Orkumálinn 2024

Glæsilegur árangur á fyrsta meistaramóti fullorðinna

Þrír keppendur frá UÍA bættu allir sinn persónulega árangur á Meistaramóti Íslands sem haldið var á Selfossi fyrir skemmstu. Þjálfarinn segir þremenningana enn eiga meira inni.


„Þau voru að keppa í fyrsta sinn á meistaramóti fullorðinna og árangur þeirra er stórglæsilegur eftir því,“ segir þjálfari þeirra, Lovísa Hreinsdóttir.

Helga Jóna Svansdóttir úr Hetti bætti árangur sinn í langstökki, 110 metra grindahlaupi og þrístökki en hún komst í úrslit í öllum greinunum.

Daði Þór Jóhannsson úr Leikni bætti sinn besta árangur í þrístökki þar sem hann varð í þriðja sæti og Steingrímur Örn Þorsteinsson úr Hetti bætti tíma sinn í 200 metra hlaupi.

Lovísa segir árangur þeirra gleðilegan þar sem þau voru að keppa við besta frjálsíþróttafólk landsins. Helga Jóna keppti meðal annars við Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur sem um helgina vann til bronsverðlauna í 400 metra grindahlaupi á Evrópumóti 23 ára og yngri.

„Þetta var frábær reynsla fyrir þau og með að komast í úrslit í sínum greinum sást að þau eiga vel heima á þessu móti.“

Lovísa telur þau eiga meira inni og er stefnan sett á að toppa á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í lok ágúst. „Það er meira þeirra mót og þá uppskera þau eftir sumarið.“

Í millitíðinni keppa strákarnir á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum en þeir eru báðir 17 ára gamlir. Lovísa, sem er yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar Hattar, segir mikla tilhlökkun fyrir mótinu.

„Stemmingin er fín hjá krökkunum, áhuginn er sérstaklega mikill meðal þeirra sem eru að keppa í fyrsta sinn meðan önnur fagna því að fá loksins að keppa á heimavelli. Það er gott fyrir heimafólk að sækja fyrsta mótið í heimabyggð til að kynnast því og halda svo áfram.“

Steingrímur Örn, Helga Jóna og Daði. Mynd: Lovísa Hreinsdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.