Fótbolti: Einherji byrjar vel

Einherji frá Vopnafirði er í efsta sæti þriðju deildar karla í knattspyrnu eftir fyrstu umferð deildarinnar um helgina. Austfirsku kvennaliðin gerðu jafntefli í Austfjarðaslag helgarinnar.


Karlalið Einherja hóf keppni á útivelli gegn Reyni Sandgerði. Vopnfirðingar unnu leikinn 0-4 og skoruðu öll mörkin í fyrri hálfleik. Todor Hristov skoraði á 10. og 27. mínútu en Viktor Daði Sævaldsson bætti við þriðja markinu fimm mínútum fyrir leikhlé og Sigurður Donys Sigurðsson því fjórða þremur mínútum síðar.

Kvennalið Einherja spilaði einnig í gær en það heimsótti Fjarðabyggð/Hött/Leikni í Austfjarðaslag í úrhellisrigningu á Norðfirði. Barbara Kopaschi kom Einherja yfir eftir kortér en Elísabet Eir Hjálmarsdóttir jafnaði á 32. mínútu.

Í fyrstu deild karla tapaði Leiknir 3-0 fyrir Keflavík á útivelli eftir að staðan hafði verið 1-0 í hálfleik. Tveir Austfirðingar voru í liðsstjórn Keflavíkur. Guðlaugur Baldursson, ættaður af Borgarfirði, þjálfar liðið og honum er Eysteinn Hauksson, fyrrum þjálfari Hattar.

Höttur og Fjarðabyggð náðu í sín fyrstu stig í annarri deild karla í sumar. Georgi Karaneychev skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Fjarðabyggð þegar hann jafnaði gegn Tindastóli ellefu mínútum fyrir leikslok. Georgi kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Jónas Ástþór Hafsteinsson jafnaði fyrir Hött gegn KV á 28. mínútu og þjálfarinn Nenad Zivanovic kom liðinu yfir á 50. mínútu gegn KV sem jafnaði kortéri síðar í 2-2. Það urðu úrslit leiksins en liðin mættust á Fellavelli.

Huginn tapaði 3-2 fyrir Aftureldingu á útivelli. Afturelding komst í 2-0 strax í byrjun en Stefan Spasic minnkaði muninn á 15. mínútu. Mosfellingar bættu við einu marki enn fyrir leikhlé en Blazo Lalevic skoraði fyrir Huginn úr víti sex mínútum fyrir leikslok.

Í dag er síðasti dagur félagaskipta og verður lokað fyrir þau á miðnætti fram til 15. júlí.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar