Fótbolti: Einherji byrjar vel

Einherji frá Vopnafirði er í efsta sæti þriðju deildar karla í knattspyrnu eftir fyrstu umferð deildarinnar um helgina. Austfirsku kvennaliðin gerðu jafntefli í Austfjarðaslag helgarinnar.


Karlalið Einherja hóf keppni á útivelli gegn Reyni Sandgerði. Vopnfirðingar unnu leikinn 0-4 og skoruðu öll mörkin í fyrri hálfleik. Todor Hristov skoraði á 10. og 27. mínútu en Viktor Daði Sævaldsson bætti við þriðja markinu fimm mínútum fyrir leikhlé og Sigurður Donys Sigurðsson því fjórða þremur mínútum síðar.

Kvennalið Einherja spilaði einnig í gær en það heimsótti Fjarðabyggð/Hött/Leikni í Austfjarðaslag í úrhellisrigningu á Norðfirði. Barbara Kopaschi kom Einherja yfir eftir kortér en Elísabet Eir Hjálmarsdóttir jafnaði á 32. mínútu.

Í fyrstu deild karla tapaði Leiknir 3-0 fyrir Keflavík á útivelli eftir að staðan hafði verið 1-0 í hálfleik. Tveir Austfirðingar voru í liðsstjórn Keflavíkur. Guðlaugur Baldursson, ættaður af Borgarfirði, þjálfar liðið og honum er Eysteinn Hauksson, fyrrum þjálfari Hattar.

Höttur og Fjarðabyggð náðu í sín fyrstu stig í annarri deild karla í sumar. Georgi Karaneychev skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Fjarðabyggð þegar hann jafnaði gegn Tindastóli ellefu mínútum fyrir leikslok. Georgi kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Jónas Ástþór Hafsteinsson jafnaði fyrir Hött gegn KV á 28. mínútu og þjálfarinn Nenad Zivanovic kom liðinu yfir á 50. mínútu gegn KV sem jafnaði kortéri síðar í 2-2. Það urðu úrslit leiksins en liðin mættust á Fellavelli.

Huginn tapaði 3-2 fyrir Aftureldingu á útivelli. Afturelding komst í 2-0 strax í byrjun en Stefan Spasic minnkaði muninn á 15. mínútu. Mosfellingar bættu við einu marki enn fyrir leikhlé en Blazo Lalevic skoraði fyrir Huginn úr víti sex mínútum fyrir leikslok.

Í dag er síðasti dagur félagaskipta og verður lokað fyrir þau á miðnætti fram til 15. júlí.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.