Körfubolti: Höttur slátraði FSu í fyrri hálfleik – Myndir

Leikmenn Hattar sýndur stórleik í fyrri hálfleik og lögðu þar með grunn að stórsigri á FSu í leik liðanna í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þjálfarinn varð næststigahæstur og skoraði stig á mikilvægum kafla.


Það var hraði Hattarliðsins, jafnt í vörn og sókn, sem gestirnir af Suðurlandinu réðu ekkert við. FSu tapaði hverjum boltanum á eftir öðrum í sókninni frammi fyrir aðgangsharðri Hattarvörninni sem urðu að stigum eftir skyndisóknir.

Ragnar Gerald Albertsson skoraði 16 stig í fyrri hálfleik, þar af tróð hann boltanum einu sinni í körfuna. Hann er kominn aftur eftir ársveru á heimaslóðum í Keflavík og er ekki lengur renglulegi unglingurinn sem spilaði með Hetti heldur mun þroskaðri leikmaður.

Allt gekk upp hjá Hetti. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari, skipti sjálfum sér inn á og negldi niður þriggja stiga körfu í sinni fyrstu snertingu. Yfirburðirnir nýttust til að gefa yngri leikmönnum tækifæri og undir loks hálfleiksins var leikurinn orðinn að skothæfingu fyrir Hött.

FSu liðið var líka lánlaust. Víti duttu af hringnum en fyrst og fremst var allt traust sett á Bandaríkjamanninn Terrence Motley. Hann stóð síðar undir því en tapaði líka boltanum oft.

Kæruleysi í þriðja leikhluta

Höttur var 52-26 yfir í hálfleik en þegar forskotið er mikið getur kæruleysi komið upp og það gerðist í gærkvöldi. Í þriðja leikhluta voru Hattarmenn skrefinu á eftir í vörninni og sóknin var stirðari með lélegri skotum. Á sama tíma reif Motley Sunnlendinga og tókst að fá fleiri leikmenn með.

Minnstur varð munurinn 58-46. Viðar Örn tók þá leikhlé, skipti sjálfum sér inn á og setti niður þriggja stiga skot þrjár sóknir í röð. Þar með var munurinn aftur orðin 20 stig og von Sunnlendinga aftur úr sögunni. Höttur hélt ágætlega á spilunum það sem eftir var og vann sannfærandi, 102-71, endaði meira að segja á flautukörfu Bjartmars Halldórssonar.

Átta leikmenn skoruðu fyrir Hött í fyrri hálfleik og tíu alls sem sýnir vel hversu vel skorið dreifðist. Ragnar Gerald varð stigahæstur með 23 stig en Viðar Örn skoraði 20. Aaron Moss skorið 18 stig en hirti 18 fráköst og sendi 10 stoðsendingar.

„Við vonuðumst eftir leikmanni sem fyllt gæti upp í alla tölfræði þætti. Þegar við hittum jafn vel í dag er hlutverk hans að hlaupa á vörnina og opna fyrir aðra. Þess vegna sendi hann margar stoðsendingar en hann er líka frábær frákasti. Smátittur, bara 1,85 m á hæð, hirðir 18 fráköst og getur skorað ef þess þarf,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Gott að margir skori

Heilt yfir var Viðar Örn ánægður með leikinn. „Þetta var svipaður leikur og á móti Fjölni. Við látum boltann ganga vel og fáum því fullt af opnum skotum og stig frá mörgum leikmönnum sem getur orðið mikið vopn.

Það var mikill kraftur í varnarleiknum en við fengum á okkur of mörg stig í seinni hálfeik. Þetta er samt bara annar leikur tímabilsins svo við erum skammt á veg komnir.

Við verðum að vinna í andlega styrknum til að geta haldið áfram að bæta í. Það er alltof mikið að missa tæplega 30 stiga forskot niður í tólf stig. Slíkt kæruleysi höfum við sýnt tvo leiki í röð.“

Viðar Örn átti mikilvæga innkomu í leikinn. „Það er allt í lagi að vera með meðan ég get haltrað upp völlinn, staðið á kantinum og skotið. Meðan liðin leyfa mér það taka þau ekki teiginn. Við Hreinn Gunnar og Ragnar togum vörnina það mikið í sundur ef við erum saman inni á að Aron kemst auðveldlega að hringnum sem er hans styrkleiki.“

Það virðist fengur fyrir Hött að fá Ragnar Gerald aftur, trúlega öflugri en áður. „Já, ég held að það sé rétt. Hann á eftir að verða miklu öflugir. Hann missti aðeins úr í sumar en er jafnt og þétt að vinna sig í toppstand.“

Karfa Hottur Fsu Okt16 0005 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0012 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0016 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0033 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0042 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0045 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0047 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0065 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0067 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0088 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0100 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0103 Web
Karfa Hottur Fsu Okt16 0107 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.