Skapandi greinar; fjölbreytni og þverfagleg nálgun

kolbrun halldorsdottir webÞað verður ekki framhjá því litið að listirnar eru hluti af atvinnulífi þjóðarinnar. Þannig hefur það verið alla síðustu öld án þess að sá skilningur hafi verið almennur eða afgerandi í hinum pólitíska veruleika, þ.e. meðal stjórnmálamanna og stofnana samfélagsins. Í áraraðir hafa yfirvöld menntamála lýst yfir vilja til að auka hlut listgreina í skólastarfi og við höfum komið okkur saman um að reka menntakerfi þar sem listnámsbrautir eru hluti af framhaldsskólanum og á háskólastigi eigum við Listaháskóla, sem útskrifar listafólk og hönnuði til starfa í samfélaginu. Aukinnar meðvitundar um þróun menntunartækifæra fyrir skapandi ungmenni gætir jafnt í atvinnulífinu sem og stjórnkerfinu. En fullorðnir hafa líka sótt í auknum mæli í framhaldsnám innan menningargeirans, nægir þar að nefna fjölgun menntaðra menningarstjórnenda og fjölgun listgreinakennara. Allt styður þetta við uppbyggingu þess hluta atvinnulífsins sem í daglegu tali kallast skapandi greinar.

Tengsl náms og atvinnulífs efld

Vilji til að efla menningarlíf um land allt hefur verið sýnilegur innan stjórnkerfinsins um nokkurt skeið. Hann birtist m.a. í skilvirkara samstarfi ríkis og landshlutasamtaka sveitarfélaga á seinni árum, t.d. með tilkomu menningarsamninga við landshlutana. Sveitarfélög hafa líka í auknum mæli sett sér menningarstefnu, sem tilgreinir áform um fjölgun atvinnutækifæra í hinum skapandi geira, má þar t.d. nefna nýsamþykkta menningarstefnu Reykjavíkur 2014 – 2020. Í mars 2013 samþykkti svo Alþingi menningarstefnu, sem hefur það að leiðarljósi að fjölbreytt menningarstarfsemi sé mikilvægur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar sem hlúa beri að. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um mikilvægi þess að skapandi greinar eflist og sæki fram. Þar er einnig heitið aukinni áherslu á nám í hönnunar- og listgreinum og undirstrikuð þörfin á öflugum tengslum þeirra við atvinnulífið í landinu.

Umtalsverð efnahagsleg áhrif

Síðla árs 2010 kynntu stjórnvöld skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina, sem afhjúpaði áður óskilgreindar burðarstoðir atvinnulífsins. Þar var sýnt fram á umtalsverðan efnahagslegan ávinning af starfi innan list- og menningargeirans, sem áður hafði verið hulinn. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem lá að baki skýrslunni voru þær að virðisaukaskattskyld velta í hinum skapandi geira hafi verið 189 milljarðar króna árið 2009, ársverk í geiranum það ár hafi verið 9371 og að greinarnar hafi staðið undir 3% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar eða sem nam 24 milljörðum króna. Rétt er að geta þess að aðstandendur rannsóknarinnar töldu nokkra annmarka vera á öflun og greiningu gagna í tengslum við listirnar m.a. í ljósi þess að hluti þeirra er undanþeginn virðisaukaskatti (t.d. aðgöngumiðar í leikhús og myndlist að hluta) auk þess sem í tölfræði hins opinbera hafi skapandi greinar ekki verið aðgreindar með skýrum hætti fram til þessa. Af þessum sökum hafa listamenn og atvinnurekendur í skapandi geiranum þrýst á um breytingar á skráningu tölulegra upplýsinga innan hins opinbera kerfis, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum.

Í kjölfar skýrslunnar um hagrænu áhrifin skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp sem var falið að meta hvernig bæta mætti starfsumhverfi skapandi greina, nýta þau tækifæri sem þar væru til staðar og efla umgjörð greinanna, t.d. rannsóknir, menntun og stefnumótun. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni, Skapandi greinar – Sýn til framtíðar í september 2012. Þar eru lagðar fram margvíslegar tillögur til eflingar greinunum og á grundvelli þeirra starfar nú innan stjórnarráðsins skilgreint teymi sem m.a. skoðar hvernig samræma má umsýslu með greinunum og styrkja umgjörð þeirra.

Skapandi greinar í Norður-Evrópu

Í nágrannalöndum okkar hefur verið unnið athyglisvert starf á síðustu árum til að greina umfang skapandi atvinnugreina og eru Íslendingar þátttakendur í því starfi að ákveðnu marki. Dæmi um það er norræna samstarfið undir hatti KreaNord sem fram fer á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur það að markmiði að efla skapandi atvinnugreinar á Norðurlöndunum, bæta stuðningsumhverfi þeirra og auka alþjóðleg tengsl m.a. með tilliti til fjárfestingarmöguleika. Í Bretlandi hafa stjórnvöld sett kraft í að greina starfsumhverfi geirans með það að markmiði að styrkja það og hefur sú vinna verið nýtt í áætlunum Evrópusambandsins um Skapandi Evrópu. Með þeirri nýjustu, sem gildir til næstu sjö ára, þ.e. 2014 – 2020, er mörkuð stefna um samstarf milli stofnana og einstaklinga í menningar- og listageiranum þvert á landamæri og einnig þvert á greinar innan skapandi geirans. Á sjö ára tímabili mun ESB verja tæplega einnum og hálfum milljarði evra til verkefna í nafni áætlunarinnar, með það að markmiði að auka samstarf, efla nýsköpun og þverfaglega nálgun við uppbyggingu atvinnutækifæra innan skapandi greina .

Hvað eru skapandi greinar?

Af því sem hér hefur verið upp talið má sjá að stjórnmálamenn álfunnar hafa sýnt aukinn skilning á mikilvægi sköpunar og uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi einstaklinga. Þó má segja að markalínur hins skapandi geira séu enn nokkuð óljósar og þær verða það kannski alltaf. En það sem einkennir geirann umfram annað er hin sameiginlega ábyrgð hins opinbera og einkageirans á fjármögnun, uppbyggingu og þróun. Þannig heyra störf þau sem unnin eru innan opinberra menningarstofnana til skapandi greina og öll störf listamanna sem fjármögnuð eru að hluta gegnum verkefnasjóði listgreinanna og launasjóði listamanna. Öll söfn, setur og sýningar, kvikmyndir, sjónvarps- og útvarpsefni, leikhús, óperur og listdanssýningar tilheyra hinum skapandi geira, en það gerir líka framleiðsla tölvuleikja og stór hluti síma- og netþjónustufyrirtækja. Stór hluti nýsköpunarstafs sem fjármagnað er að miklu leyti af hinu opinbera fellur undir skapandi greinar og það gerir líka sá hluti skólakerfisins sem menntar fólk í listum og skapandi greinum, að hluta einkarekinn og að hluta opinber. Þar með erum við komin aftur að þeim punkti sem byrjað var á, þ.e. menntakerfinu.

Að stilla saman stefnur

Niðurstaða þessarar lauslegu skoðunar er nokkurn veginn sú að uppbygging atvinnutækifæra í skapandi greinum sé margslungið ferli, þar sem fjöldi fólks og stofnana þarf að leggja hönd á plóg, með ólíka sérfræðiþekkingu og fjölbreytta reynslu. Einnig þarf að leiða saman hið fastmótaða opinbera kerfi og margslungið eilítið sundurleitt kerfi atvinnulífsins. Aðilar þurfa að koma sér saman um stefnu og skilgreiningar og auka þannig smám saman við þekkinguna á því hvernig afmarka beri störfin innan geirans og með hvaða hætti stoðkerfi greinanna þarf að vera, að sumu leyti sameignlegt en að sumu leyti frábrugðið stoðkerfi annarra atvinnugreina. Með samstilltu átaki ættum við öll, sem hlut eigum að máli, að geta sameinast um markmið aðalnámsskrár framhaldsskóla frá 2011, þar sem lögð er áhersla á að uppfylla beri ólíkar þarfir nemenda og gera þeim kleift að velja sér fjölbreyttar námsleiðir sem veita margs konar undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms.

Höfundur er forseti Bandalags íslenskra listamanna
Millifyrirsagnir eru Austurfréttar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.