Knattspyrna: Mikilvægt fyrir sjálfstraustið að vinna tvo leiki í röð

Fjarðabyggð náði í fyrsta sinn í sumar að vinna tvo leiki í röð þegar liðið lagði Vestra á laugardag 1-0. Liðið er enn samt í fallsæti. Kvennaliðin unnu góða sigra en önnur karlalið riðu ekki feitum hestum frá helginni.

„Það er mikilvægt fyrir öll lið, einkum þau sem eru í okkar stöðu og sjálfstraust strákanna að vinna tvo leiki í röð. Ég vona að nú náum við að hrista okkur saman og fylgja þessum sigrum eftir,“ segir Dragan Stojanovic, þjálfari Fjarðabyggðar.

Zoran Vujovic skoraði eina mark leiksins strax á annarri mínútu. „Við lögðum upp með að verjast vel og sækja hratt á þá. Það gekk mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Vestra-liðið er öflugt og pressaði stíft á okkur í seinni hálfleik. Við fengum samt tvö mjög góð færi, þar af annað einn á móti markmanni en nýttum þau ekki þannig að síðustu mínúturnar urðu stressandi.“

Þrátt fyrir að hafa unnið Vestra nú og þar áður Sindra er Fjarðabyggð enn í fallsæti með 14 stig, þremur stigum frá næsta liði. „Ég er mjög ánægður með allt í sumar nema úrslitin. Í liðinu hafa verið margir ungir strákar sem ekki hafa spilað áður í meistaraflokki og eins stráka sem hættu fyrir 2-3 árum. Þetta er mikil reynsla fyrir þá.

Við þurfum að vinna fleiri leiki til að fara úr fallsæti. Við viljum ekki vera þar og ég er mjög bjartsýnn á að við komumst þaðan.“

Nýir miðjumenn styrkja liðið

Með Fjarðabyggð léku um helgina tveir nýir leikmenn, Spánverjinn Enrique Rivas og Hafsteinn Gísli Valdimarsson, yngri bróðir Þórarins Inga sem á nokkra landsleiki að baki. Báðir spila á miðjunni og telur Dragan að þeir muni efla liðið.

„Okkur hefur vantað leikmenn sem geta haldið boltanum betur og mér sýnist að þeir séu akkúrat þannig. Við höfum verið með tvo unga á miðjunni, 15 og 16 ára, sem hafa staðið sig vel en það er erfitt fyrir svo unga stráka að leika fullvöxnum karlmönnum.“

Dragan á ekki von á að Fjarðabyggð bæti við sig fleiri leikmönnum í félagaskiptaglugganum sem opnaði um helgina. „Það er þetta klassíska, við erum alltaf opnir fyrir góðum leikmönnum. Ég hugsa að hópurinn verði svona það sem eftir er sumars, nema við bætum kannski við einum. Við viljum ekki vera í þeirri stöðu sem við erum og gerum allt sem við getum til að klífa upp töfluna.“

Markaleikur á Egilsstöðum

Höttur er fjórum stigum ofar í deildinni en liðið tapaði fyrir Víði í Garði á Egilstöðum í miklum markaleik í gær, 3-4. Víðismenn skoruðu strax á þriðju mínútu en Steinar Aron Magnússon og Brynjar Árnason komu Hetti yfir fyrir leikhlé.

Víðismenn jöfnuðu eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik en tveimur mínútum síðar komst Höttur yfir á ný með marki Ignacio Martinez. Tvö mörk Víðis með mínútu millibili um miðjan seinni hálfleik snéru við taflinu. Hið seinna var sjálfsmark. Heimamenn fengu hins vegar færi undir lokin en vítaspyrna Brynjar Árnasonar tíu mínútum fyrir leikslok var varin.

Huginn gerði markalaust jafntefli við Njarðvík á útivelli. Eitt stig skildi milli liðanna í öðru og þriðja sæti og gerir það áfram. Huginn hefur styrkt sig með tveimur leikmönnum, Kifah Moussad og Pétri Óskarssyni frá Vatnaliljunum. Pétur lék með Huginn síðustu þrjú sumur.

Leiknir aftur í botnsætið

Leiknir er á ný komið í neðsta sæti Inkasso-deildarinnar eftir 3-0 ósigur gegn Gróttu sem þar með skipti á sæti við Fáskrúðsfjarðarliðið.

Með Leikni léku tveir nýir leikmenn frá Litháen. Vitaly Barinov er 24 ára miðvörður sem á að baki leiki með U-21 árs landsliði Litháa. Hann lék síðast með Jonava í heimalandinu. Hinn er Darius Jankauskas 25 ára varnartengilliður. Hann spilaði síðast með Eiger FK frá Egersund í Noregi.

Einherji missti af góðu tækifæri til að vera með í baráttunni um sæti í annarri deild á næsta ári þegar liði gerði markalaust jafntefli við neðsta lið þriðju deildarinnar, Reyni Sandgerði, á Vopnafirði á laugardag.

Annar sigur Einherja í röð

Kvennaliðið vann hins vegar sinn annan leik í röð í annarri deildinni þegar liðið lagði Hvíta riddariann 4-1. Steindóra Huld Gunnlaugsdóttir skoraði tvö mörk og Borghildur Arnardóttir og Barbara Kopacsi sitt markið hvor fyrir Einherja. Þær sáu reyndar um alla markaskorunina því markvörðurinn Doris Bacic varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Riddarinn spilaði einnig gegn Fjarðabyggð/Hetti/Leikni á laugardag og tapaði 6-2. Halla Helgadóttir skoraði þrennu fyrir Hött, Kristín Inga Vigfúsdóttir tvennu og Carine Spengler eitt. Annað mark gestanna var sjálfsmark. Ekki kom að sök að Steinunn Lilja Jóhannesdóttir, markvörður Austfjarðaliðsins, fékk rautt spjald á 24. mínútu fyrir að handleika boltann utan teigs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.