„Var eins og búlimían og anorexían væru mínar bestu vinkonur"

tinna rut gudmundsdottir 0032-nov14Tinna Rut Guðmundsdóttir frá Reyðarfirði hefur í rúman áratug barist við áströskun. Hún skrásetti baráttusögu sína til birtingar meðal annars í von um að hún geti hjálpað öðrum. 

Ég hafði aldrei verið feit, alltaf á fullu í íþróttum og átt yndislega æsku. Fótbolti var mitt helsta áhugamál, ég byrjaði snemma að spila með meistaraflokki og var valin í úrtak fyrir U-17 ára landsliðið. Ég keppti í frjálsum íþróttum og stóð mig yfirleitt vel.

Ég hef alltaf átt yndislega fjölskyldu. Ég er yngst af fimm systkinum. Við höfum alltaf verið mjög samrýmd. Okkur skorti aldrei neitt, sérstaklega ekki ást og umhyggju. Ég stundaði nám við Grunnskólann á Reyðarfirði og þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum. Aldrei pældi ég í því hvort ég væri of feit enda þurfti ég svosem ekki að hafa áhyggjur af því. Ég skyldi ekki í fólki sem var haldið svokallaðri átröskun. Þá vissi ég ekki betur og vissi varla hvað það var. Ég vissi bara að fólk borðaði lítið, eða jafnvel ekki neitt og hreyfði sig mikið. Ég skyldi aldrei af hverju fólk gat bara ekki borðað. Seinna fékk ég ásamt fjölskyldu minni og fleirum að kynnast því að þessi sjúkdómur snýst alls ekki bara um að borða.

Byrjaði sakleysislega

Ég hef verið um 16 ára gömul þegar þetta allt byrjaði. Ég man þennan tíma óljóst enda vil ég helst muna sem minnst af þessum honum. Eftir því sem ég man hófst allt á því að ég, ásamt einni af bestu vinkonum mínum, byrjaði á að fara á hlaupabretti í 12 mínútur. Það hljómar ekki langur tími en þetta ágerðist. Ég var líka að spila fótbolta en mér leið illa ef ég sleppti því að hlaupa. Í kjölfarið byrjaði að minnka það sem ég borðaði. Fyrst var þetta saklaust, ég minnkaði nammið og hætti að drekka gos. Alltaf ágerðist þetta meir og meir. Á einhverjum tímapunkti ákvað ég að borða ekkert á kvöldin. Ég man að eitt sinn var ég orðin svo glorhungruð fyrir svefninn á heimavistinni í Menntaskólanum að ég hugsaði ekki um annað en hvað ég hlakkaði til að fá mér morgunmat. Ég var farin að sneiða framhjá allri fitu og las innihaldslýsingarnar á matvælunum.

Hreyfingin var áfram nauðsynleg á hverjum degi. Í eitt skiptið þegar ég og Ásta Hulda, systir mín, vorum að keyra Fagradalinn á leið í skólann, bað ég hana um að stoppa svolítið fyrir utan Egilsstaði til að ég gæti hlaupið í skólann.

Ég vann í kaupfélaginu með skólanum á þessum tíma ásamt því að skúra. Mér fannst það fínt, sérstaklega að skúra því þá fékk ég hreyfingu og gat brennt kaloríum. Alltaf þegar ég var búin að borða, hversu lítið sem það var, þá varð ég að fara að brenna kaloríum. Ég fór yfirleitt út í langa göngutúra og labbaði mjög rösklega. Svona gekk þetta í þó nokkurn tíma. Á endanum var skyr.is með vanillu, epli, kaffi og vatn það eina sem ég gat borðað. Einu sinni voru lokaðar allar búðir á Reyðarfirði og ég átti ekki til skyr.is en var svo orðin svo svöng og máttlaus að ég varð að fá eitthvað. Mig minnir að það hafi þurft að fara upp í Egilsstaði til að kaupa eina litla skyrdós.

