Orkumálinn 2024

Ræktin er fyrir ALLA!

fjola hrafnkelsdottirOft á tíðum finnst mér umræðan um líkamsrækt vera afbökuð. Það er alltof algengt að við tengjum líkamsrækt við útlit, að það sé það sem mestu máli skiptir. Að sama skapi finnst mér oft fólk kenna markaðshyggjunni um það hvernig ástandið er, við ásökum heilsumarkaðinn fyrir það hversu illa okkur líður í eigin líkama.

Líkamsrækt á ekki að snúast fyrst og fremst um útlit heldur á hún að snúast um heilsu! Við getum borið saman 2 persónur, önnur í svokallaðari kjörþyngd og lítur ferlega vel út í spandex galla en hin sem er með einhver aukakíló og finnst bara best að vera í gamla góða íþróttagallanum.

Sá sem ber aukakílóin getur verið að koma mun betur út líkamlega en sá létti. Kólesterólmagn í líkamanum getur mælst hátt í manneskju sem er létt eins og manneskju sem er þung. Auðvitað aukast líkurnar á hærra kólesteróli í blóðinu ef maður er of feitur, ekki síst ef maður ber mikla kviðfitu. En manneskja getur verið 15 kg – 20 kg of þung en samt verið í súper góðu formi.

Ég hef tekið mælingar hjá allskonar fólki undanfarin 10 ár, það má sjálfsagt telja í hundruðum þeir sem ég hef vigtað, ummáls mælt, fitumælt og þrek/þol mælt. Það er ótrúlegt að sjá niðurstöðurnar hjá sumum. Það er vert að taka það fram að auðvitað er líklegra að of þung manneskja sé í verra formi en sú sem er léttari en það er samt ekki pottþétt.

Líkamsrækt á EKKI að snúast um útlit!

Þar sem að líkamsræktin snýst orðið svo mikið um útlit að þá er fullt af fólki skíthrætt við að byrja að stunda líkamsrækt. Það segir að líkamsræktarstöðvar séu ekki fyrir það, þeim líði hreinlega illa þegar það kemur þangað inn.

Öðrum finnst líka að líkamsrækt sé ekki fyrir alla því að viðkomandi hefur kannski verið að skoða myndir af síðustu keppendum í model fitness eða á svipmyndir frá heimsleikunum í cross fit og er ekki alveg að sjá sína möguleika í líkamsræktargeiranum.

Auðvitað megum við ekki bera okkur saman við afreksfólk í íþróttum þegar við erum að hugsa um heilsuna okkar. Þetta fólk sem við berum okkur saman við er fólk sem hefur það að atvinnu að keppa í íþróttum, allaveag margir.

Góð heilsa eru helstu lífsgæðin

Við sem erum á fullu að reyna að púsla saman vinnu, uppeldi á börnunum okkar, þrifum heima hjá okkur, matseld og öllu öðru eigum auðvitað að líta á heilsuna sem lífsgæði. Það er stærsti þáttur lífsgæða að geta tekið þátt í lífsins amstri með fjölskyldunni okkar.

Við þurfum ekki að geta það sama og Annie Mist í Cross fit eða hafa sama líkama og Margrét Gnarr til þess að öðlast frábær lífsgæði með betri heilsu. Það má segja að áhugi minn á líkamsrækt sé ekki síst komin til vegna þessara þankagangs.

Líkamsræktarstöð með „sál"

Ég sjálf hef alla tíð verið að glíma við aukakílóin, stundum hefur þetta bara gengið ágætlega og þá helst þegar ég hef haft aðgang að líkamsræktarstöð með sál, en svo hefur líka gengið verulega illa!

Hvað meina ég þegar ég tala um líkamsræktarstöð með sál? Ég á við stöð þar sem er gott og hlýtt starfsfólk sem er umhugað um mína líðan.

Það er líkamsræktarstöð þar sem ríkir stemming og hvatning, það er líkamsræktarstöð sem ríkir fyrst og fremst gleði! Það á að vera gaman að fara í ræktina. Það á að vera gaman að hitta alla sem þar eru og við finnum að við erum velkomin. Það eiga allir að vera jafnir þar eins og bara allsstaðar annarsstaðar.

Sjáumst í ræktinni!!

Höfundur er framkvæmdastjóri Heilsueflingar Heilsuræktar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.