Athugasemdir vegna umfjöllunar um fjárhagsstöðu Fljótsdalshéraðs.

bjorn ingimarsson 0006 webÍ framhaldi af ágætri greiningu Arion banka á þróun fjárhagsstöðu sveitarfélaga er birtist í markaðspunktum bankans 12. júní sl. hafa fjölmiðlar að undanförnu fjallað um fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga, þ.á.m. Fljótsdalshéraðs.

Með vísan til þeirrar umfjöllunar þykir forsvarsmönum sveitarfélagsins rétt að vekja athygli á eftirfarandi:

Vegna umfangsmikilla framkvæmda á mið-Austurlandi um miðbik síðasta áratugar og örrar íbúaþróunar á Fljótsdalshéraði þessu tengt var ráðist, af hálfu sveitarfélagsins, í uppbyggingu ýmissa grunnþjónustuþátta er þetta kallaði á, s.s. verulegar framkvæmdir við grunnskóla, leikskóla, íþróttamannvirki og hita- og vatnsveitu m.m.

Er framkvæmdum við virkjanir og álver lauk í lok áratugarins drógust útsvarstekjur sveitarfélagsins verulega saman sem m.a. gerði það að verkum að erfitt var að ná saman endum í rekstri þess sem og að standa undir þeim skuldbindingum sem á því hvíldu, en þær höfðu aukist allnokkuð vegna þeirra framkvæmda sem ráðist hafði verið í.

Við þessu var brugðist með aðgerðum í rekstri er miðuðu að því að laga rekstur sveitarfélagsins að þeim efnahag er það býr við. Unnið hefur verið samkvæmt áætlun er lögð var upp haustið 2010 og sem gerði ráð fyrir að jafnvægi næðist í fjármálum sveitarfélagsins á árinu 2013. Það markmið náðist fyrr en áætlun gerði ráð fyrir eða árið 2012. Einnig er unnið samkvæmt 10 ára aðlögunaráætlun er gerir ráð fyrir að skuldaviðmið, sem lög gera ráð fyrir, muni nást á árinu 2019 sem er vel innan settra 10 ára marka.

Í greinargerð Arion banka er réttilega vakin athygli á því að skuldir einstakra skuldsettra sveitarfélaga hafi aukist á milli áranna 2012 og 2013. Þetta á við um Fljótsdalshérað og mun sú einnig verða raunin á milli áranna 2013 og 2014, enda er hér um meðvitaða þróun að ræða sem á sínar eðlilegu skýringar. Skuldaaukning þessi er til komin, að stærstum hluta, vegna byggingar 40 rýma hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum sem verður tekið í notkun í byrjun árs 2015. Meðan á byggingu þess stendur mun framkvæmdin óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á skuldaviðmið sveitarfélagsins en þegar rekstur þess hefur hafist verða áhrifin hins vegar jákvæð. Gert er ráð fyrir þessari framkvæmd í langtímaaðlögunaráætlun sveitarfélagsins.

Lesa má út úr greinargerð Arion banka að vegna aukinnar skuldsetningar þurfi umrædd sveitarfélög að taka til í sínum rekstri. Þetta á ekki við um rekstur Fljótsdalshéraðs en þar hefur þegar verið brugðist við hvað þetta varðar og nægir að vísa til þróunar framlegðarhlutfalls (EBITDA) þessu til stuðnings (2009 = 6,7%, 2013 = 22,3%). Einnig talar yfirlit um sjóðsstreymi í ársreikningum sveitarfélagsins sínu máli en við skoðun ársreiknings síðasta árs má sjá að sveitarfélagið á ekki í erfiðleikum með að standa undir þeim skuldbindingum sem á því hvíla.

Eins og fram kom hér að framan má rekja skuldsetningu sveitarfélagins að stærstum hluta til fjárfestinga er lúta að grunnþjónustu við íbúa þess, s.s. í skólahúsnæði, íþróttamannvirkjum og þjónustu við aldraða. Nú þegar að tekist hefur að laga rekstur sveitarfélagsins að þeim efnahag er það býr við er óhætt að fullyrða að í þessum eignum felist mikil verðmæti til framtíðar þar sem fyrirsjáanlegt er að hægt verður að mæta aukinni íbúafjölgun án stórkostlegra fjárfestinga á komandi árum.

Þrátt fyrir að skuldsetning sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs sé ekki að valda því rekstrarlegum vanda í dag eru forsvarsmenn sveitarfélagsins fyllilega meðvitaðir um mikilvægi þess að lækka sem fyrst vægi skulda í efnahag þess og mun því áfram verða unnið með aðhald í rekstri þess að leiðarljósi.

F.h. Fljótsdalshéraðs

Björn Ingimarsson
bæjarstjóri

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.