Orkumálinn 2024

Opið bréf til þingmanna og ráðherra um stöðu Norrænu

norronaHáttvirtur forsætisráðherra, ráðherrar og þingmenn.

Vegna umræðu á háttvirtu Alþingi föstudaginn 4 apríl, um vanda nokkurra sjávarbyggða viljum við undirrituð benda ykkur háttvirtum ráðherrum og þingmönnum á að ekki síður alvarlegt ástand er við það að skapast hér á Seyðisfirði ef ekki verður gripið inn í af hálfu stjórnvalda.

Samningaviðræður eru nú í gangi á milli Fjarðabyggðahafna og Smyril Line um að flytja viðkomuhöfn ferjunnar Norrænu frá Seyðisfirði til Eskifjarðar sem kemur til með að hafa gríðarlega neikvæð áhrif á alla starfsemi fyrirtækja hér á staðnum og á rekstur sveitarfélagsins í heild sinni.

Fjöldi beinna og óbeinna starfa í kringum Norrænu munu tapast, eflaust í kringum 40-50 störf þegar litið er til lengri tíma. Þar er það ekki einkafyrirtæki sem er úrslitavaldur heldur nágranna sveitafélag okkar sem við höfum stutt dyggilega við bakið á við uppbyggingu þess, samanber grein Þorvaldar Jóhanssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra SSA og Magnúsar Guðmundsonar fyrrverandi sveitarstjórnarmanns á Seyðisfirði og fleiri sem hafa tjáð sig um þetta mál.

Nú er það svo að sveitarfélögin hér á Austurlandi, sem öll eru innan SSA, hafa í gegnum árin fjallað um framtíðar uppbyggingu svæðisins með tilliti til uppbyggingar atvinnulífs og samgöngumála, Ótal málefni tengd uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra hafa verið afgreidd innan SSA með fullum stuðningi allra sveitarfélaga og má þar til að mynda nefna uppbyggingu álvers Alcoa í Fjarðabyggð.

Ein samþykkt SSA hefur verið eins og rauður þráður í aðalfundagerðum frá 2008-2013, það er samþykkt SSA er varðar Samgöngu-öxlana þrjá á Austurlandi (Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði, Eigilsstaðarflugvöllur og ferjuhöfn á Seyðisfirði) Þingskjal nr. 14. sem var sent til Samgöngunefndar Alþingis dagsett 13. maí 2010.

Nú er ljóst að Fjarðabyggð hefur með samþykkt sinni frá 25. mars 2014 ákveðið að hunsa fyrrnefndar samþykktir SSA og þar með setja allt samstarf sveitafélaga á Austurlandi í uppnám með ófyrirsjáanlegum afleiðingum hvað varðar samstarf og samvinnu.

Fjarðabyggð hefði auðveldlega getað hafnað umleitan Smyril Line og vísað í þær samþykktir sem liggja fyrir hjá SSA þar sem þeir hafa samþykkt ásamt öðrum sveitafélögum hér á Austurlandi að ferjuhöfn verði á Seyðisfirði. En útlit er fyrir að þeir ætli í krafti stærðar sinnar í dag að ná ferjunni yfir til Fjarðabyggðar til frambúðar.

Það er ljóst að uppbygging nýrrar ferjuhafnar er gríðarlega dýr framkvæmd sem verður væntanlega fjármögnuð út úr rekstri Fjarðabyggðahafna þar sem ríkið kemur ekki að uppbyggingu annarrar ferjuhafnar á Austurlandi samkvæmt yfirlýsingu sem send hefur verið til þeirra.

Við teljum einnig rétt að geta þess að vandi P/F Smyril Line mun ekki leysast við þessar aðgerðir, vandamálið er margþættara en svo. Nefna má vanbúna fólksflutningabíla frá mið-Evrópu og bílstjóra sem eru óreyndir íslenskum vetraraðstæðum. Einnig er rétt að benda á þá staðreynd að yfir veturinn koma einnig upp vandamál varðandi færð á Hólmahálsinum, Fagradal og á Möðrudalsöræfum. Af framangreindu er ljóst að flutningur ferjunnar mun ekki leysa vanda P/F Smyril Line varðandi vetrarakstur á Íslandi.

Nú nýverið var ríkisstyrkur vegna uppbyggingar á Bakka við Húsavík samþykktur af eftirlitsstofnun EFTA. Þessi samþykkt var skilyrt því að framkvæmdin raskaði ekki samkeppnisumhverfi annarra fyrirtækja á svæðinu. Samskonar samþykkt hefur eflaust verið forsenda samþykktar eftirlitsstofnunar EFTA fyrir ríkisstyrk við uppbyggingu Mjóeyrarhafnar. Ef ný ferjuhöfn á Eskifirði verður byggð fyrir tekjur Fjarðabyggðahafna þá mun sú uppbygging raska samkeppnistöðu Seyðisfjarðarhafnar sem hefur engar stóriðjutekjur til að niðurgreiða aðra starfsemi líkt og Fjarðabyggð virðist ætla að gera.

Seyðisfjarðarkaupstaður er eitt af allmörgum sveitafélögum sem eru yfir 150% skuldamörkunum sem ríkisvaldið hefur sett sem hámark fyrir skuldsetningu sveitarfélaga. Sveitarfélagið hefur á síðastliðnum tveimur/þremur árum gengið mjög langt í hagræðingu og hækkun allra gjalda til að vinna á þessum vanda sem hefur skapast að stórum hluta vegna íbúafækkunar og minni tekna vegna samdráttar í sjávarútvegi hér. Því er það nokkuð ljóst að ef af þessum flutningi Norrænu verður þá dragast beinar og óbeinar tekjur sveitarfélagsins gríðarlega saman sem þýðir einfaldlega það að sveitarfélagið verðu komið í fang ríkisins með það sama.

Við vonum að þið takið þetta mál upp á þessum grunni og fjallið ýtarlega um ábyrgð og afleiðinga gjörða Fjarðabyggðar fyrir önnur sveitarfélög hér á Austurlandi þar sem þetta er ekki eina málið sem íbúar Austurlands eru verulega óánægðir með framgöngu Fjarðabyggðar í. Þar má nefna barátu Fjarðabyggðar gegn heilsársvegi yfir Öxi sem var mikið hagsmunamál Djúpavogsbúa, og undirboð Fjarðabyggðahafna vegna komu skemmtiferðaskipa til Eskifjarðar á kostnað Seyðisfjarðar og Djúpavogs. Ætla má að þar sé verið að nota tekjur af álvershöfn til að undirbjóða okkur.

Með fyrirfram þökk og von um skjót og góð viðbrögð.

Undirritaðir íbúar Seyðisfirði.

Sigfinnur Mikaelsson
Jón Halldór Guðmundsson
Lárus Bjarnason
Árni Elísson
Cecil Haraldsson
Guðrún Katrín Árnadóttir
Ómar Bogason
Guðjón Harðarson
Aðalheiður Borgþórsdóttir
Páll Guðjónsson
Dýri Jónsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.