Orkumálinn 2024

Körfubolti: Toppbaráttan galopin eftir sigur Vals á Hetti – Myndir

Höttur heldur enn efsta sætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik en forustan er ekki jafn afgerandi og hún var eftir tap fyrri Val 68-76 á Egilsstöðum í gærkvöldi. Bæði lið spiluðu frábæran varnarleik en breiddin skilaði gestunum sigri.


Tónninn var sleginn strax í byrjun því liðin skoruðu samanlagt 11 stig fyrstu átta mínúturnar. Valsmenn spiluðu betri vörn heldur en sést hefur nokkru sinni á móti Hetti í vetur, enda eina liðið sem hefur unnið Hött í deildinni.

Valsliðið er hávaxnara en flest önnur í deildinni. Þar með gátu þeir betur valdað körfuna gegn gegnumbrotum Aaron Moss og Mirko Virijevic, sem svo oft hafa reynst Hetti drjúg í vetur. Við bættist að einkum Mirko gekk illa að hitta, skot sem farið hafa ofan í öllum öðrum leikjum snérust upp úr körfunni í gærkvöldi.

4/27 utan þriggja stiga línunnar

Þegar leiðin að körfunni lokaðist kom það í hlutverk skyttnanna að láta vaða. Þar var sama sagan, skot sem annars hafa smollið ofan í gerðu það ekki. Þegar leiknum lauk var nýtingin 15%, 4 skot utan þriggja stiga línunnar af 27 fóru ofan í.

Ólukka í skotum og mikill kraftur Valsmanna undir körfunni dró vígtennurnar úr sókn Hattar. Menn urðu ragir við að skjóta, sóknin varð hikandi og hæg og því auðveldara að bregðast við.

Moss dró vagninn í sókn Hattar og hélt liðinu á floti. Ekki fór mikið fyrir langskotunum en hann keyrði vel inn að körfunni og virtist geta skotið boltanum ofan í þótt jafnvægið væri farið veg allrar veraldar.

19-6 af bekknum

En munurinn lá í dreifingu stigaskorsins. Hattarmenn héldu aftur af helstu skorurum Vals, til dæmis fyrrum liðsfélaga sínum Austin Bracey, í deildina skoruðu átta leikmenn Vals á móti sex hjá Hetti, þar af fjórir fleiri en tíu á móti tveimur hjá Hetti. Valur fékk 19 stig af bekk en Höttur 6. Þá var þriggja stiga hittni Vals 10/30.

Munurinn á liðunum varð til í lok þriðja leikhluta og upphafi fjórða. Höttur kom til baka og átti fram á síðustu mínútu möguleika á að jafna í einni sókn. Það færi gafst tvisvar en geigað, eins og svo mörg í leiknum.

Aaron Moss skoraði 32 stig fyrir Hött, stal 7 boltum og tók 20 fráköst. Urald King skoraði 16 stig fyrri Val og tók 14 fráköst. Austin Bracey og Sigurður Dagur Sturluson skoruðu 15 stig hvor.

Fantagóð vörn hjá báðum

Höttur er enn efstur og hefur aðeins tapað tvisvar í vetur, bæði skiptin gegn Val sem tapað hefur einum leik meira. Fjölnir er í öðru sæti með fjóra ósigra en hefur leikið fleiri leiki en Valur. Þau lið mætast í næstu umferð. Valur og Höttur mætast í næst síðustu umferðinni á Hlíðarenda. Sigur Hattar hefði farið langt með að tryggja úrvalsdeildarsæti næsta vetur.

„Þessi sigur var lífsnauðsynlegur upp á fyrsta sætið. Nú er það galopið. Ef við gerum okkar það sem eftir er þá tökum við það. Við eigum hins vegar strax aftur stóran leik gegn Fjölni og ef mætum værukærir í þann leik fer fyrsta sætið frá okkur aftur og mögulega annað sætið líka,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals.

Hann gat verið stoltur af leik liðsins, sem spilaði gegn KR í undanúrslitum bikarkeppninnar á fimmtudagskvöld. „Að öllu jöfnu hefði þessi leikur hér í kvöld verið stærsti leikur tímabilsins hjá okkur en leikurinn gegn KR var stór og það sást vel í fyrsta leikhluta.

Vörnin hjá okkur var mjög góð. Það sást á stigaskorinu að við hittum illa en Hattarmenn spiluðu líka fantagóða vörn.“

Nokkrir þristar í viðbót hefðu jafnað leikinn

Hafi Valur hitt illa var ástandið ekki betra hjá Hetti. „Hluti þessara skota okkar var ekki nógu góður. Við erum með mjög gott skotlið og 2-3 þristar í viðbót hefðu jafnað leikinn. Við vorum líka hikandi og skutum ekki í þeim takti sem við viljum. Þetta er hluti af því að við erum ekki nógu sterkir andlega,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

„Varnarleikurinn var á stærstum hluta góður, við börðumst mjög vel og tókum mörg fráköst. Valsliðið er flott og okkar líka þannig að það var alltaf von á hörkuleik. Við vorum hins vegar ekki nógu góðir þegar á reyndi.“

Höttur á heimaleik strax aftur á fimmtudagskvöld gegn ÍA. „Það er okkar að sýna hvers megnugir við erum það sem eftir er.“

Karfa Hottur Valur Feb17 0006 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0015 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0018 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0020 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0025 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0026 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0039 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0047 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0049 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0052 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0055 Web
Karfa Hottur Valur Feb17 0057 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.