Orkumálinn 2024

Ferðamaður í heimabyggð

gudmundur kroyer x14Þann 11. október voru íbúar á Fljótsdalshéraði hvattir til að vera ferðamenn í sinni heimabyggð. Þessi góða hugmynd kom frá starfsfólki Austurfarar og vinnuhópi sem vann að undirbúningi dagsins. Markmiðið með þessum viðburði var að gefa okkur, íbúum Fljótsdalshéraðs, tækifæri til að fara í hlutverk ferðamannsins og kynnast sumu af því fjölmörgu sem er í boði á Héraði. Þetta framtak ber að þakka fyrir. Vonandi getum við þannig saman enn betur kynnt t.d. fyrir okkar gestum þá þjónustu sem hér er í boði.

Á vorin og fram á haust heimsækir mikill og vaxandi fjöldi ferðamanna sveitarfélagið okkar. Jafnframt starfa mjög margir íbúar sveitarfélagsins við ferðamennsku, bæði beint og óbeint. Oft tölum við um að þjónustubæinn Egilsstaði, bæinn á krossgötum Austurlands. Við viljum að bæði ferðamenn og íbúar Austurlands komi til okkar og nýti sér þá þjónustu sem hér er í boði.

En í hvernig umhverfi viljum við bjóða gestunum okkar? Undanfarið hefur verið fjallað um miðbæ Egilsstaða í fjölmiðlum sem óskemmtilegan stað til viðveru. Það er eflaut margt til í því. Umhverfið, ásýndin og aðstæður til að fara með öruggum hætti um athafna- og mannlífssvæði sem miðbær er, skiptir máli. Í mínum huga snýst miðbær þó ekki bara um hús og götur heldur um mannlífið. Fyrir mér á miðbær að vera þannig gerður að hann dregur til sín fólk sem vill staldra við, nýta sér þá þjónustu og afþreyingu sem þar er í boði eða bara hitta mann og annnan. Miðsvæði án mannlífs er ekki eftirsóttur staður.

Árið 2005 samþykkti þáverandi bæjastjórn deiliskipulag fyrir miðbæ Egilsstaða í kjölfar hugmyndasamkeppni. Þar var í fyrsta sinn reynt að gera heildar deiliskipulag um miðsvæði Egilsstaða og hvernig hann gæti þróast í framtíðinni. Markmið skipulagsins var að skapa göngugötu í gegnum miðbæinn en hafa bílastæði og leiða bílaumferð í kringum hann. Á þann hátt átti að skapa ramma utan um þjónustuna og mannlíf miðbæjarins.

Núverndi bæjastjórn vill endurskoða miðbæjarskipulagið á grundvelli núverandi skipulags, og er áætlað að sú vinna muni fara fram á fyrrihluta komandi árs, en í þeirri vinnu verður eflaust leitað í þekkingarbrunn íbúanna.

Uppbygging Miðbæjarins er langtímaverkefni en þó má segja að það sé almennur vilji innan bæjastjórnar að leggja fyrst áherslur á uppbyggingu svæðisins við Miðvang.

Í vor var stofnað Þjónustusamfélagið á Héraði. Það voru ferðaþjónustu-, og verslunaraðilar á Héraði sem tóku höndum saman og voru þau sammála um að stilla betur saman strengi m.a. í markaðssetningu og til að beita sér í því sem skiptir máli í innra starfi atvinnugreinanna og í ytri aðstæðum þeirra. Margar tillögur hafa komið frá félaginu þar sem dregið er fram og bent á það sem betur má fara m.a. á sviði uppbygginar og ásýndar miðbæjarins, um þjónustuna, vörumerki svæðisins, uppbyggingu áfangastaða bæði innan bæjar og utan, um vegvísa og fegrun aðkomuleiða að þéttbýlinu. Þetta er að mínu mati samstarfsverkni sveitarfélagsins, fyrirtækjanna og íbúanna og mjög til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðilar sem hafa það að markmiði sínu að byggja upp og bæta þjónustu staðarins og um leið ásýnd hans. Sveitarfélagið hefur átt gott samstarf við Þjónustusamfélagið frá upphafi og vonandi helst það áfram.

Innkoma ferðamanna til landsins skiptir okkur máli. Því eru siglingar Norrænu til Seyðisfjarðar mikilvægar fyrir ferðaþjónustuna og verslunina hjá okkur, því allir þeir sem ferðast með ferjunni þurfa að fara í gegnum Egilsstaði og Fljótsdalshérað og gera það jafnvel tvisvar sinnum. Það skiptir líka máli að koma millilandaflugi um Egilsstaðaflugvöll í gang sem fyrst því það mun styrkja þennan iðnað enn frekar. Því er mjög ánægjulegt að á síðasta aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, sem haldinn var á Vopnafirði í lok september sl., var samþykkt ályktun um uppbyggingingu og markaðssetningu Eglisstaðarflugvallar sem eitt af forgangsverkefnum í samgöngumálum í fjórðungnum. Með þessari samstöðu sveitarfélaganna er lagður grunnur að enn frekari styrkingu ferðaþjónustunnar og alls mannlífs um leið.

En það er ekki eingöngu ferðamaðurinn sem á að skapa mannlíf í miðbænum okkar og standa undir rekstri og þróun þeirrar mikilvægu þjónustu sem hér er, því íbúar svæðisins eru þeir sem eiga að skapa þann grunn að því mannlífi sem við viljum sjá í miðbænum og á Héraði öllu. Því er mikilvægt að við, sem íbúar, nýtum þá þjónustu sem hér er í boði og tökum þátt í þeim viðburðum sem í boði eru. Ef við nýtum hana ekki þá getum við ekki ætlast til að aðrir geri það.

Ég vil því hvetja okkur til að vera sem oftast ferðamaður í heimabyggð, nýta ykkur þá þjónustu og viðburði sem sífellt er verið að bjóða upp á. Þannig getum við orðið betri kynningarfulltrúar þegar gesti ber að garði og þannig styrkjum við atvinnugreinarnar í okkar heimabyggð.

Höfundur er fulltrúi í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og formaður atvinnu- og menningarnefndar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.