Áhyggjur vakna hjá fjölskyldunni

Á þessum tíma vildi ég ekki viðurkenna að ég væri veik. Ég gat svo sem sagt mér það sjálf þar sem ég var hætt á blæðingum og fékk ekki föt nema í barnadeildum - stundum voru þau líka of stór á mig. ég á frænku sem er fjögurra ára og hún passar í kjól af mér síðan um tvítugt. Pabbi gerði sér fyrst grein fyrir því að eitthvað væri að þegar ég var að keppa fótboltaleik, og ég sem gat hlaupið endalaust kallaði á þjálfarann og sagði að hann yrði að skipta mér útaf því ég gat ekki meir. Mamma sá að eitthvað var að út af hegðunarmynstri mínu. Öll fjölskyldan var að vonum mjög hrædd um mig og reyndi sitt besta að tala við mig bjóða mér hitt og þetta og gerði allt fyrir mig. En anorexían var svo sterk í mér að það koma ekki til greina að hlusta, þótt stór hluti af mér vildi ekki vera svona og sérstaklega ekki að fjölskyldan hefði áhyggjur af mér.

En þetta skrímsli sem anorexían er, var alltaf sterkari. Ég var farin að þurfa að sofa í ullarsokkum, ullarpeysu og buxum og mamma eða pabbi þurftu oft að halda á mér hita þegar ég fór að sofa. Ég var orðin alveg orkulaus, fann oft til í hjartanu, missti allar neglurnar af fingrunum vegna vannæringarsvepps og leit hræðilega út. Mér fannst ég samt aldrei vera feit, eins og sumum sjúklingum, enda bara rétt um 35 kíló, en þetta var orðin svo mikil þráhyggja og árátta að ég varð að halda sömu rútínunni. Ég fór út að labba þótt að ég væri bara búin að borða eitt epli eða nokkur vínber. Ef ég komst ekki út að labba sópaði ég alla íbúðina eða skúraði, jafnvel fór út með ruslið og labbaði þá lengstu leið. Alltaf lagði ég langt frá staðnum sem ég þurfti að komast þegar ég var á bíl, til þess að fá að labba lengra. Mér var alltaf svo kalt og ég man að á veturna verkjaði mig í lungun þegar ég fór að ganga.

Það var ekki fyrr en ég gat bara alls ekki meir að ég viðurkenndi hversu veik ég væri orðin og bað hreinlega um að fá að fara inn á geðdeild því þá voru ekki önnur úrræði fyrir átröskunarsjúklinga. Fjölskyldu minni hlýtur að hafa verið létt enda stefndi ekkert annað í en að ég færi undir græna torfu með þessu áframhaldi. Þau voru búin að reyna hreinlega allt. Því miður var þetta alls ekki endirinn á þessu öllu saman, því miður.

Fyrsta heimsókn á geðdeild

Sumarið 2005 flaug pabbi með mig til Reykjavíkur til að fara með mig inn á deild. Ég man ég hugsaði: „Þetta verður allt í lagi því ég fæ eitthvað að borða og verð þá að borða það". Í einni ferðatösku var ég með allt dótið mitt: föt, tannbursta og spilara svo ég gæti hlustað á jólalög. Mér líður best þegar ég hlusta á þau því þau draga fram góðar minningar síðan í bernsku áður en allt byrjaði.

Þessi dagur þegar ég fór í fyrsta skipti inn á geðdeildina er með þeim verstu sem ég hef átt. Pabbi og Svanfríður systir mín fóru með mig. Allt var mjög kuldalegt þarna inni og þar sem ekki voru mörg úrræði fyrir okkur með þennan sjúkdóm var deildin líka fyrir miklu veikara fólk. Ekki að ég var líka rosalega veik en á annan hátt. Ég fékk herbergi með rúmi, skrifborði og einum skáp. Þegar pabbi og Svanfríður áttu að fara heim leið mér hræðilega.

Ég þráði ekkert meira en að fara aftur með þeim heim. Ég hágrét og gat varla sleppt takinu á pabba. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá pabba fella tár. Nóttin var hræðileg. Ég man ég fór fram til að athuga hvort starfsfólkið ætti eitthvað að borða því ég var svo svöng. Þau voru mjög treg til þess en á endanum gáfu þau mér eitt matarkex.

Morguninn eftir fékk ég að tala við geðlækninn minn, Guðlaugu, sagði henni að ég gæti alls ekki verið þarna inni. Úr varð að ég fékk að vera þarna á daginn og fara heim á kvöldin. Svanfríður systir bjó þá í Reykjavík og hún tók að sér að ná í mig og skutla upp á deild og ég var hjá henni á kvöldin.

Dagarnir liðu svona: ég vaknaði, Svanfríður keyrði mig á deildina, þar var morgunmatur þar sem setið var yfir mér meðan ég borðaði og i rúman klukkutíma eftir að ég borðaði. Ég mátti ekkert gera nema bara sitja inn í setustofu, þurfti meira að segja fá fylgd á klósettið ef ég þurfti að fara á það. Ég mátti ekki einu sinni spila kleppara á spil því það var of mikil hreyfing. Oftast sat ég bara og hugsaði og hlustaði á jólalög í spilaranum. Svo kom hádegismatur og þar var sama sagan. Yfirseta meðan ég borðaði og eftir og sama sagan um kaffitímann. Ef ég borðaði ekki eitthvað varð ég samt að borða það. Sem ég gerði alltaf nema í eitt skipti var kubbasteik í matinn sem ég hef aldrei borðað. Einhvern veginn náði ég að lauma henni inn á sokkana mína.

Erfitt að fara út úr rútínunni

Ég mátti ekki einu sinni drekka kaffi. Ég mátti ekki fara út, en þegar á leið sumarið fékk ég fara í nokkrar mínútur út í göngutúr í fylgd starfsmanns. Ég talaði við mömmu og pabba á hverjum degi og sagði þeim hvað mig langaði að vera heima. Á mánudögum og miðvikudögum máttum við mála og föndra inni í einu herberginu fram að hádegi. Það eina sem ég gat gert þarna inni. Þegar farið að treysta mér fékk ég að fara eina í stutta göngutúra en þá labbaði ég mjög rösklega. Ég var orðin mjög einangruð, búin að missa nánast allt samband við mína bestu vini. Eftir að systir mín náði í mig á deildina fórum við yfirleitt og fengum okkur kvöldmat, síðan reyndi hún að gera eitthvað skemmtilegt með mér til dæmis fara á fótboltaleiki. Ég var vigtuð vikulega og kílóunum fjölgaði ekki hratt. Ég man vel eftir tölunni 37. Ég hafði eins marga skartgripi á mér og ég gat því þá var meiri möguleiki á að ég hafi þyngst eitthvað.

Eftir sumarið fór ég heim til Reyðarfjarðar og ætlaði að halda áfram að reyna að ná bata. Þetta gekk svona upp og niður en yfirleitt gekk það illa. Ég hugsaði yfirleitt á hverjum morgni þegar ég vaknaði að nú mundi ég standa mig vel en það var erfitt að fara út úr rútínunni að borða eitthvað alveg fitulaust og fara svo út í svaka göngutúr. Ég hélt áfram í menntaskólanum en var með samning um frjálsa mætingu. Ég var með svo mikla fullkomnunaráráttu að ég mætti nánast í alla tíma. Einu sinni var eiginlega ófært upp dalinn þannig að ég fékk far með björgunarsveitinni. Ég ætlaði sko ekki að sleppa því að mæta í tíma!

Búlimía bætist við

En ástand mitt versnaði. Í eitt skipti þegar ég var að leggja af stað í skólann fann ég hvað ég var uppþembd og fannst allt vera að koma upp úr mér. Ég var nýbúin að borða cheerios. Ég stoppaði bílinn, opnaði munninn og þá kom bara allt upp úr mér án þess að ég gerði neitt. Þetta var byrjunin á öðrum hræðilegum vítahring. Nú vissi ég að allt sem ég borðaði gat komið auðveldlega upp. Ég var greinilega með svo slappt vélinda að til þess að láta matinn koma upp þurfti ég bara að opna muninn og spenna magavöðvana - þá kom allt upp.

Ég man ekkert rosalega mikið eftir akkúrat þessum tíma enda fannst mér mikil skömm að því og finnst enn, að vera komin með búlimíu (lotugræðgi) ofan í anorexíuna. Allt sem ég borðaði fékk að koma aftur upp og ég hafði ekkert fyrir því. Alveg sama hvort að það var eitt epli, eitt skyr eða vínber. Og alveg sama hvar ég var. Ég gat kastað upp alls staðar og var mjög lúmsk við það. Mig minnir sem dæmi að ég hafi einu sinni ælt í ruslafötuna. Þetta leiddi til þess að ég gat leyft mér að fá mér eitthvað óhollt eins og kex eða nammi því að þetta gat hvort sem er komið aftur upp. Þetta varð til þess að ég fékk væg átköst þar sem ég gat borðað mikið, helst eitthvað óholt og þá var svo auðvelt að opna munninn og kreista magavöðvana því þá kom allt upp. Og ég lét allt koma upp alveg þangað til að það kom upp gall.

Eftir svona átköst var ég svo máttlaus og hausinn oft að springa. Ég hef verið heppin að fá ekki heilablóðfall eða liggja bara fyrir framan klósettið því að þetta er líkamanum svo rosalega vont og óheilbrigt. Þess vegna reyndi ég að passa mig á því að fá mér eitthvað að sem ég þurfti ekki að kasta upp eða leið ekki eins illa að borða, skyr, soðinn fisk og grænmeti. Þrenn jól í röð fékk ég mér soðinn fisk eða saltfisk með soðnu grænmeti, engri sósu og engu smjöri á meðan hinir fengu sér hamborgarahrygg, sósu og fromage í eftirrétt. Á aðfangadag fyrir messuna langaði mig svo í eitthvað þannig ég beit það í mig að fá mér eina fíkju. Ég fór með hana í messuna og borðaði hana þar.

Ástandið var enn mjög slæmt. Í einni messunni á Reyðarfirði var beðið fyrir mér. Einn daginn sat ég við eldhúsborðið heima og sá að presturinn var að koma. Mamma var líka heima og ég vissi ekki hvað var í gangi en eina sem mér datt í hug var að hann væri að fara að segja að pabbi væri dáinn því hann var ekki heima og það var ekki vaninn að presturinn bankaði uppá. Þá vildi hann bara tala við mig og mömmu. Á þessum tíma kærði ég mig ekkert um að tala um þetta þannig að úr varð að hann og mamma spjölluðu saman. Þetta var ekki síður erfitt fyrir alla fjölskyldu mína að horfa upp á mig vera að nánast að drepa mig hægt og rólega. Þau fengu að heyra það af hverju þau gerðu ekki eitthvað í þessu, af hverju þau létu mig fara út að labba, af hverju þau gæfu mér ekki eitthvað að borða. Ef þetta væri svo einfalt þá hefði ég aldrei verið veik. Þú segir ekki alkahólista að hætta að drekka, þetta virkar ekki þannig. Þau gerðu allt sem þau gátu. Hefði ég ekki haft þessa fjölskyldu þá væri ég ekki hér að skrifa þetta núna.

Átti að svipta mig sjálfræði

Í lok desember 2005 átti ég að fara til læknis á Norðfirði til að taka stöðuna á mér. Ég fór í alls konar myndatökur og skoðanir. Pabbi fór með mér, og eftir skoðunina vorum við látin bíða frammi. Svo er pabbi kallaður inn og ég bíð frammi. Þegar pabbi kom fram sá ég að ekki var allt eins og það átti að vera. Ég er svo kölluð inn og fæ ég það beint í andlitið að ég verði svipt sjálfræði. Ekkert annað sé í stöðunni. Ég fer að hágráta og þá fæ ég setningu sem ég gleymi aldrei: „Það þýðir ekkert fyrir þig að grenja". Með þessar fréttir fórum við frá Norðfirði og pabbi átti að skrifa undir sjálfræðissviptingu á mér á Eskifirði. Ég grét og grét á leiðinni yfir Oddskarðið. Það gerði pabbi líka. Í annað sinn sá ég hann gráta og það út af mér.

