Orkumálinn 2024

Körfubolti: Grátlegt tap gegn Val - Myndir

Höttur tapaði fyrir Val í nýliðaslag úrvalsdeildar karla í körfuknattleik 93-99 eftir framlengdan leik á Egilsstöðum í gærkvöldi. Höttur fékk gullið tækifæri til að vinna leikinn eftir að að venjulegur leiktími var úti.

Höttur tók leikhlé í stöðunni 89-90 þegar 7 sekúndur voru eftir. Boltinn var sendur á Aaron Moss sem keyrði að körfunni en hitti ekki. Hinu megin var barist um frákastið og boltanum blakað í áttina að körfunni áður en dómararnir dæmdu villu, um leið og leiktíminn rann út.

Höttur var kominn í bónus og Ragnar Gerald Albertsson fór á vítalínuna. Hann var sennilega álíka svekktur yfir að fyrra skotið geigaði og að honum var létt yfir að það seinna fór ofan í.

Höttur skoraði fyrstu körfuna í framlengingu en Valsmenn áttu meira eftir á tanknum og þriggja stiga karfa Austin Bracey, fyrrum leikmanns Hattar, var það sem gerði út um leikinn þegar Valur komst í 92-98.

Hvorugt liðið hafði fyrir leikinn unnið leik í haust en liðin fylgdust að upp úr fyrstu deildinni í fyrra. Mikið var í húfi fyrir bæði að koma sér af stað.

Valur fór betur af stað og náði snemma fimm stiga forskoti. Höttur náði að vinna það upp í öðrum leikhluta og í hálfleik var jafnt. Valur var alla jafna skrefi á undan, þó aldrei meira en fimm stigum. Höttur kom alltaf til baka og komst jafnvel nokkrum sinnum yfir.

Höttur hefur glímt við meiðsli í haust og var í gær án Bergþórs Ægis Ríkharðssonar sem fór úr axlarlið í síðasta deildarleik. Það hefur sett strik í reikninginn við undirbúning liðsins og reyndist dýrt þegar komið var fram í framlenginguna í gær.

Þá var Moss ekki með á undirbúningstímabilinu og var gjörsamlega örmagna þegar komið var fram í fjórða leikhluta. Af honum verður ekki tekið að hann lagði sig meira en allan fram í gær, skoraði 35 stig og tók tólf fráköst, þrátt fyrir að vera dekkaður stíft en Valsmenn spiluðu pressuvörn með sérstaka áherslu á Moss allt frá öðrum leikhluta.

Mirko Virijevic skoraði 29 stig og tók 18 fráköst og Andrée Michelsson átti nokkrar glæsilegar þriggja stiga körfur en hann skoraði alls ellefu stig.

„Ég ætla bara að taka jákvæða hluti út úr þessum leik. Við skiljum tapið og neikvæða hluti eftir í læstum skáp því við höfum bætt okkur hratt undanfarna viku. Við tökum sigra þegar við verðum komnir enn lengra,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Þá setti það mark sitt á leikinn í gær að Hattarmenn voru ákaft studdir af svissneskum ungmennum sem hafa verið eystra í vikunni og æft körfubolta en Svisslendingarnir komu með potta og pottlok til að búa sem mestan hávaða á pöllunum.

Myndir: Sigrún Júnía Magnúsdóttir

Karfa Hottur Valur Okt17 0006 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0013 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0024 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0029 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0034 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0048 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0077 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0079 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0084 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0097 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0122 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0149 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0152 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0159 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0165 Web
Karfa Hottur Valur Okt17 0186 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.