Körfubolti: Munaði einni sókn að Höttur slægi Íslandsmeistarana úr leik – Myndir

Höttur féll úr leik í fjórðungsúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 87-92 ósigur gegn Íslandsmeisturum síðustu þriggja ára, KR á Egilsstöðum í gærkvöldi. Hattarmenn voru yfir þegar innan við mínúta var eftir af leiknum.


Ef og hefði eru orð sem eiga svo oft við í íþróttunum. Ef Aaron Moss hefði skorað úr skotinu sem hann átti þegar hálf mínúta var eftir af leiknum hefðu úrslitin getað orðið allt önnur.

Ef hann hefði sett niður þriggja stiga skotið og jafnað í 90-90 þegar fimm sekúndur voru eftir. Ef hann hefði sett niður þriðja vítið þegar hann kom Hetti yfir þannig að forskotið hefði orðið tvö stig en ekki eitt þegar 45 sekúndur voru eftir. Ef, ef, ef.

En í staðinn komust KR-ingar fyrst yfir á ný, 87-88 og svo 87-90 úr næstu sókn.

Fyrir leikinn hefðu flestir stuðningsmenn Hattar fagnað fimm stiga tapi. Á pappírunum áttu margfaldir Íslandsmeistarar með fjölda landsliðsmanna sem spila ekki bara ánægjuna eina saman ekki að vera í vandræðum með efsta liðið í næst efstu deild. Þegar flautað var til leiksloka áttu Egilsstaðabúar hins vegar erfitt með að sætta sig við súran ósigur.

Frumkvæði Hattar

Hattarmenn settu niður fyrstu körfu leiksins og leiddu síðan nær allt fram undir hálfleik. KR komst nokkru sinnum nærri en alltaf fann Höttur leiðir á ný til að ná góðu forskoti sem varð mest 12 stig, 43-31 um miðjan annan leikhluta. Staðan í hálfleik var 48-39.

Höttur skoraði síðan fyrstu þrjú stigin í seinni hálfleik áður en KR vélin komst í gang. Á tveimur mínútum komu 13 stig KR í röð þannig að gestirnir komust yfir 51-52. Sjö fylgdu í viðbót næstu tvær mínúturnar áður en Hetti tækist að svara.

Á sama tíma virtust dómarar leiksins, sem voru fjarri sínu besta, vera við það að missa tökin á leiknum – því miður ekki í fyrsta skiptið. Í lok fyrri hálfleiks misstu þeir af því þegar varnarmaður Hattar togaði í sóknarmann KR á leið í skyndisókn. Í lokasókn Hattar ætlaði annar dómarinn að dæma körfu þegar varnarmaður KR sló skot Sigmars Hákonarsonar frá en á sama tíma neitaði hinn að dæma nokkuð og varð það ofan á.

Um miðjan þriðja leikhluta fékk Hreinn Gunnar Birgisson á sig tæknivillu þegar hann og annar varnarmaður Hattar virtust fara af ákafa fremur en ásetningi í Jón Arnór Stefánsson í skyndisókn þannig hann skall í gólfinu. Hinu megin óð Brynjar Þór Björnsson af krafti í Aaron Moss og fylgdi honum inn í teiginn þar sem þeir duttu báðir án eftirmála. Í kjölfarið virtist ekki skorta mikið upp á upp úr syði milli leikmanna. Reikistefna á ritaraborði sem kallaði á hlé varð til þess að kæla niður leikmennina.

Níu stig frá Moss breyta stöðunni

Þegar ró færðist yfir á ný fór Höttur aftur að spila eins og fyrr í leiknum. Rétt fyrir lok þriðja leikhluta var munurinn fjögur stig og Höttur gat minnkað hann enn frekar. Þjálfari KR var tilbúinn með spjaldið fyrir leikkerfi í höndunum og virtist ætla að taka leikhlé en leikmenn hans klóruðu sig í gegn og voru 62-68 yfir fyrir síðasta leikhlutann.

Það var samt ekki langt í leikhléið. Höttur jafnaði í 72-72 eftir þrjá mínútur og Finnur Freyr Stefánsson tók umsvifalaust leikhlé. KR skoraði næstu sex stig og var með þægilegt forskot næstu tvær mínútur.

Aaron Moss tók þá til sinna ráða og níu stig frá honum í röð breyttu stöðunni úr 78-84 í 87-86.

Eðlilega var leitað til hans áfram en sem fyrr sagði brást honum þá bogalistin. KR-ingar gengu á lagið og sluppu með skrekkinn – og við hrakfarafyrirsagnir morgundagsins.

Það er aldrei gaman að tapa en Hattarmenn geta verið stoltir af leik sínum. Þeir þurfa hins vegar að halda áfram í deildinni til að KR og önnur álíka sterk lið verði fastagestir í íþróttahúsinu á Egilsstöðum næsta vetur.

Aaron Moss náði enn einu sinni þrefaldri tvennu, skoraði 28 stig, tók 12 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. Mirko Stefan Virijevic átti frábæran leik inni í teignum, tók 17 fráköst, fiskaði 9 villur og skoraði 26 stig. Í liði KR varð Jón Arnór Stefánsson stigahæstur með 27 stig. Pavel Ermolinsij skoraði 10 stig og tók 13 fráköst.

Karfa Hottur Kr Jan17 0004 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0009 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0016 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0022 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0023 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0025 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0040 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0043 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0050 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0052 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0063 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0067 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0069 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0071 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0077 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0085 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0110 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0115 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0120 Web
Karfa Hottur Kr Jan17 0133 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.