107 í 701

bjorg magnusdottir 2014Stundum þarf að gera eitthvað róttækt til þess að hrista upp í venjuleikanum. Stundum þarf ábyrgur fjölskyldufaðir í virðulegu póstnúmeri að hrynja í það á karókí-bar. Stundum þarf rúmliggjandi amma að smassa rútínuna sína og smakka hipsteralegt sushi. Stundum þarf strákur, sem er eiginlega orðinn maður, að storka örlögum sínum og stífpressa miltað á sér í djúpsjávarköfun. Og stundum þarf ung kona úr Vesturbæ Reykjavíkur að reima á sig gönguskó og snúa póstnúmeri sínu við. Ég gerði það í mars. Skipti úr 107 Vesturbær í 701 Fljótsdalur. Hvað gerðist? Ég ætla að reyna að útskýra.

Að vera til í meira plássi

Eitt það besta við útálandi finnst mér: Plássið. Það er svo mikið pláss fyrir hvern og einn til þess að vera til. Fleiri fermetrar á haus. Færri hópar af fólki sem hægt er að fela sig innan um. Hver þarf að standa skil á sínu og hið alþekkta laumufarþegavandamál minnkar eftir því sem ekið er austar. Svipað og viðbrögð við Hofsvallagötu-málinu sem eru þau sömu alls staðar fyrir aftan Kirkjubæjarklaustur. Nákvæmlega þessi: Hofsvallagötu-haaa?

Eitt raundæmi um nýtingu plássins er útihlaup á þjóðvegi sem enginn annar virðist vera að nota. Staðan er þessi: Taktfast fótatak á sterkblönduðu malbiki. Hvítu strikin eru traustvekjandi af því þau eru regluleg. Búa til ramma í þessari mynd. Er virkilega enginn annar hérna? Og á því augnabliki er gefinn slaki, já segi það bara ... laus taumur. Það er ekki nokkur leið að syngja ekki með Önnu Hathaway í laginu I Dreamed a Dream úr Les Miserables. Adam var þó ekki lengi í Paradís ... er hann það nokkurn tímann? Í miðjum túr verður mér litið til hægri þar sem mæta mér sex gapandi augu. Tveir hundar og einn bóndi. „Daginn," segi ég og reyni að hljóma faglega. Hefði líklegast frekar átt að spyrja hvort þeir hafi aldrei séð söngleikjafrík á hlaupum þar sem fríkið telur óhætt að öskra með lagi í spilun. Frelsið, sem stundin hafði framan af, er samt yndislegt.

Og ekki er verra ef öllu þessu plássi er hægt að lýsa með orðinu fegurð. Einhver hafði orð á því að Suðurdalur í Fljótsdal sé svo vel til hafður að það sé eins og hann sé á leið til messu. Og er verið að grínast með herlegheitin á Fjarðarheiði, í ískrandi morgunbirtu löngu fyrir 8-fréttir, þar sem málari heimsins hefur farið hamförum í gegnheilum töfrum? Eða þá í Hafnarhólmanum við höfnina í Borgarfirði eystri sem virðist endastöð heimsins hverja einustu stund. Ef dramatískt útsýnið yfir Dyrfjöllin eða í hina áttina bugar ekki þann sem þráir stórkostlegheit, er líklegast eitthvað að. Já, ég hugsa að fegurðin sé hreinlega með lögheimili þarna einhvers staðar.

