Vann Opna breska meistaramótið í frisbígolfi: Öll sumarlaunin fara í íþróttina

Mikael Máni Freysson, Ungmennafélaginu Þristi, fór með sigur af hólmi í sínum flokki á Opna breska meistaramótinu í frisbígolfi fyrir tveimur vikum. Félagi hans, Snorri Guðröðarson, varð í fjórða sæti í sama flokki. Félagarnir hafa fært miklar fórnir fyrir íþróttina enda eiga þeir sér stóra drauma.


Á mótinu voru leiknir þrír átján holu hringir á 18 holu velli og fengu þeir fimm bestu í hverjum flokki að spila níu holur í viðbót.

Mikael Máni fór í gegnum mótið á 221 höggi eða 24 höggum yfir pari vallarins og 5 höggum á undan næsta manni í flokknum. Snorri varð þar í fjórða sæti á 242 höggum. Þeir kepptu í „intermediate-flokki“ sem var næststerkasti flokkur áhugamanna á mótinu.

„Ég var jafn þeim sem var í öðru sæti eftir fyrstu tvo hringina. Ég hrökk í gang á þriðja hringnum, komst þá 8 höggum á undan honum og náði að halda því,“ segir Máni um mótið í samtali við Austurgluggann í síðustu viku.

Kúnst að velja diskana

Máni og Snorri eru báðir úr Þristi, hafa verið í námi í Menntaskólanum á Egilsstöðum en búið og unnið á Akureyri á sumrin. Þeir hafa stundað íþróttina í rúmt ár og náð ágætum árangri, Máni varð annar á Íslandsmótinu í fyrra. Hann áætlar að þeir félagarnir eyði um 20 tímum á viku í frisbígolf.

„Við spilum mikið á völlum en besta leiðin til að verða góður er að finna sér autt svæði og kasta öllum diskunum og læra hvernig þeir fljúga. Svo þarf maður að æfa sig að pútta,“ segir Máni og bætir við að diskarnir breyti um hegðun eftir því sem þeir eldist og vilji þá frekar sveigja til hægri.

Á Egilsstöðum hafa þeir mikið notað Selskóginn til æfinga en eins hafa þeir hannað eigin útgáfu af vellinum í Tjarnargarðinum með lengri brautum.

Vegna mismunandi hegðunar diskanna þarf að hafa ólíkar gerðir með á stórmót. „Fyrir mót skoða ég kort af vellinum þannig ég sjái um það bil hvaða diskum ég þurfi að kasta. Ég tek með mér einn varadisk af hverri gerð ef aðaldiskurinn týnist eða brotnar og eins hef ég með mér sérstaka diska ef það er vindur.“

Diskasafnið og ferðalögin eru dæmi um hve mikið Máni og Snorri leggja í íþróttina. Þeir bókuðu flug og hótel í Englandsferðinni sjálfir og greiddu hana úr eigin vasa. „Það fara öll sumarlaunin í ferðir og diska.“

Stefna til Bandaríkjanna

Þar gistu þeir á hóteli en aðstæðurnar hafa stundum verið frumstæðari. „Við gistum í tjaldi á völlunum þegar við förum suður. Þegar við fórum á Íslandsmótið í fyrra gleymdum við stöngunum þannig við gátum ekki reist tjaldið. Fyrri nóttina sváfum við undir berum himni en þá seinni bundum við tjaldið upp við tré þannig við gátum verið inni í því.“

Næst á dagskrá er Íslandsmótið í Reykjavík sem er um helgina. Þeir hafa sett stefnuna á landsliðið sem veitir aðgang að mótum erlendis sem ekki eru öllum opin en í liðið er valið eftir árangri á mótum hér heima.

„Góður árangur á þessum mótum opna tækifæri á að komast á stórmót í Bandaríkjunum. Þar er stærsti frisbígolfheimurinn og við stefnum reyndar þangað á mót í haust ásamt fleiri Íslendingum.“

Máni og Snorri hafa það gott í Quarry Park þar sem breska meistaramótið var leikið. Mynd: Árni Leósson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.