Ég grátbað pabba um að fá að hringja í Guðlaugu lækni og fá eitt tækifæri í viðbót. Pabbi leyfði mér það og hún gaf mér tækifærið. Við fórum þá beint heim og ég fékk mér fullt að borða. Ég ætlaði mér að ná bata, það átti ekki að svipta mig sjálfræði. Eftir þetta ákvað pabbi að hætta að vinna. Hann var verslunarstjóri í Bónus en fékk að hætta strax. Mamma eldaði mat fyrir Ístak og vann rosalega mikið. Hún var því ekki mikið heima þannig að pabbi borðaði oftast með mér og svo spiluðum við eftir matinn. Þetta gekk nokkuð vel en það var samt langt í land og einu sinni í viku þurfti ég að fara á heilsugæsluna í vigtun.

Orkulaus í vinnunni

Ég ákvað að fara að vinna og fékk vinnu í eldhúsinu á hótelinu. Þá var mamma farin að vinna þar og hún passaði alveg upp á mig þegar ég var að vinna. En þegar ég var að vinna þurfti ég yfirleitt að vera á fullu til að brenna fleiri kaloríum. Ég var og er enn með þrifæðið. Einu sinni þegar ég var komin í vinnuna fannst mér ég verða að fara heim að skúra og gerði það. Ég var eiginlega óvinnufær, því hugurinn var við eitthvað allt annað en ég stóð mig samt alltaf vel í vinnunni. Síðan fór ég að vinna hjá Bechtel við að þrífa starfsmannabúðirnar. Vinnan var púl. Mamma var líka farin að vinna í mötuneytinu þar þannig að hún var aldrei langt undan. Þegar ég kom heim var ég svo gjörsamlega búin á því enda engin orka eftir. Hádegismaturinn minn var þarna var yfirleitt normalbrauð með osti gúrku og lauk en hann endaði oftast í klósettinu. Maður var svo ótrúlega lúmskur. Svo var haldið áfram að vinna en í rauninni var ekkert bensín til að brenna þannig ég fór þetta áfram á þrjóskunni. Það kom að því að ég gat ekki meir og var bannað að vinna. Mér fannst ég vera alveg tilgangslaust þegar ég fékk ekki lengur að vinna. Allt var svo vonlaust en ég þráði að eiga eðlilegt líf, eiga kærasta og fara að vera aftur með vinum mínum.

Það bjargaði mér að eiga svo yndislega fjölskyldu. Í þau fáu skipti sem ég fór út að skemmta mér og einhverjir strákar vildu tala við mig var ég bara köld við þá og vildi helst forða mér frá þeim. Mér fannst ég ekki eiga neitt slíkt skilið. Ég hafði ekkert sjálfstraust enda mundi vilja vera með stelpu sem er 37 kg. Ég get ekki ímyndað mér það.

Á þessum tíma var búið að stofna samtök, sem eru að vísu ekki starfrækt lengur, en þau hétu Forma. Ég byrjaði með trega að fara á fundi hjá þessum samtökum en tvær stelpur sem höfðu verið veikar voru með þau. Ég flaug einu sinni í viku á fundi og það er hægt að ímynda sér kostnaðinn við það. Stundum eftir fundina fannst mér allt vera bjartara en yfirleitt fór allt aftur í sama farið.

Mamma og pabbi fluttu í sundur

Í einni vigtuninni eru mamma og pabbi kölluð með og það er sama sagan, ég bíð frammi og eitthvað sagt við þau sem var greinilega ekki gott. Alla veganna var ákveðið að mamma færi með mig suður til Reykjavíkur. Þetta var sama ár og ég útskrifast, 2006, þar sem ég dúxaði í ME. Haustið 2006 fórum við mamma suður og eitthvað átti að gera í málunum. Við bjuggum fyrst hjá systur minni svo fórum við yfir í verkalýðsíbúð. Við ætluðum bara að vera tímabundið í borginni en mamma endaði á að vera þarna í 3 ár og ég er þar enn.

