„Jafn líklegt að hún myndi ganga í UÍA og ég í HSK“

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson frá UÍA varði um helgina titil sinn sem Glímukóngur Íslands með því að sigra keppnina um Grettisbeltið á Íslandsglímunni sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi.Í glímunni um Freyjumenið sigraði Marín Laufey Davíðsdóttir frá HSK og hlaut sæmdarheitið glímudrottning Íslands í fimmta sinn. Eva Dögg Jóhannsdóttir frá UÍA lenti í þriðja sæti, en þetta var í hundraðasta og sjöunda skipti sem Íslandsglíman er haldin.

Alls tóku sjö keppendur frá UÍA þátt í mótinu og öll úrslit má sjá hér.„Ég átti mjög góðan dag þetta árið“

Aðspurður um sigur sinn í Íslandsglímunni tvö ár í röð segir Ásmundur; „Ég get ekki sagt að það sé eitthvað eitt sem skilar þessum árangri. Ég hef oft verið duglegri að mæta á glímuæfingar en ég hef hinsvegar tekið sjálfan mig í gegn líkamlega síðustu mánuði sem skilaði sér í meiri krafti og snerpu en áður. Annars skiptir dagsformið rosalega miklu máli finnst mér og ég átti mjög góðan dag þetta árið. Ég var búin að ákveða fyrir mótið hvað ég ætlaði mér að gera á móti hverjum andstæðing og það gekk upp, einbeitingin hélst.“

Framundan hjá Ásmundir er Evrópumeistaramót í Keltneskum fangbrögðum sem haldið verður í Austurríki næstu helgi. Auk hans fara þau Hjörtur Elí Steindórsson og Bylgja Rún Ólafsdóttir frá UÍA.

„Ég er á leiðinni þangað ásamt tíu öðrum keppendum frá Íslandi. Mótið tekur þrjá daga og keppt er í þremur mismunandi föngum – skoskri glímu sem heitir Backhold, franski glímu sem heitir Gouren og Austurrískri glímu sem heitir Ranggler. Það er spennandi og krefjandi verkefni sem ég hlakka mikið til að takast á við.“


Samheldið glímupar

Ekki nóg með að Ásmundur hafi landað Grettisbeltinu annað árið í röð, heldur er Marín Laufey Davíðsdóttir, sem sigraði keppnina um Freyjumenið, unnusta Ásmundar. Marín Laufey keppir fyrir HSK og er þetta í fimmta skipti sem hún sigrar Íslandsglímuna og hlýtur sæmdarheitið Glímudrottning Íslands.

„Það hefur sína kosti og galla að við séum bæði í glímunni. Við reynum að gefa hvort öðru góð ráð á mótum og við æfum mikið saman, auk þess að vinna að sambærilegum markmiðum. Ég viðurkenni samt að það er skrítin tilfinning þegar öðru okkar gengur vel á móti en hinu ekki, því við erum saman í þessu öllu.“

Aðspurður hvort Ásmundur hafi ekki reynt eitthvað til þess að fá hana yfir í UÍA með sér, segir hann; „Ég get eiginlega alveg fullyrt það að hún er ekki á leiðinni í UÍA. Hún svaraði þessari spurningu fyrir stuttu og sagði að það væri jafn líklegt að hún myndi ganga í UÍA og ég í HSK.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar