„Ég hef aldrei séð svo góða samvinnu“

„Það er eitt sem allir töluðu um eftir hlaupið – að þetta væri ein fallegasta hlaupaleið landsins auk þess að vera afar krefjandi,“ segir Inga Fanney Sigurðardóttir, hlaupastjóri Dyrfjallahlaupsins sem haldið verður í annað sinn í sumar.


Blásið var til Dyrfjallahlaupsins í fyrrasumar til þess að fagna 100 ára afmæli Ungmennafélags Borgarfjarðar, en svo vel tókst til að ákveðið var að halda það aftur í sumar.

„Þetta var alveg ógleymanlegur dagur, sól og blíða og keppendur slökuðu á í markinu í marga tíma eftir hlaup,“ segir Inga Fanney.

Um er að ræða 23 kílómetra utanvegahlaup með 1000 metra hækkun. „Hlaupið er mjög krefjandi og við mælum með því að fólk sé vant hlaupum og ekki endilega að velja sér þetta sem sitt fyrsta utanvegahlaup, en það er mjög tæknilega erfitt. Leiðin er mjög fjölbreytt og hefst á gömlum malarslóða, það er hlaupið á steinum, mosa, um mela, á grjóti, um Stórurð, í snjó og síðustu sex kílómetrarnir er hlaupið á grasbala niður í mót. Endað er á íþróttavellinum í bænum sem rammaður er inn af fjöllum og sjó þannig að þetta getur ekki verið betra.“

„Þetta var ótrúlegt teymi“
Inga Fanney segir allt skipulag og undirbúning hafa verið til fyrirmyndar í fyrra.

„Aðkoma heimamanna var hreint ótrúleg, en segja má að allt samfélagið hafi lagt sitt að mörkum á einn eða annan hátt. Um 40-50 sjálfboðaliðar voru að störfum, til dæmis á drykkjarstöðvum, í björgunarsveitinni og annarri gæslu, en það er ansi hátt hlutfall bæjarbúa. Ég hefði ekki getað kosið mér betri samstarfsfélaga, þetta var ótrúlegt teymi, allir vildu leggja sitt að mörkum á einhvern hátt. Ég hef aldrei séð svona gott samstarf, ef eitthvað kom upp var hugsað í lausnum og málið leyst.“

Mælir með því að hlauparar tryggi sér miða sem fyrst
Það seldist upp í hlaupið á aðeins einni viku í fyrra en í boði voru 200miðar. „Það fór alveg fram úr okkar björtustu vonum en við renndum alveg blint í sjóinn með þetta. Eftir hlaupið mátum við það sem svo að við treysum okkur til þess að bjóða 250hlaupara velkomna í ár.“

Miðasala í Dyrfjallahlaupið 2018 hefst á hlaup.is um hádegi á morgun, miðvikudag. „Ég verð að mæla með því að fólk hafi hraðar hendur ef það vill tryggja sér pláss því áhuginn er mikill og margir hafa haft samband.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.