Orkumálinn 2024

Stefnir á að ná Vilhjálmi

Daði Þór Jóhannsson úr Leikni Fáskrúðsfirði varð nýverið Íslandsmeistari í þrístökki pilta 18-19 ára á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum 15-22 ára innanhúss. Daði stefnir á að ná árangri hins sigursæla Vilhjálms Einarssonar í áföngum.

Daði Þór sigraði þrístökkskeppnina með stökki upp á 12,48 metra. Í fyrra fór hann með sigur af hólmi í hástökki en hann hefur sett þá grein í hvíld vegna hnémeiðsla.

Þrístökkið hefur hins vegar alltaf verið hans aðalgrein og hana getur hann stundað þrátt fyrir meiðslin sem hann tekst á við með styrktaræfingum. „Þrístökkið hefur alltaf verið mín aðalgrein. Ég hef reynt að æfa það af fullum krafti og taka aðrar greinar með til að verða ekki of sérhæfður því það er ekki alltaf keppt í þrístökki.“

Daði Þór segist fyrst hafa farið að æfa stökkgreinarnar ellefu ára gamall. „Mér fannst hástökkið skemmtilegra en eitt sumarið minnkaði áhuginn á því en áhuginn á þrístökkinu jókst. Síðan þá hef ég ætlað mér að ná metum Vilhjálms Einarssonar og ætla mér það enn.“

Vilhjálmur, sem þekktastur er fyrir að vinna til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, stökk lengst 14,4 metra meðan hann keppti fyrir UÍA. Silfurstökk hans var 15,26 en Íslandsmetið hans frá 1960 er 16,70 og stendur enn.

„Ég á 12,70, með æfingum ætti ég að ná UÍA metinu hans á 2-3 árum. Hin metin hans koma síðar. Vilhjálmur var að stökkva 14 metra á mínum aldri þannig ég þarf að herða mig,“ segir Daði sem verður 18 ára í sumar.

Innanhússtímabili frjálsíþróttafólks er nú að ljúka og framundan eru styrktar- og þolæfingar áður en utanhússtímabilið hefst. Daði Þór hefur sett stefnuna á að stökkva 13,50 metra í sumar.

Á Meistaramótinu vann hann einnig til bronsverðlauna í langstökki með stökki upp á 5,74 metra.

Helga Jóna Svansdóttir úr Hetti var hinn keppandi UÍA á mótinu. Hún vann til silfurverðlauna í 60 metra grindahlaupi stúlkna 20-22 ára á tímanum 9,36 og þrístökki með að stökkva 10,62 metra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.