Hlaupið um Hágarða til styrkar góðu málefni

Á laugardaginn verður hið árlega Hágarðahlaup í Neskaupstað, en samhliða uppbyggingu ofanflóðavarna á staðnum hafa verið lagðir göngustígar sem nýtast útivistarfólki afar vel.



Frábært útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna

„Fyrst og fremst er hreyfing mikilvæg fyrir alla og málefnið er gott,“ segir Víglundur Páll Einarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Þróttar.

„Umhverfið er fyrsta flokks, en fyrir utan allar gönguleiðirnar er þarna kominn bæði strandblakvöllur og frisbígolfvöllur. Fólk er virkilega duglegt að nýta sér þetta, enda frábært útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna.“

Er þetta annað árið í röð sem Hágarðahlaupið er. „Mætingin var mjög góð í fyrra og við vonumst eftir að hún verði enn betri á laugardaginn. Málefnið er verðugt, en við vitum öll hve mikilvægt það er að hafa góða fæðingardeild í fjórðungnum sem og það að styðja við bakið á yngri flokkastarfi,“ segir Víglundur Páll, en í fyrra söfnuðust 100 þúsund krónur fyrir fæðingardeildina.

Eitthvað fyrir alla

Hlaupinu er skipt í þrjá flokka með það að markmiði að allir geti tekið þátt.

  • Leið eitt er 8,5 kílómetra ofurhlaup þar sem reyna mun á snerpu og þol.
  • Leið tvö er 6,2 kílómetra skokkleið.
  • Leið þrjú er 5 kílómetra léttganga þar sem áhersla verður lögð á þægilega göngu á hóflegum hraða.

 

Hlaupið hefst stundvíslega klukkan 10:30 við Norðfjarðarvita og skráningar fara fram á sama stað klukkan 10:00. Þátttökugjald er 2000 krónur og munu 500 krónur renna til fæðingardeildar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og afgangurinn til yngri flokka Knattspyrnudeildar Þróttar. Frítt er fyrir börn yngri en 16 ára. Athugið að enginn posi er á staðnum.

Ljósmynd (Kristín Svanhvít Hávarsdóttir): Þessir kappar, Haukur Freyr Ásgeirsson og Fannar Sölvi Björgvinsson, tóku báðir þátt í Hágarðshlaupinu í fyrra og eru báðir að æfa knattspyrnu með yngri flokkum Þróttar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.