Orkumálinn 2024

Hreyfivika: Einn fremsti fjallagarpur Austurlands og þriggja ára stúlkubarn saman í fjallgöngu

Einn fremsti fjallamaður Austurlands, þriggja ára stúlkubarn, heimamaður og ferðamaður frá Singapúr voru meðal þátttakenda í göngu upp að Strútsfossi í Fljótsdal í gær við upphaf Hreyfiviku UMFÍ 2016.


„Þetta var afar fjölbreyttur hópur og dæmi þess að allir geta gengið saman,“ segir Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra UÍA.

Gangan var farin á vegum UMF Þristar og er eini viðburðurinn í Fljótsdalshreppi í vikunni. Viðburðir hafa verið skráðir í sjö af átta sveitarfélögum Austurlands og hafa þau aldrei verið fleiri með. Fljótsdalshérað hlaut alþjóðleg verðlaun fyrir dagskrá sína árið 2013.

Strútsfoss er innst í Suðurdal Fljótsdal. Hann fellur í tveimur þrepum niður í mikið gil, efri hluti fossins er um 20 metra hár en sá neðri um 100 metrar. Gangan upp að fossinum, sem er nýjasti staðurinn í perlum Fljótsdalshéraðs, tekur um einn og hálfan tíma og er tiltölulega þægileg.

Með Hildi í gær var þriggja ára gömul dóttir hennar en meðal annarra göngumanna voru Skúli Júlíusson gjarnan kenndur við fjallagarpana í Wild Boys sem klifrað hafa upp á flest fjöll Austurlands. „Það er ekkert mál að fara með börn í fjallgöngur. Það þarf að velja göngu við hæfi, hafa nestið og góða skapið með. Leyfa þeim að fara á sínum forsendum, njóta náttúrunnar og gleðjast yfir hinu smáa, skoða blómin, horfa upp í skýin og hlusta á fuglasönginn og lækjarniðinn. Þau geta yfirleitt meira en við höldum,“ segir Hildur.

Hreyfivikan er haldin um alla Evrópu og var hleypt af stokkunum árið 2012. Markmið hennar er að koma 100 milljónum Evrópubúa á hreyfingu fyrir árið 2020.

„Það er margsannað að hreyfing skiptir máli fyrir heilsuna. Með vikunni viljum við vekja fólk til umhugsunar og bjóða upp á fjölbreytta viðburði þar sem fólk sem ekki hefur fundið sína hreyfingu gefst tækifæri á að prófa það sem er í boði.“

Hildur segir víða um Austurland vera boðið upp á fjölbreytta dagskrá. „Það er gaman að sjá hve öflugan þátt Austfirðingar taka.“

Viðburðir á Austurlandi í Hreyfiviku.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.