Ég mætti á fundina og mamma, amma, systir mín og frænka mættu líka á fjölskyldufundi. Þarna pældi ég lítið í hvað ég setti aðra í hræðilega aðstöðu, hvað þá mig. Til dæmis að mamma og pabbi þurftu að búa á sitthvorum staðnum. Systur mínar voru ótrúlega duglegar að gera eitthvað með mér og amma var alltaf að hugsa um mig. Það er eins og búlimían og anorexían hafi verið mínar bestu vinkonur sem ég vildi losna við en ég gat það bara ekki. En þetta snýst svo ótrúlega mikið um hugarfarið. Þú verður að hugsa rétt til að berjast við þessar vinkonur þínar.
Við sáum að við mundum líklegast ílengjast hérna þannig að mamma fór að vinna í eldhúsinu hjá Hjallastefnuskóla og eftir það fór hún alltaf að skúra. Hún vann í 12-16 tíma á sólarhring. Heima vann pabbi annað eins. Ég má þakka fyrir að hafa ekki misst mömmu á þessum tíma því árið 2007 fékk hún hjartaáfall. Maður getur ekki sett sig í spor foreldra minna þar sem mamma var inn á sjúkrahúsi og ég að kveðja líf mitt smátt og smátt. Sem betur fer náði mamma sér að mestu en hélt samt áfram að vinna eins og brjálæðingur.

Sálfræðingurinn hjálpaði

Eitt af því sem hjálpaði mér líka var að ég byrjaði að fara til yndislegasta sálfræðings sem ég veit um, Björns Harðarsonar. Í fyrstu vildi ég alls ekki fara til hans og helst ekki tala en einhvern veginn fékk hann mig til þess og hjálpaði mér mjög mikið. Ég fór til hans einu sinni í viku. Ég fór að vinna í Hjallastefnuskólanum þar sem mamma var að vinna og að skúra líka. Síðan var ég líka að passa yndisleg börn, og þau sem ég passaði fyrir redduðu mér íbúð í Garðabæ sem við vorum svo í.

Á þessum tíma var ég miklu meira í búlimíunni, borða mikið og kasta því svo upp. Inn á milli fékk ég mér bara hollt til að þurfa ekki að kasta því upp, því það mátti ekkert óhollt vera í maganum á mér. Ég varð líka alltaf að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi, helst á morgnanna, annars gat ég varla byrjað daginn. Þarna var komin dagdeild fyrir átröskunarsjúklinga, sem ég sótti um tíma. Yfirleitt varð ég að hreyfa mig þegar ég kom þaðan út.

Ég man að það kom fyrir í vinnunni, þegar ég átti að vera að vinna, að mér fannst ég verða fara út að labba og þá gerði ég það. Þarna hafði ég ekki sofið heila nótt í þrjú ár. Ég þurfti alltaf að vakna á nóttunni til að fá mér eitthvað að borða. Líkaminn var orðinn svo vannærður að hann kallaði á eitthvað. Enn í dag vakna ég á nóttunni og fæ mér eitthvað að borða því það er vani. Ég hef semsagt ekki sofið heila nótt í tíu ár.

