Risastór leikur fyrir Hött: Tækifæri til að komast í undanúrslit bikarkeppninnar

Höttur heimsækir í kvöld fyrstu deildarlið Breiðablik í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik. Þrátt fyrir erfitt tímabil í úrvalsdeildinni hefur Höttur sjaldan átt betri möguleika á að komast í undanúrslit bikarkeppninnar.

„Þetta er risastórt tækifæri fyrir okkur að geta komist í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn og haldið þar með áfram að skrifa sögu félagsins,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Úrslitakeppni bikarkeppninnar er leikin í Laugardalshöll eftir áramót. Undanúrslit eru leikin fyrri daginn og úrslitaleikurinn þann seinni. Höttur hefur aldrei komist í úrslitakeppnina.

Höttur lék heima gegn KR á fimmtudagskvöld en hefur síðan nýtt helgina til undirbúnings. „Við teljum okkur vera þokkalega klára. Við erum með okkar sterkasta lið og erum spenntir fyrir leiknum.“

Andstæðingurinn er snúinn, þótt deild muni formlega á liðunum er Breiðablik í efsta sæti fyrstu deildar meðan Höttur er á botni úrvalsdeildarinnar.

„Breiðablik er með hörkulið og það er ekkert gefið að úrvalsdeildarlið vinni fyrstu deildarlið eins og sást þegar Valur, þá í fyrstu deild, fór í undanúrslit bikarsins í fyrra. Við þurfum að spila okkar besta leik.“

Hann vonar að Austfirðingar á höfuðborgarsvæðinu fjölmenni á leikinn sem hefst í Smáranum í Kópavogi klukkan 19:15. „Það er vonandi að fólk láti sjá sig. Við getum skemmt fólki ef það mætir á völlinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.