Orkumálinn 2024

Knattspyrna: Höttur bjargaði sér frá falli

Höttur bjargaði sér frá falli úr annarri deild karla á eigin verðleikum með að leggja Vestra 2-1 á laugardag. Huginn tapaði fyrir Tindastól á heimavelli í leik sem minnst verður fyrir vallaraðstæður.

Höttur þurfti sigur á Ísafirði til að vera öruggur með sæti sitt í deildinni. Fyrir leikinn sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Hattar, að forgangsatriði væri að halda hreinu, jafntefli yrði trúlega nóg.

Þau áform féllu sem laufblöð af trjánum í haustinu því heimaliðið skoraði á annarri mínútu og strax aftur á þeirri fjórðu.

Sá sem skoraði fékk dæmt á sig víti og rautt spjald á elleftu mínútu. Ignacio Martinez nýtti vítið til að koma Hetti aftur inn í leikinn. Vestri fékk víti á 37. mínútu og náðu aftur tveggja marka forskoti.

Seinni hálfleikurinn gekk hins vegar upp hjá Hetti mann fleiri. Ignacio, sem á stóran þátt í að hafa haldið liðinu uppi með 13 mörkum, skoraði á 56. mínútu, fyrirliðinn Brynjar Árnason sendi boltann í netið beint úr aukaspyrnu á 76. mínútu og á 89. mínútu var það Nenad þjálfari sem skoraði sjálfur úr víti.

Brynjar Þorri Magnússon, leikmaður Hattar, varð fyrir því óláni að fótbrotna eftir tæklingu. Hann kom inn á sem varamaður um miðjan seinni hálfleik. Honum var flogið til Reykjavíkur með sjúkraflugi í aðgerð en er á batavegi.

KV tapaði sínum leik

Á sama tíma tók KV á móti Aftureldingu. Með sigri hefði Vesturbæjarliðið getað haldið sig í deildinni, gegn því að Höttur ynni ekki, en tveimur stigum munaði á liðunum fyrir umferðina og þremur mörkum, Hetti í hag.

KV lenti undir strax á fyrstu mínútu og fékk annað mark á sig í fyrri hálfleik. Þótt staða Hattar á Ísafirði væri slæm var staða KV enn verri. Liðið lenti 0-4 undir áður en það klóraði í bakkann með tveimur mörkum. Höttur lauk því tímabilinu með 26 stig, fimm stigum frá falli.

Seyðisfjarðarvöllur á floti

Vesti féll niður í níunda sætið um helgina þar sem Fjarðabyggð, sem bjargaði sér frá falli fyrir viku með jafntefli gegn Hetti, náði áttunda sætinu með 4-0 á Sindra, sem þegar var fallinn. Vegna veðurs var leikurinn færður inn í Fjarðabyggðarhöllina. Zoran Vujovic, Víkingur Pálmason, Georgi Karaneychev og Sveinn Fannar Sæmundsson skoruðu mörkin.

Huginn endaði í fimmta sæti deildarinnar með 31 stig, jafnmörg og Víðir garði og sama markahlutfall en Víðismenn skoruðu fleiri mörk. Víðir vann Magna um helgina 6-5.

Huginn tapaði fyrir Tindastóli 3-4 í leik sem fyrst og síðast verður minnst fyrir vallaraðstæður á Seyðisfjarðarvelli. Völlurinn var gjörsamlega á floti þannig gusurnar gengu í allar áttir út frá leikmönnum og boltinn stoppaði í stórum pollum.

Gestirnir komust þrisvar yfir en alltaf tókst Huginn að jafna, þar til sigurmarkið kom tíu mínútum fyrir leikslok. Gonzalo Leon skoraði tvö mörk og Nik Chamberlain eitt.

Fjögur lið að austan í annarri deildinni næsta sumar

Í Inkasso-deildinni lauk Leiknir tímabilinu á 0-3 tapi fyrir Þór Akureyri. Á brattann var að sækja fyrir Leikni eftir að Jesue Suarez var vísað af leikvelli á 24. mínútu fyrir að brjóta á sóknarmanni sem kominn var í upplagt marktækifæri.

Leiknir var fallinn úr deildinni fyrir leikinn og endaði í ellefta sæti af tólf með tíu stig.

Úrslitin þýða að fjögur lið af Austurlandi: Höttur, Huginn, Leiknir og Fjarðabyggð spila í annarri deild næsta sumar. Gjaldkerar þeirra gleðjast væntanlega yfir lægri ferðakostnaði en það sama verður ekki endilega sagt um þá sem halda um peningamál mótherjana.

Reyndar fara bæði Sindri frá Höfn og Magni frá Grenivík þannig að segja má að liðum úr nágrenninu fækki í raun um eitt. Auk Austfjarðaliðana spila því í annarri deild karla næsta sumar: Grótta Seltjarnarnesi, Víðir Garði, Afturelding Mosfellsbæ, Tindastóll Sauðárkróki, Völsungur Húsavík, Vestri, Kári á Akranesi og Þróttur Vogum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.