Viðar Jónsson: Auðvitað er KR miklu betra lið en Leiknir Fáskrúðsfirði

Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis Fáskrúðsfirði, viðurkenndi að mikill munur væri á liði hans úr fyrstu deildinni og úrvalsdeildarliði KR eftir 1-4 sigur hins síðarnefnda í leik liðanna í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld. Hann hefði hins vegar viljað minni mun.


„Þessi úrslit sýna muninn á liðunum, KR liðið hefur ákveðin gæði sem skipta sköpum í svona leik. Ég held samt að hann hefði getað endað betur ef við hefðum verið aðeins klókari,“ sagði Viðar eftir leikinn.

KR-ingar skoruðu strax á elleftu mínútu og það setti leikplan Leiknis úr skorðum. Markið kom eftir góða sókn upp hægri kantinn en vængmenn KR fóru oft illa með vörn Leiknis.

„Það kom okkur ekki á óvart að þeir færu þessa leið og við vorum búnir að skipuleggja að vængmaðurinn okkar fylgdi vængbakverðinum þeirra. Það var hins vegar ekki nógu vel gert og því fór sem fór.

Við lögðum upp með að verjast vel. Ég stillti upp í 4-4-2, ég hef séð lið gera það gegn KR og ganga ágætlega. Við þurftum að loka vel og hafa lítið bil á milli línanna.

Við vorum virkilega góðir þegar við vörðumst í góðri grunnstöðu en ekki góðir þegar við gerðum annað en verjast skipulega, þá vorum viðað fara út úr stöðu og það nýttu KR-ingar sér. Við réttum þeim 2-3 mörk og slíkar gjafir höfum við ekki efni á að gefa KR.

Síðan voru ákveðin svæði sem ég ætlaði að sækja hratt í, það var galopið á bakvið vængbakverðina þeirra þegar þeir voru komnir hátt upp á völlinn. Við fengum 4-5 sénsa til þess í fyrri hálfleik en vorum ekki nógu klókir til að nýta það. Ég var svekktur með það í hálfleik.“

Það gladdi hins vegar Fáskrúðsfirðinga þegar Jesus Suarez skoraði tveimur mínútum fyrir leikslok. „Mörk breyta leikjum og það er alltaf gaman að skora.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar