Orkumálinn 2024

Hvað er iðjuþjálfun?

gullveig osp magnadottirÍ Háskólanum á Akureyri (HA) er kennd fræðigrein sem nefnist iðjuþjálfunarfræði. Við, Gullveig og Marsibil erum báðar á lokaári í því námi. Þessi grein er liður í verkefni sem nemendum var falið til þess að markaðssetja fagið. Ætlunin er að fræða lesendur örlítið um iðjuþjálfun.

Iðjuþjálfun

Fagið iðjuþjálfun (e. Occupational Therapy) er tiltölulega ungt en hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi. Það er upphaflega talið hafa tekið á sig mynd á fyrri hluta 19.aldar og tengjast svokölluðu mannúðarsjónamiði í meðferð geðsjúkra. Fyrsti iðjuþjálfinn á íslandi hóf störf á Kleppspítala árið 1945. Iðjuþjálfafélag Íslands var síðan stofnað af átta iðjuþjálfum árið 1975. Áður fyrr þurfti að sækja námið erlendis en frá því 1997 hefur iðjuþjálfunarfræði verið kennd við HA og árið 2008 var byrjað að kenna námið í fjarnámi.

Iðja er allt það sem fólk tekur sér fyrir hendur í þeim tilgangi að annast sig og sína, njóta lífsins og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Iðja er t.d vinna, nám, að stunda áhugamál, eldamennska, barnauppeldi o.fl.

Iðjuþjálfar vinna fyrirbyggjandi, hæfingar og endurhæfingarstarf með skjólstæðingum og skjólstæðingshópum s.s. fjölskyldum, vinnustöðum og skólum. Starfið hefur þann tilgang að aðstoða einstaklinga eða hópa við að geta stundað sína iðju án hindrana. Aðstoðin getur falist í t.d vinnuvistfræði, geðrækt, aðlögun umhverfis, útvegun og stillingu hjálpartækja, ýmsum ráðleggingum og íhlutunarleiðum.

Skjólstæðingsmiðun leiðir starf iðjuþjálfa og vinna þeir eftir ákveðnum hugmyndafræðum til að aðstoða skjólstæðinga sína m.a við að setja sér markmið og gera áætlun um hvernig þessum markmiðum verður náð. Þessar áætlanir innihalda gjarnan íhlutun hvort sem hún er veitt af iðjuþjálfa, öðrum fagaðila eða ættingjum skjólstæðingsins. Íhlutun iðjuþjálfa getur verið á ýmsu formi, s.s ráðgjöf, hópavinna, þjálfun, slökun, hjálpartækjaaðstoð (pöntun, tæknimál, stillingar) o.fl. Einstaklingur sem ekki getur stundað þá iðju sem hann kýs að geta stundað s.s vegna veikinda, áfalls eða stoðkerfisvanda gæti notið góðs af endurhæfingaraðstoð iðjuþjálfa.

Iðjuþjálfar á íslandi eru nú í kringum 300. Þeir vinna fjölbreytt starf með fólki á öllum aldri. Iðjuþjálfar vinna t.d hjá bæjarfélögum í leikskólum og grunnskólum. Í heilbrigðiskerfinu bæði hjá hinu opinbera og í einkastofnunum s.s á endurhæfingarstöðvum, geðsviði og öldrunarsviði. Einnig vinna þeir hjá fjölbreyttum fyrirtækjum og félögum s.s. hjá Alcoa Fjarðaráli, Austurbrú, Afli, Virk, Hæfingarstöðinni Hamri, Starfsorku, Ljósinu, Vinnumálastofnun, Sjúkratryggingum íslands og svo mætti lengi telja.

Hverjar erum við og hversvegna iðjuþjálfun?

HAer mjög góður og persónulegur skóli, haldið er vel utan um nemendur og háskólaumhverfið allt er mjög uppbyggjandi. Í HA þekkja kennararnir nemendur sína með nafni og heilsa á göngunum. Iðjuþjálfunarfræði er spennandi og krefjandi fag. Námskeiðin eru fjölbreytt og gefa góða mynd af því sem koma skal í starfi. Námið tekur 4 ár og þar af eru 25 vikur í vettvangsnámi á vinnustöðum iðjuþjálfa víða um landið sem og erlendis.

Við komum úr samfélögum þar sem umhverfið er persónulegt og allir þekkjast á einhvern hátt rétt eins og í skólasamfélaginu við HA.

Gullveig er frá Norðfirði og stundar fjarnám þaðan. Hún valdi námið því hún hafði áhuga á að vinna með fólki. Einnig hafði hún áhuga á bæði líkamlegum og félagslegum þáttum sem tengjast einstaklingnum og umhverfinu. Eftir að hafa lent í að þurfa að endurskoða hvað hún vildi gera í framtíðinni var henni bent á iðjuþjálfunarfræði og fannst það spennandi. Í námsferlinu hefur hún komist að því að iðjuþjálfun er svo miklu meira og stærra en hana óraði fyrir og hefur hún fundið mörg ný áhugamál í faginu s.s spelkugerð og tæknileg úrræði.

Marsibil er úr Vestmannaeyjum en stundar staðarnám á Akureyri. Hún valdi námið upphaflega í hálfgerðri tilraunastarfsemi. Hana langaði alltaf að læra eitthvað meira, en hún er menntaður sjúkraliði. Vorið 2011, eftir að hafa skoðað ýmiskonar nám á háskólastigi, fékk Marsibil þá hugmynd að flytja norður á Akureyri og fara í iðjuþjálfun. Iðjuþjálfastarfið virtist búa yfir helstu þáttunum sem henni fannst eiga að tilheyra sínu framtíðarstarfi. Það er hægt að vinna á mjög fjölbreyttum sviðum, út um allan heim, með hvaða aldri sem er, veita fjölbreytta þjónustu og síðast en ekki síst myndi hún fá að hjálpa fólki. En þegar námið var byrjað komst hún að því að þetta er svo miklu miklu meira en það og var ennþá ánægðari með að yfirgefa æskustöðvarnar og flytja í snjóinn fyrir norðan.

Að lokum

Við hvetjum alla sem áhuga hafa á því að vinna fjölbreytt og skemmtilegt starf á að kynna sér nám í iðjuþjálfunarfræði við HA.Viljum við einnig minna á að Iðjuþjálfun hentar báðum kynjum og væri ánægjulegt að sjá fleiri karlmenn í faginu á Íslandi.

Kynnið ykkur endilega heimasíðu iðjuþjálfadeildarinnar við HA, og síðu Iðjuþjálfafélags Íslands.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.