Beið eftir að kærastinn gæfist upp á henni

Árið 2007 fór ég í vélindaraðgerð því það lak allt orðið upp í mig alveg, sama hvað það var. Ég tek það fram að þetta var ekki aðgerð til að láta mig hætta að kasta upp. Ef svo væri þá væru alltaf gerðar svona aðgerðir á búlimíusjúklingum. Eftir hana hætti ég að kasta upp í einhvern tíma. Loks þegar líkaminn fór að fá mat tútnaði ég öll út og varð öll bjúguð. Ég borðaði samt aldrei neitt óhollt, bara skyr, ávexti og grænmeti.
Árið 2008 er var ég orðin 63 kg og með gott hold. Ég hélt áfram að vinna og var að passa.Í ágúst kynntist ég kærastanum mínum, Halli. Ég var með það lítið sjálfstraust að ég beið í raun alltaf eftir að hann hætti að nenna að vera með mér, en svo varð aldrei. Allt gekk vel en alltaf var hugsunin sú sama, ekki borða óholt og hreyfa sig. Mamma flutti aftur á Reyðarfjörð og fór að vinna þar. Ég og Hallur fórum að búa saman og fluttum í Hafnarfjörð. Ég byrjaði að fara í ræktina, sem ég hafði ekki verið mikið í áður því ég var yfirleitt alltaf í göngutúrum. Í ræktinni fór ég bara á brennslutæki. Þetta var orðið þannig að ég mátti ekki sleppa degi úr. Ég fór aftur að missa kíló og var rosa ánægð með það. En mikill vill meira þannig að ég fór aftur að kasta upp því það var ekkert mál fyrir mig en ég hef aldrei stungið puttanum niður í kok til þess. Þess þurfti ekki.

Í janúar 2009 var ég orðin 45 kg. Hreyfingin var meira að segja orðin það sjúk að ef ég fór til útlanda og átti að vera mætt snemma í flug fór ég út að hlaupa að nóttu. Ég fór að líta aðeins öðrum augum á lífið. Mig langaði að eignast fjölskyldu, eignast börn og þá fór aðeins að ganga betur. En alltaf kastaði ég upp. Til dæmis er ég nýlega búin að segja Halli að ég hafi verið með búlimíu, hann hafði ekki hugmynd um það því ég var orðin svo góð í að fela hana.

Kraftaverkabarn

Ég var rosa ástfangin af kærastanum mínum. Eftir að við vorum búin að vera saman í 1-2 ár, vildum við fara að eignast barn en ekkert gekk enda búið að segja að ég gæti það ekki. Við ákváðum að prófa að fara í tæknifrjóvgun og til allrar hamingju gekk hún í fyrstu tilraun og talað um að kraftaverkabarn væri á leiðinni.

Þann 12. ágúst 2011 fæddist heilbrigður drengur, Adam Breki. Ég gat loksins farið að hugsa um einhvern annan en bara mig. Á meðgöngunni var ég alltaf svo hrædd að eitthvað væri að. Ég hef örugglega sett heimsmet í að fara í sónar. Ég fékk að fara í svo marga því ég var alltaf viss um að eitthvað væri að. Ég bætti á mig 6 kg á meðgöngunni og það er skrýtið að mér var alveg sama þótt ég bætti þeim á mig.

Eftir að Adam Breki fæddist gat ég ekki litið af honum. Mér fannst þó erfitt komast ekki eins oft í ræktina. Alltaf fór ég nú samt þótt ég væri alveg búin á því eftir vökur næturinnar. Stundum leyfði ég Adam ekki einu sinni að klára að drekka því ég þurfti að drífa mig í ræktina eða fara að þrífa. Þetta gekk nú allt vel nema að ég þurfti að stunda ræktina, fara út að hlaupa eða með Adam í vagninum. Ég komst óvænt að því að ég væri ólétt af öðru barninu mínu. Það var svo mikið sjokk að ég kallaði á Hall og sagði: „Ég get ekki átt það, við verðum að láta eyða því."
Fyrsta hugsunin var sú að rútínan eyðilegðist ef annað barn kæmi. Ég kæmist ekki í ræktina, gæti ekki þrifið og ekki séð 110% um Adam Breka. Til allrar hamingju talaði Hallur mig ofan af vitleysunni. Ég æfði á hverjum degi meðgöngunnar, líkt og ég gerði með Adam, þrátt fyrir mjög mikla vanlíðan. Þegar þau bæði fæddust var ég nýbúin að hjóla yfir 30 mínútur. Þann 13 nóvember 2013 fæddi ég heilbrigða stúlku Emmu Dóru. Hún veiktist rétt fyrir jólin 2013, fékk háan hita og 23. desember, á skírnardaginn hennar og afmælisdag pabba, náðum við ekki að vekja hana. Við eyddum restinni af deginum upp á spítala. Þarna sá ég hversu dýrmætt það er að eyða lífi sínu ekki í einhverja vitleysu. Ég var búin að eyða alltof mörum árum í rugl.Þarna var ég með rúmlega mánaðar gamla dóttur mína og vissi ekkert hvað væri að og gat ekki vakið hana. Loks vaknaði hún og var það svo mikill léttir fyrir mig og pabba hennar.

