Huginn með tak á Fjarðabyggð: Annar sigurinn í sumar - Myndir

Huginn náði sér í þrjú dýrmæt stig í fallbaráttu fyrstu deildar karla í knattspyrnu í gær þegar liðið vann Fjarðabyggð á heimavelli 1-0. Þetta var annar sigur Hugins í sumar en þeir hafa báðir komið gegn Fjarðabyggð.


Liðin mættust í fyrstu umferðinni í maí og þá vann Huginn 1-2. Líkt og þá var Stefán Ómar Magnússon á skotskónum en enn skoraði eina mark leiksins í gær þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Huginn byrjaði betur og réði leiknum fyrsta korterið. Eftir það jafnaðist leikurinn. Fátt var um færi. Fjarðabyggð átti langskot sem datt niður í þverslánna og Huginsmenn fengu skallafæri sem olli markverði Fjarðabyggðar, Sveini Sigurði Jóhannessyni, ekki vandræðum.

Hann lenti hins vegar í verulegum vandræðum eftir tíu mínútna leik. Hann stökk upp í bolta sem fór yfir markið en meiddist við það illa á lærvöðva. Leikurinn var lengi stopp meðan hann hlaut aðhlynningu og virtist ætla að ná að harka af sér.

Meiðslin virtust ekki aftra honum fimm mínútum síðar þegar hann varði í tvígang skot Huginsmanna úr góðum færum í teignum. Á 67. mínútu fór hann hins vegar af velli og síðar kom í ljós að hann var með rifinn lærvöðva og spilar því ekki meira í sumar.

Enginn markvörður var á bekk Fjarðabyggðar og úr varð að varnarmaðurinn Andri Þór Magnússon setti á sig hanskana.

Haraldur Þór Guðmundsson kom inn á fyrir markvörðinn og var rétt búinn að skora með sinni annarri snertingu en Atli Gunnar Guðmundsson varði vel. Korteri fyrir leikslok fékk Sveinn Fannar Sæmundsson dauðafæri eftir fyrirgjöf frá vinstri en skalli hans fór yfir.

Það virtist ekki sem innkoma útileikmanns í mark Fjarðabyggðar veikti liðið enda Andri ákveðinn og hávær leikmaður. Hún gerði það samt.

Sigurmarkið kom á 86. mínútu. Jaime Guijarro braust upp hægri kantinn og sendi inn á markteigshornið þar sem Stefán Ómar skallaði yfir illa staðsettan Andra.

Félagar hans í vörninni bera þó líka stóra ábyrgð á markinu. Í fyrsta lagi komst Jamie auðveldlega upp kantinn og í öðru lagi voru þrír varnarmenn Fjarðabyggðar nánast á sama bletti og Stefán Ómar.

Nóg var eftir af leiknum en tíu mínútum var bætt við vegna tafa. Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Fjarðabyggðar, brást strax við með tvöfaldri skiptingu. Fjarðabyggð hélt uppi pressu það sem eftir var. Hún skilaði engri pressu og virtist Huginn líklegri til að skora úr skyndisóknum.

Huginn varð að vinna leikinn til að eiga möguleika á að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Liðið þarf fleiri sigra en útlitið er ekki jafn dökkt og það var fyrir gærkvöldi. Fjarðabyggð missti ekki af neinu en má ekki sofna á verðinum til að sogast ekki aftur niður í fallbaráttuna sem það hefur lyft sér úr með tveimur sigrum í röð. Fyrir liðið er mikið áfall að missa markvörðinn í meiðsli.

Seyðisfjarðarvöllur var rennblautur eftir rigningu nóttina á undan og um helgina. Hann tættist upp, boltinn stoppaði í pollum og leikmenn áttu í miklum vandræðum með að fóta sig. Það kom töluvert niður á gæðum leiksins.

Fotbolti Huginn Kff 20160721 0005 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0006 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0009 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0016 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0021 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0031 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0039 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0050 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0056 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0060 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0065 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0068 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0072 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0078 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0080 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0082 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0094 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0106 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0113 Web
Fotbolti Huginn Kff 20160721 0129 Web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.