Sigurður Donys orðinn markahæstur hjá Einherja: Markmið síðan ég byrjaði að skora

Sigurður Donys Sigurðsson varð í gær markahæsti leikmaðurinn í sögu Einherja þegar hann skoraði 75 mark sitt fyrir félagið í 2-1 tapi fyrir Víði í Garði. Hann er glaður með hvernig sumarið hefur farið af stað hjá Einherja.


Markið í gær kom á 80. mínútu leikins. Eftir klafs í teignum bar boltinn til Sigurðar Donys sem setti boltann hægra megin fram hjá aðvífandi varnarmanni en hljóp sjálfur vinstra megin áður en hann renndi boltanum undir markvörðinn.

Einn Einherjamanna renndi sér með boltanum inn í markið en ýtti honum yfir línuna. Einherjamenn voru í augnablik óvissir hvort markið stæði en aðstoðardómarinn sá boltann inni. „Þetta var ekki fallegasta markið sem ég hef skorað á ferlinum en mark er mark.“

Sigurður Donys kom fyrst við sögu meistaraflokks Einherja sumarið 2003. Síðan hefur hann skorað 75 mörk í 103 leikjum í deild og bikar. „Ég er nokkuð sáttur við þetta, miðað við meiðsli og að hafa verið í burtu um hríð,“ segir hann.

Þar með sló hann met Hallgríms Guðmundssonar sem skoraði 74 mörk á gullaldarárum Vopnafjarðarliðsins á tíunda áratugnum. Sigurður Donys segist hafa sett stefnuna á markametið þegar hann fór að spila með yngri flokkum Einherja. „Það var alltaf markmiðið að verða markahæstur í sögu Einherja eftir að maður fór að skora.“

Sigurður Donys vissi að markametið væri í nánd síðustu vikur. Hann skoraði þegar Einherji vann Þrótt Vogum á heimavelli fyrir viku og segist gjarnan hafa viljað bæta markametið á heimavelli.

Það var ekki víst að hann spilaði í Garðinum þar sem hann snéri sig tveimur dögum fyrir leik. Hann hafði aðeins verið inni á vellinum í fimm mínútur þegar hann skoraði.

Markametið var samt ekki það sem hann hugsaði um þegar boltinn var inni. „Við vorum undir og við vildum vinna leikinn. Ég hefði frekar viljað vinna en slá metið þannig ég fagnaði áfanganum ekki eins og ég hefði viljað strax eftir leikinn en strákarnar klöppuðu fyrir mér inni í klefa.“

Einherji hefur farið vel af stað í þriðju deildinni en tapið í gær kom í kjölfar þriggja sigra í fyrstu leikjunum. Víðir tyllti sér í staðinn í toppsætið. „Við höfum lent í meiðslum og megum ekki við þeim með þunnan hóp. Mórallinn í hópnum er góður og það sem við höfum viljað hefur gengið upp.“

Markahrókurinn ætlar sér að teygja markametið enn hærra. „Ferillinn styttist alltaf. Ég varð þrítugur í byrjun maí og stefni á þrjú ár í viðbót. Ég hef lengi barist við erfið meiðsli og veit að ég er góður heill en ef maður er á hálfri ferð er betra að leyfa yngri mönnum að spila.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.