Hreinn Halldórsson sæmdur heiðurskrossi Frjálsíþróttasambandsins við opnun sýningar um ferilinn

Hreinn Halldórsson, á sínum tíma þekktur sem Strandamaðurinn sterki, var í gær heiðraður af íbúum á Fljótsdalshéraði og Frjálsíþróttasambandi Íslands. Í tilefni þess að 40 ár eru liðin síðan Hreinn varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss var opnuð sýning um feril hans.


„Ég var ekki hrifinn þegar mér var sagt að þessi sýning væri í undirbúningi. Mér leið eins og það ætti að jarða mig en ég er stoltur af henni,“ sagði Hreinn við opnunina í dag.

Sýningin er í íþróttahúsinu á Egilsstöðum en Hreinn hefur verið forstöðumaður íþróttamannvirkja á Fljótsdalshéraði í um 30 ár. Hann hefur alls unnið hjá sveitarfélaginu í 35 ár en hann tók við starfi umsjónarmanns fasteigna árið 2015.

„Ég áttaði mig á því þegar ég kom hingað fyrir sjö árum hversu mikill fengur það var fyrir samfélagið að Hreinn ákvað að velja sér samastað hér. Ég skynjaði hvað það var sem gerði Hrein að þeim afreksíþróttamanni sem raunin varð en til að ná þeim árangri sem hann náði þarf auk líkamslegs styrks andlegan styrk, eljusemi og atorku,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri.

Bikarar út um allt hús

Það var í mars 1977 sem Hreinn varð Evrópumeistari en í byrjun júlí sama ár sigraði hann á sterku móti í Stokkhólmi þar sem hann setti Íslandsmet og Vallarmet sem stóð í nokkur ár. Hann var þrisvar á ferlinum valinn íþróttamaður ársins.

„Ég er ekki viss um að það séu allir sem geri sér grein fyrir hversu stór hann var í frjálsíþróttaheiminum. Það var ekki fyrr en á unglingsárunum sem ég fór að gera mér grein fyrir hversu mikill afreksmaður hann var þótt það væru bikarar og verðlaunagripir út um allt hús.

Mamma safnaði öllu um hann í úrklippubók. Ég fór í gegnum allt safnið í aðdraganda þessarar sýningar og það var eins og að lesa um poppstjörnu, svo vinsæll var hann hjá innlendum og erlendum fjölmiðlum,“ sagði Lovísa dóttir Hreins.

Unnið mikið starf fyrir frjálsíþróttir

Hreinn stefndi á að ljúka ferlinum á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984 en bakmeiðsli urðu til þess að hann lagði kúluna á hilluna tveimur árum fyrr.

Eftir að ferlinum lauk hefur Hreinn verið óþreytandi við að gefa ungum kösturum góð ráð og aðstoðað við mótahald. Hann stýrði meðal annars kúluvarpskeppninni á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Reykjavík fyrir tveimur árum.

Fyrir vinnu sína veitti Frjálsíþróttasamband honum heiðurskross sambandsins en aðeins fimm einstaklingar á hverjum tíma fá að bera þá orðu.

„Til að við munum eftir fólk þarf útgeislun í viðbót við afrekin og hana hefur Hreinn alla tíð haft. Þannig eflist minningin þegar frá afrekinu. Það er í hávegum haft innan frjálsíþróttahreyfingarinnar eins og önnur störf Hreins fyrir hana,“ sagði Freyr Ólafsson, formaður sambandsins.

Hreinn er reyndar afreksmaður á fleiri sviðum. Árið 1997 var hann sigur úr býtum í lagasamkeppni sem haldin var í tilefni 50 ára afmælis Egilsstaðakauptúns með laginu „Bærinn okkar“. Hreinn, sem er mikill áhugamaður um harmonikkuleik, flutti lagið í gær ásamt Róberti Elvari Sigurðssyni, starfsmanni íþróttamiðstöðvarinnar.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.