Körfubolti: Einum leik frá úrvalsdeildarsæti þrátt fyrir þann lélegasta í vetur

Höttur er einum sigri frá því að tryggja sér sigur í fyrstu deild karla í körfuknattleik og sæti í úrvalsdeild að ári. Liðið vann Vestra í gær en keppinautarnir í Fjölni og Val klúðruðu sínum málum.


Leikurinn var samt enginn glæsileikur því Höttur byrjaði á að lenda 1-10 undir. Sá munur hélst mest allan fyrri hálfleikinn en Höttur skoraði síðustu átta stigin og breytti stöðunni úr 19-30 í 27-30.

Sú sigling hélst út leikinn og Höttur vann 78-54. Örugg forusta þýddi að hægt var að dreifa spilatímanum og framlag leikmanna skiptist einnig nokkuð vel. Ragnar Gerald Albertsson var stigahæstur með 23 stig.

„Við mættum bara í seinni hálfleikinn. Fyrstu sautján mínúturnar voru þær verstu sem við höfum sýnt í vetur.

Við hittum illa og vorum að pirra okkur á hlutunum. Þetta er spurning um hugarfar. Árangurinn verður aldrei góður ef menn ætla að mæta og pæla í öðru, vælda í dómurunum í stað þess að einbeita sér að því sem þeir eiga að vera að gera sem er að spila körfubolta,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Markmiðið að vinna hvern leik

Úrslit í öðrum leikjum gera það hins vegar að verkum að Höttur getur tryggt sér með einum sigri úr þeim þremur leikjum sem eftir er. Liðið heimsækir Ármann og Val syðra um næstu helgi en fyrrnefnda liðið hefur ekki verið nálægt því að vinna leik í vetur.


Valur og Fjölnir hafa veitt Hetti mestu keppnina í vetur en Fjölnir tapaði fyrir Breiðabliki 85-88 á föstudagskvöld og Valur fyrir Hamri 96-98 í gærkvöldi. Gestaliðin berjast um sæti í úrslitakeppninni og sigu bæði fram úr á lokasekúndunum.

„Markmið okkar er að klára hvern einasta leik og gera betur og betur. Ármenningum hefur ekki gengið vel en við þurfum að mæta til leiks og gera okkar. Við höfum ekki unnið Val í vetur og ég vona að við bætum úr því. Við höfum allt í okkar höndum til að klára mótið vel,“ sagði Viðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.