Orkumálinn 2024

Austurland eins og ég sé það

IvarIngimars 131011Mér finnst áhyggjuefni að fólki sé ekki að fjölga hér fyrir austan að neinu ráði. Frá 1998 til 2014 fjölgaði íbúum á Austurlandi um 411 eða 3%. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um 17%.

Þessar tölur ná yfir tímabil þar sem farið var í dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar á svæðinu, byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins á Reyðarfirði. Á byggingartímanum rauk íbúðatalan upp en síðan framkvæmdum lauk hefur íbúakúrfan sigið aftur og er nú að nálgast það sem hún var 1998.

Íbúum í flestum smærri byggðakjörnum fjórðungsins fækkar. Breiðdalsvík, Djúpivogur og Stöðvarfjörður eru í, eða hafa sótt um að komast í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir. Fjölgunin í fjórðungnum er einungis í hluta Fjarðarbyggðar og á Egilsstöðum og sú fjölgun skýrist að miklu leyti af því að fólk frá smærri stöðunum færir sig til þeirra stærri, en nýjum íbúum Austurlands fjölgar lítið.

Þó það sé örlítil fjölgun í tveim stærstu byggðarkjörnunum þá er hún alls ekki ásættanleg og í mínum huga er Austurland allt að mörgu leyti brothætt byggð. Hvað gerist í framtíðinni ræðst af því sem við gerum nú. Mér finnst vanta sterkari málsvara fyrir svæðið til að benda á það sem betur má fara svo hægt sé að snúa þessari þróun við. Það er alveg ljóst að sameining austur- og norðurkjördæmis er að koma mjög illa út fyrir landshlutann og skilur hann eftir áhrifalítinn. Halda menn virkilega að þingmaður sem vill ná endurkjöri taki málstað Egilsstaða framyfir málstað Akureyrar eða Egilsstaðaflugvallar fram yfir Akureyrarflugvöll, þegar íbúafjöldi á Akureyri er sexfaldur miðað við Egilsstaði? Það sjá allir hvar atkvæðin liggja.

Hvað er til ráða, hvernig fjölgum við fólki hér? Eigum við að flytja fólk austur í nauðungaflutningum (sbr. Fiskistofu norður) eða byggja aðra stóra verksmiðju?

Ég er á því að það skipti mestu máli að breyta aðstæðum á Austurlandi þannig að fólk vilji setjast hér að og sjái tækifæri í því. Unga fólkið okkar er ekki að skila sér til baka að námi loknu og þegar barnabörnin koma í heiminn taka foreldarnir sig upp og flytja suður.

Þegar ég bjó á Austurlandi sem barn og unglingur snérist allt um fisk, allir í þorpinu gátu unnið við fisk sem það vildu. Við vorum sjálfum okkur næg og þurftum ekki á öðrum byggðarlögum að halda. En svo fór ungt fólk almennt að mennta sig, kom heim á sumrin, vann í fiski en á endanum festi rætur fyrir sunnan og okkur tók að fækka. Núna snýst Austurland um ál og fisk við erum sjálfum okkur næg, unga fólkið fer í skóla, kemur heim á sumrin, vinnur í áli og fiski og flytur svo á endanum suður. Staðan er að svo mörgu leyti óbreytt.

Fyrir mér er Austurland einfaldlega ekki samkeppnishæft um fólk. Það eru allof margar hindranir í því að setjast hér að og þessar hindranir, lélegar samgöngur innan fjórðungsins og lélegar samgöngur út úr honum eru stærsta ástæðan. Hér búa einungis 3% Íslendinga og þessi 3% dreifast á stórt svæði. Hér ekki neinn einn sterkur byggðakjarni sem getur boðið fólki upp á alla þá þjónustu, afþreyingu, menningu og menntun sem fólk í dag kallar eftir. Hér er ekki háskóli, leikhús, kvikmyndahús, keilusalur eða íþróttagreinar sem keppa í efstu deildum, hér er næga vinnu að fá í fiski og áli en það er bara ekki nóg.

Til að styrkja Austurland þarf að gera miðsvæðið, með þéttustu byggðakjörnunum að einni heild, einu atvinnusvæði, einu mennta- og menningarsvæði með stórbættum samgöngum. Það þarf að búa til sterkan kjarna með um 8.500 manns sem getur stækkað og styrkst og sogað til sín fyrirtæki og þjónustuaðila. Lítil samlegðaráhrif eru meðal bæjarkjarna miðsvæðis á Austurlandi. Ef þú býrð á Egilsstöðum sækir þú ekki vinnu, þjónustu eða menningu á Norðfjörð því það þarf að ferðast yfir tvo fjallvegi til að komast á milli staða sem er tímafrekt og á stundum hreinlega hættulegt. Þessi leggur skánar vissulega mikið með tilkomu jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, rétt eins og það hjálpaði að fá göng milli Reyðarjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en er alls ekki nóg.

Austurland vantar samgöng. Samgöng sem tengja saman Egilsstaði og héraðið við firðina, Seyðisfjörð, Norðfjörð, Eskifjörð, Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð, með samgöngum býrð þú til eitt atvinnu-, mennta- og menningarsvæði sem jaðarbyggðirnar geta sótt í.

Með bættum samgöngum myndu byggðirnar verða að heild sem vinnur saman í stað þess að vera eins og dreifðir líkamspartar án nokkurra tengsla. Samgöng myndu tengja saman þjónustuna á Héraði við atvinnuna og kraftinn á fjörðunum og búa til sterka heild, raunverulegan valkost fyrir fólk til að setjast að á, sem gæti boðið upp á menntun, menningu, atvinnu og framtíð.

Samfélög standa og falla með samgöngum og meira nú en nokkru sinni fyrr. Því miður eru það ekki bara samgöngurnar innan fjórðungsins sem þarf að bæta því flugsamgöngur okkur við höfuðborgina okkar eru líka lélegar. Þær eru ekki lélegar út af flugtíma, flugvélum, þjónustu eða flugvöllum, heldur verðinu. Verðið sem er í boði er ekki á færi venjulegs fólks. Almennt flugverð fram og til baka til Reykjavíkur upp á 47.000 krónur á mann er ekki valkostur og þess vegna dragbítur fyrir svæðið.

Það er ekki að ástæðulausu að Alcoa Fjarðarál sér sig tilneytt til að niðurgreiða flugfargjöld fyrir starfsfólk sitt, en án þess segist fyrirtækið ekki geta mannað starfsemi sína á Austurlandi. Ef Alcoa Fjarðarál getur ekki mannað sína starfsemi hér fyrir austan nema með niðurgreiddu flugi hvað þá með restina af Austurlandi hvernig á það að geta mannað sig?

Við breytum ekki Austurlandi ef við tölum alltaf eins og allt sé í besta lagi, við þurfum að þora að opna umræðuna og koma henni upp á yfirborðið og knýja fram úrbætur svo fólk vilji flytja hingað af fúsum og frjálsum vilja en ekki af því að það er flutt hingað nauðungarflutningum.

Vandamál Austurlands er líka vandamál landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar. Ísland allt nýtur góðs af því að það sé byggilegt út á landi, að það sé kraftur í hverjum fjórðungi. Að það séu svæði þar sem er ákjósanlegur valkostur fyrir fólk að búa á.

Ívar Ingimarsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.