Orkumálinn 2024

Vöndum okkur

eydis asbjornsdottir nov2014Þeir Fjarðabyggðarbúar sem samþykktu sameiningu sveitarfélaga á sínum tíma gerðu það örugglega á þeirri forsendu að sameiningin myndi styrkja samfélagið og auka getu þess til að takast á við mikilvæg verkefni. Allir hafa án efa gert sér ljóst að sameiningin myndi leiða til breytinga á ýmsum sviðum en flestir hafa haft trú á því að vel yrði staðið að þeim breytingum og þær vel og faglega undirbúnar.

Að undanförnu hafa fræðslumál mikið verið til umræðu í Fjarðabyggð. Helsta ástæðan er sú að í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015 sáu tvær tillögur dagsins ljós og þær komu íbúunum í opna skjöldu. Fyrri tillagan fól í sér að skólabörnum 5.-8. bekkjar grunnskólans á Stöðvarfirði yrði ekið daglega til kennslu í skólanum á Fáskrúðsfirði. Í síðari tillögunni fólst að nemendum í 9. og 10. bekk skólanna á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði yrði ekið til kennslu í skólanum á Reyðarfirði. Báðar þessar tillögur voru teknar inn í tillögu að fjárhagsáætlun þegar hún var lögð fram til fyrri umræðu. Það var meirihluti bæjarstjórnar sem stóð að tillögunum en bæjarfulltrúar Fjarðalistans settu strax fram fyrirvara hvað þær varðaði.

Tillögurnar féllu svo sannarlega í grýttan jarðveg á meðal íbúanna, sérstaklega mótmæltu íbúar Stöðvarfjarðar þeim harðlega og fengu þeir góðan stuðning víða að úr sveitarfélaginu. Þegar hefur verið fallið frá fyrri tillögunni en enn er verið að skoða hina síðari í bæjarkerfinu.

Öllum ætti að vera ljóst að tillögur um breytingar á framkvæmd grunnþjónustu í sveitarfélaginu eru einkar viðkvæmar og slíkar tillögur sem snerta þjónustu við börn eru viðkvæmastar allra. Á undanförnum árum hefur verið hægt að fylgjast með miklum og alvarlegum átökum víða um land einmitt um breytingar á skólahaldi. Oft hafa slíkar tillögur komið fram illa undirbúnar og jafnvel eingöngu snúist um krónur og aura. Tillögurnar sem komu fram í Fjarðabyggð á dögunum voru einmitt þessa eðlis; þær snerust um krónur og aura en aðrir þættir höfðu ekki verið kannaðir til hlýtar. Tillögurnar voru óvandaðar.

Þegar tillögur á borð við þær sem sáu dagsins ljós í Fjarðabyggð á dögunum eru undirbúnar þarf að skoða vel hvað í þeim felst. Í fyrsta lagi þarf að skoða kostnaðarleg áhrif. Í öðru lagi þarf að skoða kennslufræðileg áhrif. Í þriðja lagi þarf að kanna ýmsa kosti og galla við framkvæmd breyttrar tilhögunar og þá kemur til dæmis flutningur nemenda á milli byggðarkjarna til skoðunar.

Í fjórða lagi þarf að framkvæma mat á samfélagslegum áhrifum breyttrar þjónustu á þá byggðakjarna sem hlut eiga að máli. Verður girnilegt fyrir fólk sem vill setjast að í Fjarðabyggð að velja sér búsetu í byggðarkjarna þar sem boðið er upp á takmarkaða grunnþjónustu fyrir börn? Það sem ég er í reynd að benda á er nauðsyn þess að vanda umræður og tillögugerð um framkvæmd grunnþjónustu í hinu sameinaða sveitarfélagi. Það er mjög óvarlegt að kasta fram tillögum að lítt athuguðu máli og gefa lítinn tíma til umfjöllunar um þær.

Ég endurtek það sem mestu máli skiptir í þessu sambandi: Vöndum okkur.

Fjárhagsáætlunin mun koma til síðari umræðu á fundi 4. desember nk. Fjarðalistinn er tilbúinn til að taka þátt í ábyrgum umræðum og standa að tillögum sem leiða til betri reksturs sveitarfélagsins en hann gerir þá kröfu að mál séu vel undirbúin og tími sé gefinn til að skoða þau frá öllum hliðum áður en ætlast er til að afgreiðsla fari fram. Og eins verður að hafa það í huga að mörg verkefni snúast ekki einungis um krónur og aura og það á ekki síst við þegar börn eiga í hlut.

VÖNDUM OKKUR !

Höfundur er bæjarfulltrúi Fjarðalistans

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.