Vil ekki sjá fleiri deyja úr þessum sjúkdómi

Ég hef fengið annað tækifæri í lífinu og á hverjum degi hugsa ég að ég ætla ekki að eyða því í meira rugl. Í dag tel ég mig vera lánsama.Ég á tvö yndisleg og heilbrigð börn, tvö stjúpbörn, yndislegan mann og yndislega fjölskyldu sem hefur bjargað lífi mínu, ekki einu sinni eða tvisvar heldur oft, oft, oft. Þótt að ég sé í góðum bata núna þá fer þetta aldrei alveg. Enn í dag verð ég að hreyfa mig daglega. Mér líður illa ef ég geri það ekki. Ég er haldin áráttu og þráhyggju hvað varðar þrif. Það má helst ekki vera drasl í kringum mig sem þýðir að maður sest ekki mikið niður þegar það eru fjögur börn á heimilinu.

Ég vakna enn alltaf á nóttunni til að borða og vona að einn daginn geti ég vanið mig af því. Ég vil sinna börnunum mínum 200% og nýti allan þann tíma sem ég hef að vera með fjölskyldunni minni.Ég hef ekki mikið sjálfstraust og hvort sem ég var 35 kg eða 63 kg ég verð greinilega ekki sátt með sjálfa mig þótt ég reyni. Ég þarf alltaf að minna mig á að það er ekkert mál að falla aftur í sama farið en ég held að ég fái ekki mikið fleiri tækifæri í lífinu. Ég ætla því að reyna að nota það tækifæri sem ég fékk til að hjálpa öðrum og láta mér líða vel og hugsa um þá sem eru í kringum mig, börn, fjölskyldu og vini.

Ég get aldrei sagt það of oft og veit hreinlega ekki hvernig ég á þakka fyrir þeim sem hafa stutt mig í gegnum þetta allt saman. Ég vona að fólk geti lært af þessari lesningu og vil engum að hann fái þennan hræðilega sjúkdóm sem eru með þeim erfiðustu í heiminum. Ég veit um alltof marga sem hafa dáið úr þessu og vil ekki sjá fleiri.

--

Takk!

Mamma og pabbi: Ég elska ykkur endalaust. Ég á aldrei eftir að getað þakkað ykkur fyrir. Það eru ekki nærri allir svona heppnir að eiga svona foreldra sem rífa sig úr vinnu og flytja í sundur fyrir sig. Það er ekki hægt að lýsa hversu góð þið eruð. Ég vildi óska að ég gæti séð ykkur á hverjum degi en sem betur fer erum við með síma þannig að ég heyri í ykkur á hverjum degi.
Systkinin mín: Þið eruð ótrúleg. Að hafa nennt að þola mig svona!!! Ég elska ykkur og get alltaf leitað til ykkar. Takk
Amma: Þú ert ótrúleg. Þú hefur gert svo mikið fyrir mig og alltaf haft trú á mer. Þú eins og allir hinir hefur alltaf viljað gera allt fyrir mig
Hallur: Þú hefur veitt mér það sem ég hef alltaf þráð. Tvo yndislega gullmola. Lífið væri mjög einmannalegt án þín. Það verður gaman að sjá börnin okkar vaxa og dafna, ég veit og vona að þú styður mig í öllu sem ég geri ég treysti á þig. Ég elska þig.
Adam Breki og Emma Dóra: Þið hafið gefið mér svo mikið. Ég veit ekki hvar ég væri án ykkar. Ég elska ykkur og mun alltaf gera. Kveðja, mamma

Greinin birtist upphaflega í Austurglugganum 28. nóvember 2014.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.