Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir lagði toppliðið: Áttum sigurinn skilinn

Sameiginlegt lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis í annarri deild kvenna vann í gær sinn annan leik í sumar þegar liðið hafði betur, 1-0 gegn Aftureldingu/Fram á Norðfjarðarvelli. Þjálfarinn segir liðið hafa verið seinheppið upp við mark andstæðingana í sumar.



„Stelpurnar stóðu sig rosalega vel í þessum leik og áttu þennan sigur fyllilega skilinn. Þær hafa lagt hart að sér í sumar og ég er mjög stolt af þeim,“ segir þjálfarinn, Sara Atladóttir.

Afturelding/Fram hafði fyrir leikinn unnið alla leik sína sex, aðeins fengið á sig þrjú mörk og var í efsta sætinu. Liðið spilaði tvo leiki í ferðinni austur, vann Einherja 0-1 á Vopnafirði á föstudag.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir var hins vegar við botninn. Sara telur það ekki hafa verið verðskuldaða stöðu og vonast til að bjartara sé framundan.

„Við höfum verið að spila vel í leikjunum okkar í sumar en höfum ekki náð að uppskera þau stig sem okkur finnst við hafa átt skilið, aðallega vegna þess að við höfum ekki verið að ná að klára færin okkar. Við erum búnar að samstilla okkur vel núna og það er ekkert nema bjart framundan.

Við stefndum alltaf á eitt af þremur efstu sætunum í deildinni og ég spái okkur í það minnsta í þriðja eða fjórða sætið, þó svo við ætlum að sjálfsögðu að leggja okkur allar í að ná sem lengst.“

Þrír sigrar Hugins í röð
Leiknir lyfti sér loks upp úr botnsæti 1. deildar karla með 3-2 sigri á Þrótti Reykjavík, sem er í öðru sæti deildarinnar.

Gestirnir komust yfir strax á þriðju mínútu en Kristófer Páll Viðarsson og Kristinn Justiano Snjólfsson skoruðu á fimmtu og sjöttu mínútu. Kristinn bætti við þriðja markinu á loka mínútu fyrri hálfleiks.

Huginn er á uppleið í annarri deild karla eftir að hafa unnið sinn þriðja leik í röð en liðið lagði Völsung 0-2 á Húsavík. Gonzalo Leon skoraði bæði mörkin.

Fjarðabyggð gerði 1-1 jafntefli við Magna í leik sem færður var inn í Fjarðabyggðarhöllina á föstudagskvöld vegna mikilla rigninga á Eskifirði. Anton Bragi Jónsson kom Fjarðabyggð eftir um tíu mínútna leik en jöfnunarmarkið kom þremur mínútum fyrir leikslok. Höttur steinlá heima 0-3 gegn Aftureldingu á laugardag.

Einherji gerði jafntefli við topplið Kára frá Akranesi á Vopnafirði í þriðju deild karla. Todor Hristov skoraði fyrir Einherja á 11. mínútu en gestirnir jöfnuðu sjö mínútum fyrir leiksloka. Mikill hiti varð í uppbótartíma, þrjú gul spjöld fór á loft í uppbótartíma, þar af tvö á Einherja og var annað þeirra seinna gula spjald Bjarts Aðalbjörnssonar í leiknum.

Ljósmynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.