„Þetta er fjandans Iron man“

„Við lýstum sérstaklega aðkomu íþrótta- og ungmennahreyfingarinnar og þótti þeim einkar áhugavert að heyra hvernig Unglingalandsmót UMFÍ var í upphafi sett til höfuðs helstu drykkjuhátíðarhelgi á Íslandi þar sem mikil og hörð unglingadrykkja hafði tíðkast lengi,“ segir Hildur Bergsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri UÍA, en forsvarsmenn félagsins sátu fyrir svörum um árangur Íslendinga í forvarnarmálum á fundi í Írlandi fyrir stuttu.


Fulltrúar UÍA dvöldu nýverið hjá YMCA-samtökunum í Cork & Cobh á suðurströnd Írlands til að kanna aðstæður fyrir ungmennaskipti í byrjun sumars. Sem fyrr segir sátu þeir meðal annars fyrir svörum um árangur Íslendinga í forvarnarmálum en árangur hérlendis í þeim málum hefur vakið mikla athygli í Írlandi.

YMCA eru samtök á borð við KFUM og KFUK. Forvarnarfundinn sátu Ivan McMahon, aðalritari YMCA á Írlandi, James Bilson, yfirmaður skrifstofunnar í Cobh og Gemma Turner sem stýrir verkefnum í Cobh sem snúa að áfengis- og fíkniefnanotkun. Fyrir hönd UÍA voru þau Gunnar Gunnarsson formaður og Hildur Bergdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

„Er þetta satt?“

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að skipulagt æskulýðsstarf dregur úr unglingadrykkju og hefur notkun bæði áfengis og tóbaks í efstu bekkjum grunnskóla hríðfallið síðustu 20 ár hérlendis.

„Þeirra fyrsta spurning til okkar var í rauninni: „Er þetta satt?!“ – og gátum við staðfest að Íslendingar hefðu tekist á við unglingadrykkju og annan fíknivanda unglinga með markvissum hætti á síðustu áratugum og hefðu náð umtalsverðum árangri í forvarnarmálum,“ segir Hildur.

Hildur segir forsvarsmenn írskra æskulýðssamtaka mjög hugsi yfir þeirri sterku áfengismenningu sem ríkir á Írlandi og setji eðlilega mark sitt á líf barna og unglinga og ákvarðanir þeirra varðandi eigin áfengis- og vímuefnanotkun, en nýjar tölur sýna að áfengissýki er hvergi víðtækari í Evrópu en á Írlandi.


YMCA hefur leitað eftir samstarfi við UÍA

Hildur segir að YMCA hafi nú leitað eftir samstarfi við UÍA. „Hjá YMCA snúa aðgerðirnar að því að bregðast við þegar unglingarnir eru komnir í vanda en íslenska módelið miðar að forvörnum. Við lýstum fyrir þeim hvernig yfirvöld, íþrótta- og ungmennahreyfingin og fleiri hefðu tekið höndum saman og lagt áherslu á uppbyggingu tómstundastarfs fyrir börn og unglinga sem forvörn í þessum efnum. Að á Íslandi hefði tekist að draga fjölmarga aðila að samstarfinu, vandamálið var viðurkennt og tekist á við það. Einnig áherslu okkar á samveru fjölskyldunnar og ábyrgð foreldra. Að allt þetta hefði skilað okkur þar sem við erum í dag.“

„Þetta er fjandans Iron Man“

Hildur segir að Írunum hafi í senn þótt magnað og merkilegt að heyra með hversu markvissum og árangursríkum hætti skipulagt íþrótta- og tómstundastarf væri nýtt í forvarnarskyni og hvernig ríki, sveitarfélög og frjáls félagasamtök á Íslandi hefðu byggt upp íþróttaaðstöðu hérlendis.

„Það er ljóst að það er við ramman reip að draga þegar kemur að því að breyta menningu og áfengishegðun ungs fólks á Írlandi, enda á áfengisneysla mjög djúpar og víðtækar rætur í írskri þjóðarsál og samfélagsmenningu og teygir anga sína einnig inn í íþróttaiðkun á Írlandi.

Vonandi hefur þessi fundur gefið þeim einhverjar hugmyndir og vonir. Því við sögðum þeim líka að Íslendingar hefðu nú ekki verið barnanna bestir þegar kom að áfengisnotkun unglinga og fyrir nokkrum áratugum hafi staðan hérna verið slæm en með samstilltu átaki hafi tekist að snúa henni við. Þetta er langtímaverkefni sem þarfnast aðkomu allra aðila. Eins og ég orðaði það við þá, þá er þetta ekki spretthlaup, þetta er ekki einu sinni maraþon, þetta er fjandans Iron Man!“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar