Keppt í kökuskreytingum og ljóðalestri á Sumarhátíðinni

Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar fer fram á Egilsstöðum um helgina og margar nýjar keppnisgreinar eru á dagskrá.



„Það eru komnir rúmlega 100 keppendur og skráningar eru enn að streyma inn og vel hægt að slást í hópinn ennþá,“ segir Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastjóri UÍA, en dagskráin í ár er sérlega fjölbreytt og skemmtileg.

„Við höfum aldrei verið með svona margar keppnisgreinar, þannig að það er alveg ljóst að íþróttafólk á öllum aldri og jafnvel örgustu antisportistar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Hildur en dæmi um keppnisgreinar eru bogfimi, kökuskreytingar, ljóðalestur, crossfitt og parkour, brettalistir og súmbadans.

„Það er mikil stemmning fyrir keppninni og ég verð sérstaklega að nefna Neista á Djúpavogi, en þau eru alveg að tapa sér af spenningi og eru búin að leigja Eiðar alla helgina til þess að geta verið öll saman, en það er algerlega til fyrirmyndar og sýnir sannan ungmennafélagsanda,“ segir Hildur.


Margar hendur vinna létt verk

Hildur segir að undirbúningur sem þessi sé mikill. „Þetta er risastór viðburður, en margar hendur vinna létt verk. Það er alls ekki of seint fyrir þá sem hafa áhuga á því að koma að þessu og hjálpa til að skrá sig sem sjálfboðaliða, við tökum öllum fagnandi. Við lítum svo á að við séum að undirbúa okkur fyrir Unglingalandsmótið 2017 sem verður haldið hér að ári, en það er kraftur sjálfboðaliða sem gerir slík mót að veruleika.“

Dagskrá hefst strax í fyrramálið með ritsmiðju í umsjá þeirra Kött grá Pjé og Viktoríu Blöndal. „Þau verða svo einnig dómarar í ljóðaupplestrinum ásamt Stefáni Boga Sveinssyni. Við erum markvisst að reyna að höfða til breiðari aldurshóps, en ekki bara þeirra sem eru sterkir, snöggir eða fitt. Ég held að við verðum með keppendur allt niður í þriggja ára og svo verður púttmót fyrir eldri borgara, en við viljum einnig hvetja þá sem eldri eru að taka þátt fleiri greinum, eins og bogfimi, kökuskreytingum eða boccia – það verður eitthvað fyrir alla.“

Hildur vill þakka öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem leggja hátíðinni lið, en nánar má kynna sér dagskrána hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.