Ótrúlega stolt af fyrsta landsliðsmanninum

Huginn Seyðisfirði eignast nýverið sinn fyrsta landsliðsmann í blaki þegar Galdur Máni Davíðsson var valinn í U-17 ára lið karla. Þjálfari hjá liðinu segir valið mikla viðurkenningu fyrir það.


„Við erum ótrúlega stolt af honum og þetta er mjög stór viðurkenning fyrir okkur. Hann er flott fyrirmynd fyrir yngri krakkana og við sjáum fram á að fleiri fylgi á hæla hans á næstu árum,“ segir Kolbrún Lára Vilhelmsdóttir sem staðið hefur að baki uppbyggingu yngri flokka hjá Huginn.

Um tuttugu ár eru síðan öldungablak fór að byggjast upp hjá félaginu en krakkablakið byrjaði fyrir þremur árum. Það nýtur mikilla vinsælda.

„Ég ætlaði að prófa þar sem það eru svo fáir í hverjum bekk að það henta ekki margar íþróttir en í krakkablakinu eru fjórir í hverju liði. Síðustu ár hafa 90% barnanna í grunnskólanum æft blak. Ég ætlaði bara að vera með einn hóp en endaði í þremur.“

Liðunum hefur fjölgað og fleiri komið að þjálfuninni. Þótt Galdur sé fyrstur bíða fleiri. „Það hafa fleiri frá okkur verið í úrtökuhópum fyrir landsliðin. Okkur hefur gengið vel í krakkablakinu, reynt að senda lið í öllum flokkum og yfirleitt komið heim með verðlaun.“

Galdur Máni spilar með Þrótti Neskaupstað í efstu deild karla og æfir með liðinu tvisvar í viku en mætir einnig reglulega í fullorðinsblak á Seyðisfirði.

En Galdur var síður en svo eini Austfirðingurinn í landsliðunum sem spiluðu á Nevza mótinu í Ikast í Danmörku. Í drengjaliðinu sem varð í fimmta sæti var einnig Atli Fannar Pétursson úr Þrótti.

Kvennaliðið varð í fjórða sæti en í því voru Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir, Tinna Rut Þórarinsdóttir, Valdís Kapitola Þorvarðardóttir og Anna Karen Marinósdóttur úr Þrótti.

Liðin komu heim í dag en Heiða Elísabet og Hrafnhildur Ásta stoppa stutt því þær fara aftur út um miðja næstu viku með U-18 ára landsliðinu sem tekur þátt í Evrópukeppninni sem fram fer í Svíþjóð.

Þá var Valgeir Valgeirsson úr Neskaupstað meðal dómara á Nevza mótinu.

Galdur Máni, lengst til hægri, í leik með Þrótti við hlið Atla Fannars en þeir eru báðir í U-17 ára landsliðinu. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.