Orkumálinn 2024

Körfubolti: Eysteinn Bjarni valinn í landsliðsúrval

Eysteinn Bjarni Ævarsson, körfuknattleiksmaður frá Egilsstöðum, var í gær valinn í 41 manns úrval fyrir íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik sem stefnur á Evrópumótið 2017. Hann átti ekki von á að vera boðaður til æfinga.


„Þetta er frábært tækifæri. Það verður geggjað að fá að spila með þessum leikmönnum og reynsla sem ég á eftir að geta nýtt mér,“ sagði Eysteinn Bjarni í samtali við Austurfrétt.

Hann var staddur á Vík í Mýrdal á leiðinni suður en æfingar hefjast á morgun. Til þeirra voru boðaðir 22 leikmenn sem ekki hafa verið áður í landsliðinu.

Æft verður fram að helgi en þá munu Craig Pedersen landsliðsþjálfari og aðstoðarmenn hans velja hvaða leikmenn halda áfram. Þeir sem standa sig best á æfingunum æfa síðan með landsliðinu sem tók þátt í Evrópumótinu í fyrra og síðan verður endanlegur hópur fyrir forkeppnina valinn.

Undankeppni mótsins verður leikin í ágúst og september. Þann 17. september verður ljóst hvaða lönd komast í lokakeppnina sem haldin verður fyrri hluta september 2017 í Rúmeníu, Finnlandi, Ísrael og Tyrklandi.

Eysteinn segist ekki hafa átt von á þessari upphefð. „Nei, í sannleika sagt þá átti ég ekki von á þessu. Ég fékk bara skilaboð um að Pedersen hefði boðað mig til æfinga.“

Eysteinn Bjarni er 21 árs gamall framherji, uppalinn hjá Hetti og lék með liðinu í úrvalsdeildinni síðasta vetur. Hann skoraði 10 stig að meðaltali í leik auk þess að taka 5,7 fráköst og gefa 3,1 stoðsendingu. Hann spilar með Stjörnunni í úrvalsdeild næsta vetur.

Annar fyrrum leikmaður Hattar er boðaður til landsliðsæfinganna. Það er Austin Magnus Bracey sem spilaði með liðinu í fyrstu deildinni 2013 og 2014 áður en hann skipti yfir í Snæfell þar sem hann er í dag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.