Heill heilsu: Ertu með verki í baki?

sverrir rafn reynissonTalið er að fimmtungur fullorðinna Íslendinga þjáist af langvinnum verkjum. Þar af er algengi bakverkja rúm 16%. Verkir í mjóbaki eru önnur algengasta ástæða örorku hjá einstaklingum 45 ára og eldri í Evrópu.

Það er því nokkuð ljóst að mörgum líður ekki vel í bakinu. Ég hef starfað sem sjúkraþjálfari frá árinu 1996 og stór hluti þess fólks sem kemur til meðferðar hjá mér glímir við verki í baki.

Að mínu mati eru tvær meginorsakir fyrir þessum vandamálum. Annars vegar hversu mikið við sitjum og hins vegar að við beitum okkur ekki rétt. Rétt líkamsbeiting er bráðnauðsynleg til að viðhalda líkamlegri færni og sannarlega eitthvað sem við ættum öll að læra og tileinka okkur. Rétt líkamsbeiting getur komið í veg fyrir að verkir ágerist og hjálpað okkur að ná bata aftur.

Ég segi stundum að í þróun mannsinns hafi ekki verið ætlast til að við sætum í stól og hvað þá að sitja í honum allan liðlangan daginn. Sumir halda því raunar fram að hryggur mannsins hafi ekki verið tilbúinn fyrir að mannkynið stæði á fætur. Ég hef af því tilefni stundum velt fyrir mér hvort apar hafi bakverki.

Ég hvet alla þá sem þurfa að sitja stóran hluta dagsins til að skoða vel hvort ekki sé hægt að breyta eitthvað til. Núorðið fást rafdrifin hækkanleg borð sem gera kleift að vinna standandi við tölvu hluta dagsins og breyta þannig um stöðu reglulega.

Í stað sleitulausrar fundarsetu mætti til dæmis standa hluta af fundartímanum. Rannsóknir hafa sýnt að þannig fundir eru bæði skilvirkari og styttri og því fullt tilefni til að skoða málið. Við getum í öllu falli stytt þann tíma sem við sitjum ef við gaumgæfum málið.

En aftur að líkamsbeitingunni. Gott ráð til að hlífa bakinu er að hætta algjörlega að lyfta hlutum með mjóbakið í beygju fram. Þegar við lyftum einhverju ættum við að hafa bakið beint og beygja okkur í hnjám og mjöðmum. Þetta vita allir en mjög fáir fara eftir því!

Þeir sem hafa fengið svokallað þursabit eða skessuskot vita að í því ástandi beygja menn sig „rétt." Um leið og verkirnir lagast förum við svo aftur að beygja okkur vitlaust.

„Hugsum áður en við lyftum" er speki sem við ættum öll að reyna að fara eftir.
Ég hvet alla sem hafa bakverki til að skoða daglegar athafnir sínar vandlega og athuga hvort ekki má breyta vinnubrögðum til að létta á bakinu.

Höfundur er sjúkraþjálfari hjá HSA

HEILL HEILSU
- úr þekkingarbrunni heilbrigðisþjónustu -

Innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands starfar afar hæft fagfólk sem býr yfir mikilli þekkingu. Að áeggjan stofnunarinnar birtist nú greinaflokkur á vef Austurfréttar um heilbrigðistengd málefni. Eru höfundar greinanna starfandi á ýmsum sviðum innan HSA og hafa brugðist vel við þeirri málaleitan að miðla af þekkingu sinni út fyrir stofnunina. Höfundar skrifa þó í eigin nafni en ekki á ábyrgð stofnunarinnar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.