Leiknir mætir KR í bikarnum: Óskaði þess að fá stórlið austur

Úrvalsdeildarlið KR verður mótherji Leiknis Fáskrúðsfirði í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu. Þjálfari Leiknis segir það verða ævintýri að fá eitt af bestu liðum landsins austur.


„Ég óskaði þess að fá stórlið austur og óskin rættist,“ segir Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis.

Dregið var í 32ja liða úrslitunum í hádeginu en Leiknir tryggði sér þátttökurétt þar með að vinna Fjarðabyggð 1-2 á Norðfjarðarvelli á sunnudag.

Leiknir leikur í næst efstu deild þannig að á hinum frægu pappírum er mikið bil á milli liðanna. „KR er í dag eitt af 3-4 bestu liðum landsins og það eru margir sem spá liðinu Íslandsmeistaratitlinum. Liðið er gríðarlega vel mannað, bæði með fyrrverandi atvinnumönnum og flottum erlendum leikmönnum ásamt öflugum þjálfar og góðum hópi, þannig það er heiður að fá það austur.

Ég var líka með það bakvið eyrað að fá lið úr okkar deild til að eiga meiri möguleika á að fara lengra í keppninni en þetta verður gríðarlega skemmtilegt ævintýri.“

En þótt munurinn virðist mikill er Viðar bjartsýnn á að litla liðið geti strítt því stóra. „Við erum alveg vanir að spila við úrvalsdeildarlið og höfum sýnt það í Lengjubikarnum í ár og í fyrra að við getum vel staðið í þessum liðum ef við eigum toppdag.“

Leikurinn verður í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði klukkan 17:30 miðvikudaginn 17. maí. „Ég vonast bara að sem flestir Austfirðingar fjölmenni í höllina. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum svona lið hingað,“ segir Viðar að lokum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.