Að heyra öðruvísi í sér

Í þennan mánuð bjó ég ein í 900 fermetra húsi, Skriðuklaustri í Fljótsdal, þar sem ég kláraði skáldsögu sem kom út í maí. Það lá fyrir að það yrðu viðbrigði fyrir félagslega virka manneskju að dvelja á stað þar sem næsti maður býr í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Ég hef fundið eina góða líkingu til að útskýra hvað gerðist. Ímyndaðu þér tölvu. Það er kveikt á þessari tölvu. Þrjú Word-skjöl eru opin, eitt PowerPoint og µTorrent mallar undir öllu, dælir inn snilld frá útlöndum á fárra mínútna fresti. Að sjálfsögðu er Facebook gapandi og til í allt, líka allar íslensku fréttasíðurnar, Gmailið í viðbragðsstöðu, iTunes, MSN og allt hitt helvítis draslið. Ókei. Þetta er ýkt staða á nútímamanneskju sem lifir og hrærist í heimi áreita, upplýsingaofgnóttar og auglýsinga. Lifir tíma þar sem snjallsími er hlekkjaður við lófann með frelsis- og þægindarökum. Það er svo sjúklega þægilegt að geta alltaf séð póstinn minn! Eða Ég er sko fréttafíkill, verð að vita hvað er að gerast á hverri sekúndu af því ég get það. Einmitt. Hljómar ógeðslega vel. Sérstaklega til lengdar þegar augun eru við það að fá á sig kassalaga blæ og þú, kæra manneskja, ert orðin svo óvön því að halda uppi samræðum við samferðafólk þitt að þú talar miklu frekar við það í gegnum spjaldtölvuna þína.

Þegar ég fór austur ýtti ég á quit í Wordinu í mér og hinu dótinu líka. Þá gerðist eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður. Ég reyndi á kaótískan hátt að útskýra það fyrir föður mínum sem spurði á móti: Björg, ertu farin að heyra öðruvísi í sjálfri þér? Já! var svarið. Og skilaboðin voru kærkomin.

Að fatta eitt eða tvennt

Verandi alin upp á höfuðborgarsvæðinu hélt ég einhvern veginn að hina miklu og fjarlægu landsbyggð byggði öðruvísi fólk en ég er vön að umgangast. Já, já, ég veit hvað þú ert að hugsa en bið þig að dæma ekki alveg strax. Svona fólk sem hefði helst þau markmið, og fyrirgefðu hreinskilnina, að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni, landbúnaðarkerfinu í núverandi mynd ... og auðvitað agnúast út í svona hipstera-latté-wannabe af höfuðborgarsvæðinu. Mikið var hressandi að fá þann sleggjudómsbjálka hressilega í höfuðið svo lá við roti.

Rökstuðningur: Á íbúafundi á Breiðdalsvík, þar sem mótun framtíðarstefnu byggðarlagsins var rædd, komst ég að merkilegum hlut sem ég held að sé sannleikur. Fólk er alls staðar eins – með augljósum undantekningum þó. Það eru allir að reyna að gera vel fyrir nærumhverfi sitt og samfélag. Það eru allir dálítið óöruggir, vel meinandi og mögulega smá hræddir um að kannski verði ekki alltaf allt fínt. Og það er eitthvað mjög fallegt við það.

Það sem ég vil bæta við er þetta: Höfuðborgarbúar ættu alvarlega að huga að því að fara að step-up-their-game í að leyfa sér að vera skemmtilegri týpur þegar kemur að karakteragallerýi landsins. Þeir sem hafa fengið kynningu á piparsveinunum í Fljótsdal vita hvað ég er að tala um.

Og síðast þetta ...

Ég held að það séu mikil tækifæri fólgin í því að hvetja Íslendinga til vistaskipta við samlanda sína. Prófa að vera til annars staðar, í allt öðru póstnúmeri á landinu í nokkrar vikur eða mánuði ef þess er nokkur kostur. Ég ímynda mér að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sé maður í að agítera fyrir þeirri pælingu, enda sjálfur landsbyggðarmaður mikill með lögheimili í Jökulsárhlíð eins og lesendur Austurfréttar vita. Sveiflast þannig eins og sterkur pendúll, þjóðartakturinn sem hann sjálfur stýrir, á milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Dvölin kenndi mér í það minnsta eitt og annað sem er þegar orðið dýrmætt á leið minni í gegnum lífið. Takk, íbúar á Austurlandi. Takk, þið sem keyrðuð mig tugi kílómetra, gáfuð mér að borða þegar ég var örþreytt í leit að veitingastað, sögðuð mér óteljandi sögur af svæðinu og buðuð mér endalaust upp á meira kaffi. Þó ég fari seint með öllu úr 107 hefur póstnúmerið 701 færst talsvert nær. Aðallega í anda samt.

Höfundur er fréttamaður á RÚV og rithöfundur og sendi í sumar frá sér bókina Þessi týpa.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.