Orkumálinn 2024

Austurland - áhugaverður valkostur til náms í list og verkgreinum!

lara vilbergsdottir nov14 webList og verkgreinar hafa átt undir högg að sækja í skólakerfinu undanfarna tvo áratugi. Mikið er talað um eflingu list- og verkgreina af hálfu stjórnmálamanna en aðgerðir þeirra samhliða góðum áformum stemma ekki við fjárveitingar til skólanna og þau fyrirmæli sem skólarnir fá um eflingu námsins. Það er gömul saga og ný. Engu að síður hefur margt áunnist á landsvísu og einnig hér á Austurlandi. Á engan er hallað þó eljusömum listgreinakennurum grunn- og framhaldsskólanna, ásamt framsýnum skapandi einstaklingum, sé fyrst og fremst þökkuð sú gróska sem nú er að eiga sér stað hér á Austurlandi.

Flaggskip sem ber með sér ferska vinda

Fyrst ber að nefna LungA skólann á Seyðisfirði sem tók formlega til starfa í haust og er óhætt að segja að sú starfssemi sé flaggskipið okkar í þeirri viðleitni að efla nám í skapandi greinum á Austurlandi. Stjórnendur skólans bera með sér ferska vinda sem endurspeglast í hugmyndafræði skólans, en LungA skólinn byggir á blöndu af danska lýðháskólaforminu, Kaospilot hugmyndafræði, skapandi ferlum í anda Dieter Roth og styrkingu einstaklingsins. Til hamingju Austurland og Ísland með LungA skólann.

Listnámsbraut til stúdentsprófs er í burðarliðnum við Menntaskólann á Egilsstöðum eftir nýrri námsskrá framhaldsskólanna sem taka á í gildi 2015. Brautin er góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám í skapandi greinum og miðast við að veita nemendum innsýn og staðgóðan grunn til að hefja listnám. Verkmenntaskólinn í Neskaupsstað eflist ár frá ári í að bjóða upp á fjölbreytt verknám sem tengist atvinnulífinu. Á laugardag var opið hús í skólanum en þá var Tæknidagur fjölskyldunnar haldinn í annað sinn. Þar gátu Austfirðingar kynnt sér þá fjölbreyttu verk- og tæknimenntun sem í boði er. Einnig var formleg opnun á Fab Lab smiðjunni sem er mikil lyftistöng fyrir fjórðunginn. Með tilkomu smiðjunnar opnast tækifæri til vöruþróunar og nýsköpunar í samtali skóla, atvinnulífs, hönnuða, hugvits- og handverksmanna.

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað fagnar 80 ára afmæli á þessu ári og hefur verið trúr þeirri hugmyndafræði sem lagt var af stað með í upphafi. Skólinn er annar tveggja slíkra í landinu sem haldið hefur velli og byggir á að kenna ungmennum almennt heimilishald og hannyrðir en einnig nýtist námið sem góður grunnur fyrir hverskonar matartækninám. Austfirðingar geta verið stoltir af framhaldsskólunum þremur sem eru óðum að styrkja sig í sessi þrátt fyrir að rekstrarumhverfi og aðgerðir stjórnvalda dragi oftar en ekki kraft úr faglegri uppbyggingu.

Menningarmiðstöðvar fjórðungsins, tónlistarskólarnir og listgreinakennsla grunnskólanna hafa einnig lagt sitt af mörkum til uppbyggingar skapandi greina á Austurlandi. Skaftfell, miðstöð myndlistar á Seyðisfirði hefur undanfarin ár þróað fræðsluverkefni sem kennd eru í grunnskólum á svæðinu. Miðstöð sviðslista á Egilsstöðum hefur boðið grunn- og framhaldsskólanemendum upp á þátttöku í Þjóðleik annað hvert ár og Tónlistarmiðstöðin á Eskifirði hefur staðið fyrir ýmiskonar námskeiðum í tónlist. Tónlistarskólarnir í fjórðungnum byggja á áratuga starfi og bjóða upp á fjölbreytt nám á grunn- og framhaldsskólastigi ásamt tengingu við kórastarf í flestum bæjarfélögum.

Fjölgun nemenda – lykill að námsframboði

Akkilesarhæll þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað undanfarin ár er fyrst og fremst að ásókn í list- og verknám hefur ekki verið næg. Ímynd námsins virðist á einhverjum tímapunkti hafa beðið hnekki ef svo má segja og virði list- og verknáms í hugum foreldra og nemenda rýrnað. Ákall atvinnulífsins eftir verkmenntuðu fólki hefur ekki dugað til og ekki hefur náðst að búa til sannfærandi átak um að tækifæri í list- og verkmenntun sé ávísun á góða grunnmenntun fyrir fjölbreytta starfsmöguleika nemenda í framtíðinni.

Blásum til sóknar

Með sóknaráætlunarverkefninu „Fjölgun námstækifæra í skapandi greinum" hefur undir stjórn Austurbrúar og með samtali við framhaldsskólana og LungA skólann verið blásið til sóknar til eflingar námsmöguleika. Markmiðið er að efla ímynd list- og verknáms í fjórðungnum í því skyni að fjölga nemendum sem velja námið sem grunn undir áframhaldandi nám á háskólastigi. Fjölgun nemenda í því list- og verknámi sem í boði er hér fyrir austan er lykillinn að auknu námsframboði og eflingu námsins til framtíðar. Til þess að það megi verða þarf að vekja athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem slíkt nám getur leitt til og auka skilning samfélagsins, nemenda og ekki síst foreldra á hvert list- og verknám, sem grunnnám, getur leitt nemandann. Til að ná markmiðum okkar þurfum við að vinna í mismunandi samhengi, efla samstarf milli listgreinakennara á grunn- og framhaldsskólastigi, milli skóla og atvinnulífs og ekki síst efna til samtals við nemendur og foreldra.

Aðgerðir þessu tengdar er á dagskrá á næstu vikum. Framundan er Tæknidagur fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands og fyrirlestur um samtal skóla og atvinnulífs verður haldinn þann 12.nóvember í fyrirlestarsal Menntaskólans á Egilsstöðum. Í tengslum við fyrirlesturinn verður opnuð sýning á lokaverkefnum austfirskra Listaháskólanemenda. LungA skólinn hefur tekið að sér að leiða samtal og samvinnu grunn- og framhaldsskóla í eflingu listnáms og innleiðingu skapandi ferla í skólastarfi. Stefnt er að degi skapandi greina á Austurlandi með vorinu í samstarfi skóla, atvinnulífs og skapandi samfélags á Austurlandi.

Já það er gróska, já það er hugur í okkur og við blásum til sóknar. Með samstilltu átaki getur Austurland orðið áhugaverður valkostur til náms í skapandi greinum og laðað að nemendur úr heimabyggð og heimsbyggð. Fyrstu skrefin eru stigin.

Höfundur er verkefnisstjóri skapandi greina hjá Austurbrú.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.