sinni, en að sjálfsögðu gerðist ekkert.

Það er mikil sorgarsaga hvernig haldið hefur verið um gatnagerð hér á Fáskrúðsfirði, ef til vill í þeim tilgangi að spara aurinn, en það kemur auðvitað aftan að mönnum með lélegri endingu, og ekki hefur viðhaldi verið sinnt nema í mýflugumynd.

Það hafa komið menn og farið af sviði sveitarstjórnar umliðin ár og bærinn okkar tilheyrt Búðahreppi, Austurbyggð og nú um nokkur ár Fjarðabyggð en það er ávallt hið sama uppi á teningnum, ekki til nægur peningur til að sinna viðhaldsverkefnum þó að hundruð milljóna hafi verið grafnar í nýjum götum sem menn gerðu ráð fyrir að byggt yrði við á árum „uppgangs og væntinga” í flestum bæjarkjörnum í Fjarðabyggð.

En þær milljónir sem þegar hafa verið grafnar í fljótræði og flaustri verða ekki aftur teknar og nýttar fyrir núlifandi íbúa. Ef til vill verða einhvern tímann not fyrir þá tugi eða hundruð lóða sem undirbúnar voru í fljótræði hér og þar í bæjum, en það er hæpið að svo verði á næstu áratugum.

Eitt er mér með öllu óskiljanlegt, að á meðan gatnakerfi bæjarins okkar er með þeim hætti sem raun ber vitni, þá eru hundruðum milljóna varið í hafnarsvæði bæjarfélagsins, raunar til augnayndis og ánægju þeim sem um hafnirnar fara en hefðu óneitanlega komið sér mun betur fyrir almenning í gatnakerfinu.

Mér er sagt að reglur séu með þeim hætti að ekki megi flytja fjármagn frá forríkum sjóðum hafnanna í önnur og mun meira aðkallandi verkefni sem gatnakerfið er.

Ef svo er liggur þá ekki beinast við að breyta þeim reglum til hagsbóta fyrir samfélagið. Eru alþingismenn ekki kosnir til þess að setja reglur og lög sem koma að notum fyrir hinn almenna borgara eða eru þeir aðeins til að rífa kjaft og þóknast auðvaldinu?

Reyndar þykist ég vita svarið við þessari spurningu eins og glöggt hefur sést í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka í gegnum tíðina.
Er ekki kominn tími til að þeir sem málinu tengjast fari nú að skammast sín og geri gangskör að því að lagfæra það sem aflaga hefur farið í gatnakerfi hér í bæ og skýla sér ekki ævinlega á bak við einhverjar fáránlegar reglur um fjármagn, þar sem ljóst er að það er til.

Að lokum upplýsist að eftir skoðunarferðir um götur Reyðarfjarðar tókst mér ekki að finna neina vankanta svo að ástæða væri til að taka af þeim mynd en annað er uppi á teningnum þegar ekið er um götur Fáskrúðsfjarðar og hér eru því nokkrar myndir fyrir sjóndapra og seinfæra bæjarfulltrúa, sem sanna mitt mál svo ekki verði um villst.

Sigurjón Hjálmarsson
Eldriborgari við Manndrápsstíg.
Fáskrúðsfirði

Sjá má myndir í fullri stærð ef smellt er á myndina hér að ofan.
budavegur web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.