Orkumálinn 2024

Fyrsti blakki hælisleitandinn

djupivogur 280113 0018 webÞann 12. apríl síðastliðin voru 230 ár liðin frá fæðingu Hans Jónatans, bónda í Borgargarði á Djúpavogi og fyrst blakka hælisleitandans og í október í haust kemur „ævisagan" hans á prent hjá Máli og menningu, samin af Gísla Pálssyni mannfræðingi.

Nú þegar aldrei hefur verið fleira ánauðugt fólk í veröldinni, aldrei fleiri á flótta undan ógeðfelldum átökum og Vesturlönd og Asía horfa til þess að geta næst nýtt Afríku sem lálaunasvæði „par excellence" er kannski hollt að hugsa til þess hvernig fólki á Íslandi tekst að taka, eða aðalega taka ekki, á móti hælisleitendum í nafni okkar allra og bera það saman við það sem við vitum um Hans Jónatan og feril hans fyrir rúmum 200 árum.

Það er kannski ekki einber tilviljun að danski blaðamaðurinn Alex Frank Larsen, sem tók saman sjónvarpsþáttinn „Slavernes slægt" fyrir danska útvarpið, DR, hvar nær einn af þrem þáttum var að stærstum hluta um Hans Jónatan, var maðurinn sem vakti athygli á því að verið væri að brjóta lög og trúlega stjórnarskrá á tamílskum innflytjendum. Þau brot leiddu til þess að stjórn Poul Schlüters fór frá og dómsmálaráðherrann Erik Ninn-Hansen fékk skilorðsbundinn fangelsis dóm.

Samantekt um Tamílamálið eins og þetta mannréttindabrot er kallað var unnin hér fyrir þingmannanefnd og dagsett 10. janúar 2010. Innihald þessarar samantektar hefur greinilega ekki haft nein áhrif hér á landi. Samantektin kannski aldrei verið lesin.

Hans Jónatan var fæddur í dönskum þrældómi á St. Croix í Vestur - Indíum, sonur Emilíu Regínu og faðernið hvítt en óvíst. Þegar aðallinn flytur til Danmerkur fer móðir hans með og stuttu seinna kemur hann líka til Hafnar. Hann vex upp á heimilinu, er fermdur, og augljóslega duglegur að læra. Hann tekur þátt í vörnum Kaupmannahafnar 1801 í því sem Danir kalla „Slaget om reden".

Hann fær medalíu og honum er hælt fyrir frammistöðuna, og það sem meira er, það er gerð tilraun til að fá hann leystan úr ánauð. Hann lendir í „Útlendingastofnun". Það má samt leiða að líkum að, að samfélagsmiðlar þeirra tíma loga. Allir sem að málinu koma eru á bandi þrælsins, nema „stofnunin". Lögreglan neitar meira að segja að geyma hann.

Árið 1802 er hann kominn á Djúpavog sem verslunarþjónn faktors frá Ormsstöðum í Breiðdal, Jóns Stefánssonar. Við dauða Jóns verða eigendaskipti á versluninni, þeir félagar Örum og Wulf kaupa af J.L. Busch og Hans Jónatan verður faktor.

Í bókinni „Að breyta fjalli" gerir Djúpvogingurinn Stefán fréttamaður Jónsson grein fyrir orðspori þessa faktors sem heimamenn litu ekki á sem „danskan" og fyrir utan að hafa ratað inn í bók Stefáns og bók Alex Franks Larsens og lungann af einum sjónvarpsþætti hans, kemur hann fyrir í
verðlaunaverki Torkild Hansens um þrælaverslun Dana.

Þetta er sem sagt með víðfrægari Austfirðingum, einn af þeim sem við getum verið stolt af, líkt og Katrín ekkjan eftir hann sem sagði; eins og afkomandinn Kristín Sigfinnsdóttir í Sjólyst á Djúpavogi segir afa sinn Lúðvík Hansson hafa borið: „Ég hafði allan minn heiður af Jónatan".

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.