Svindl 2.0

gardar valur studio 0015snyrt webÞað hefur nokkuð borið á því undanfarið að óprúttnir aðilar frá „Techincal Department of Windows" séu að hringja í grunlausa Íslendinga og telja þeim trú að tölvur þeirra sendi frá sér óværur.

Ég vill taka fram að slík deild er sennilega ekki til innan Microsoft. Þetta er í raun svindl sem er nokkra ára gamalt, þ.e.a.s. það kemur upp annað slagið. Það bar aðeins á því fyrra og svo aftur nú á sumardögum. Þeir fá fólk til að opna „Event viewer"* í stýrikerfinu og lesa svo upp nöfn á hefðbundnum „Process-um"* sem keyra undir húddinu á stýrikerfinu.

Þeir eru með lista af nöfnum á hefðbundnum ferlum sem Windows stýrikerfi keyrir, lesa þá samviskusamlega upp fyrir grunlausa einstaklinga, sem falla svo á bragðinu og trúa öllu sem þeir segja. Þeir hljóma mjög sannfærandi.

Þeir leggja mikið á sig til að telja manni trú um ágæti sitt. Þeir eru með alls kyns upptökur í gangi á meðan símtalinu stendur eins og t.d. að spila upptökur af fingraslætti á lyklaborð til að láta hljóma sem ráðgjafinn sé að gera eitthvað meðan hinn grunlausi mokar upplýsingum í hann. Einnig er símavers-kliður sem hljómar í gegn um símtalið eins og viðkomandi sé að hringja úr stóru símaveri frá Microsoft. Í flestum tilfellum er sá sem hringir með indverskan hreim.

Eins og ég segi, þetta gæti ekki hljómað betur ef Microsoft sjálfir myndu hringja, sem þeir að sjálfsögðu myndu aldrei nokkurn tímann gera. Ég vill hér með taka fram að Microsoft myndi aldrei nokkurn tímann hringja í einn einasta einstakling vegna vandamála við tölvur, aldrei nokkurn tímann. Ég get hreinlega ekki lagt nógu mikla áherslu á orðið ALDREI.

Ég fékk sjálfur símtal fyrir helgi frá slíkum svindlurum. Reyndar hélt ég í fyrstu að það væri vera að „troll-a"*** mig en ég tók þátt í þessu aðallega því mér fannst eitthvað fyndið við allt þetta leikrit. Hann byrjaði að segja mér að tölvan mín væri að senda frá sér óværur (eitthvað sem engin myndi nokkurn tímann fylgjast með), bað mig síðan að opna Event-viewer-inn og loks bað hann mig að sækja eitthvað forrit til að setja upp í tölvunni (eitthvað sem hann ætlaði svo að rukka mig fyrir).

Eftir hvert atriði hljómuðu brjálæðislegt lyklaborðstaktar eins og hann væri að slá á 70 ára gamla ritvél, sennilega í þeim tilgangi að láta þetta hljóma eins trúverðugt og hægt væri, láta sem hann sé að gera eitthvað tölvu-gúrú-vúdú (allt upptaka). Svo þegar mér fannst hann vera orðin of nærgöngull þá fór ég að reka hann á gat með alls kyns spurningum sem hann gat ekki sjálfur svarað.

Fyrir rest sagði ég við hann að hann væri „full of shit" en þá skellti hann á mig. Mig grunar sterklega að ég muni ekki fá hringingu frá Technical Department of Windows á næstunni.

Ég vill árétta við alla að passa sig á þessum aðilum því þeir eru greinilega að hringja í öll símanúmer sem þeir komast yfir og hringja kalt út. Þeir hljóma sannfærandi en eru með engu að vinna fyrir neinn hjá neinum nema sjálfum sér og sínu eigin svindli. Það stóðu málaferli yfir þessum aðilum í Bandaríkjunum árið 2012 en þeir náðu að svindla á 2.400 manns, og sennilega fleirum en það.

Ég mæli frekar með að fólk leiki sér aðeins að þeim, nú þegar menn vita betur.

--

* Event viewer er forrit í stýrikerfinu sem sýnir allt sem er að gerast í stýrikerfinu „undir húddinu". Það birtir t.a.m. öll þau forrit sem tölvan er að keyra og einnig birtir það villur ef stýrikerfið er að lenda í vandræðum af einhverju tagi o.s.frv.

** Process er í raun bara orð yfir ferli í stýrikerfinu, í einföldu máli forrit sem er í gangi hverju sinni.

*** Troll, eða það að vera svokallað internet-tröll á íslensku, er að vera einstaklingur á netinu sem reyni að þrýsta á alla veiku punkta annarra á internetinu til að framkalla sem sterkust viðbrögð. Tröllin fara oft mikinn á spjallrásum og athugasemdakerfum á netinu og eru oft sérstaklega laginn við að vera með almenn leiðindi, að því er virðist í þeim eina tilgangi að valda leiðindum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.