Orkumálinn 2024

„Þetta mál þarf að líta alvarlegum augum“

„Þessum æfingum er almennt ábótavant og staðan er hvorki betri eða verri á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Eva Hafdís Ásgrímsdóttir, íþróttafræðingur og fyrrverandi leikmaður meistaraflokks kvenna Fjarðabyggðar í knattspyrnu, en hún skrifaði grein á Fótbolti.net um tíð krossbandaslit kynsystra sinna.



„Er þetta ekki komið nóg – er sú spurning sem Eva Hafdís byrjar grein sína á og vitnar þar til þeirrar staðreyndar að þrír leikmenn Pepsídeildarliðs Vals, sem og einn leikmaður Þórs/KA, séu búnar að slíta krossband á síðastliðnum þremur mánuðum.“

Eva Hafdís er 26 ára íþróttafræðingur og byrjaði ung að spila knattspyrnu, fyrst með Þór/KA á Akureyri, svo Aftureldingu og síðast með Fjarðabyggð. Sjálf hefur hún tvisvar sinnum slitið krossbönd í fæti, fyrst 15 ára og svo 17 ára. Hún hefur nú lagt skóna á hilluna sökum tíðra meiðsla í kjölfar slitanna.

„Ég vissi lítið sem ekkert um meiðslin á þeim tíma eða hversu alvarleg þau eru og fór að hafa áhuga á þeim og algengi þeirra á Íslandi eftir að ég sleit í seinna skiptið,“ segir Eva Hafdís í grein sinni, en hún skrifaði BS-ritgerð sína í Íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík um krossbandaslit knattspyrnukvenna á Íslandi.

Við vinnslu ritgerðarinnar hafði Eva Hafdís samband við fyrirliða og þjálfara liða í bæði Pepsí- og 1. deild kvenna, þar sem hún óskaði eftir þátttöku þeirra leikmanna sem höfðu slitið krossband/bönd og sendi í kjölfarið út spurningalista. Alls voru 55 leikmenn á aldrinum 16-34 sem tóku þátt og svöruðu spurningunum. Þar kom í ljós að helstu orsök krossbandaslita knattspyrnuvenna hér á Íslandi eru snúningur á föstum fæti og getur það meðal annars orsakast vegna skóbúnaðar. Á gervigrasi hafa langir „blaðtakkar“ meiri tilhneigingu til að festast í grasinu en hringtakkar en um 54% þátttakenda slitu krossbönd á gervigrasi, sem og hún sjálf í bæði skiptin.



Lendingartæknin mikilvæg

„Það sem stakk mig hvað mest við gerð rannsóknarinnar á sínum tíma var það hversu mis mikil áhersla er lögð á sérstakar fyrirbyggjandi æfingar hjá liðum á Íslandi. Í flestum rannsóknum og heimildum sem ég fann var talað um að konur væru viðkvæmastar fyrir meiðslunum í kringum kynþroskaskeiðið og hversu mikilvægt væri að byrja snemma með fyrirbyggjandi æfingar líkt og styrktar- og stöðugleikaæfingar sem og lendingartækniæfingar. Rúmlega helmingur þeirra sem svöruðu spurningalistanum sögðu að lítil eða frekar lítil áhersla væri lögð á fyrirbyggandi styrktarþjálfun hjá sínu félagi. Samkvæmt rannsóknum er einn mikilvægasti þátturinn í fyrirbyggingu krossbandaslita það að kenna rétta lendingartækni og kom það fram í svörunum að um helmingur liðanna lagði litla eða enga áherslu á slíkar æfingar,“ sagði Eva Hafdís í grein sinni.



Algengt að stepur spili upp fyrir sig

„Þetta mál þarf að líta alvarlegum augum,“ sagði Eva Hafdís í samtali við Austurfrétt. „Ég vil að réttar æfingar hefjist sem allra fyrst á fótboltaferlinum, en stelpur eru viðkvæmastar fyrir meiðslunum í kringum kynþroskaskeiðið og því mikilvægt að byrja strax í 5.flokki, en það eru stelpur sem fæddar eru árin 2005 og 2006.

En hvaða æfingar er Eva Hafdís að tala um? „Það sem ég tel mikilvægast í þessu eru æfingar sem gerðar eru með áherslu á jafnvægi fyrir fót, hné og mjaðmir til þess að fyrirbyggja meiðslin. Æfingar sem hægt er að tvinna inn í upphitun og einnig hægt að framkvæma eftir æfingar eða utan þeirra. Einnig er nauðsynlegt að kenna réttar lendingar, þá meina ég leggja áherslu á mjúkar lendingar og passa að hnéð leiti ekki inn á við. Með því er hægt að styrkja vöðvana í kringum hnéð til þess að virkja sig með sem mestum krafti og verður það til þess að liðböndin taka á sig minna álag við lendingu.

Það er mjög algengt að stelpur spili upp fyrir sig mjög ungar og því mikið álag á þeim og afar stórt stökk að fara úr yngri flokkum upp í meistaraflokk og þarf því að fara að leggja meiri áherslu á þessar æfingar.“

Hér má lesa greinina í heild sinni. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.